Í tilefni af ágætri Kjarnagrein Sunnu Óskar Logadóttur um Seyðishólanámuna (10. sept.) fjalla ég um ýmsar hliðar námuvinnslu á Íslandi.
Námuvinnsla er ævagömul í mannheimum. Án hennar værum við skammt komin, hvort sem er við mannvirkjagerð, orkuöflun eða í samfélagsþjónustu og samgöngum. Sum jarðefni eru orðin vandfundin og margháttuð, bráðnauðsynleg endurvinnsla eða hringrásarhagskerfi fremur vanþroskuð ferli. Þar verður samfélag þjóðanna að taka sig mikið á ef vel á að fara og þarf hvorki sérfræðinga né stjórnmálamenn til að benda á ótal vankanta í þessum efnum. Lausnir eru vissulega á þeirra könnu, auk fjármagnseigenda, en líka almennings, fyrirtækja og ótal samtaka.
Mikilvægt er að halda fast við þá skilgreiningu að mikill meirihluti allrar námuvinnslu er ósjálfbær. Einfaldlega vegna þess að flestar auðlindir á yfirborði jarðar, að lífríkinu frátöldu, endurnýjast ekki eða endurnýjast hægt á mannlegan mælikvarða. Námuvinnsla er mis umhverfisvæn. Oftar en ekki er hún lítt umhverfisvæn, hvort sem er vegna loft-, vatns-, og sjávarmengunar eða vegna lýta á land og skemmda á lífríkinu. Í ótal tilvikum er sæst við slíkt vegna brýnna nauðsynja, en líka er víða of langt gengið. Verkefni allra tíma er að finna jafnvægi á milli náttúrunytja og náttúruverndar. Nú sem aldrei fyrr. Lengst af hefur það ekki tekist vel en undanfarna áratugi hafa orðið verulegar framfarir í þeim efnum, samfara aukinni þekkingu og skilningi á náttúrunni - og breyttum pólitískum áherslum.
Námugröftur á Íslandi er ekki fjölþættur. Nokkuð var grafið af eldgömlum gróðurleifum sem eldsneyti úr elsta hluta berggrunnsins: Surtarbandur og léleg brúnkol. Byggingarefni í hvers kyns mannvirki hefur lengi verið sótt í gjót, möl og sand úr lausum jarðlögum eða fjöllum, fellum og eldgígum. Leir hefur verið numinn til leirmunagerðar, kísilgúr úr Mývatni og vikur við Heklu.
Sóknin í byggingarefni hófst fyrir alvöru með tilkomu stórra vinnuvéla í seinni heimsstyrjöldinni og eftir hana. Þá var kroppað í nálæga námustaði um allt land, hvort sem þar hvoru að verki opinberir aðilar (t.d. Vegagerðin) eða einkaaðilar, jafnvel setuliðið. Alls eru líklega um 4.000 byggingarefnisnámur í landinu (yfir 3.800 skrásettar fyrir allmörgum árum!), smáar og stórar. Umtalsverðum hluta þeirra hefur ekki verið gengið sómasamlega frá. Vegagerðin hefur verið nokkuð ötul við að ganga frá misgömlum námum. Um tíma þóttu gígar og hraun gæfulegar námur en slíkir staðir voru þeir fyrstu sem náttúruvernd náði til. Löngu seinna var mat á umhverfisáhrifum framkvæmda lögbundið. Sú gjörð fækkaði virkum námum og sumar fengu leyfi til stækkunar svo hlífa mætti öðrum ætluðum námum og fækka þeim virku.
Enn er verið að skemma land að óþörfu með því að kaupa ekki efni úr umhverfismetnum, opnum námum heldur grafa efni úr skriðum í fjöllum, áreyrum og melum undir jarðvegi. Ávallt er þá efnismagn undir því lágmarki sem umhverfismat miðast við. Slíkt er á ábyrgð landeigenda og framkvæmdaaðila sem væntanlega eru hvorki sveitarfélög né ríkisstofnanir.
Á Íslandi eru ekki til kolanámur, olíu- eða gaslindir. Ekki heldur námur með ýmis konar algengum málmum. Engar námur með dýrum steinum.
Að vænlegum málmum var leitað t.d. á Suðausturlandi í kringum 1970, með litlum árangri. Löng saga gulleitar er kunn með ýmsum endurtekningum. Til eru gullforðar í gömlum háhitasvæðum til dæmis nálægt þéttbýlinu í Mosfellsbæ og í Víðidal fyrir norðan. Þeim fylgja önnur jarðefni. Enn er verið að kanna útbreiðslu móðurbergsins (kvars) á fyrrnefnda landsvæðinu til að meta mögulega vinnslu. Gullvinnsla, til að mynda, þarfnast mikils rýmis og vatns auk kemískra efna sem eru flest óumhverfisvæn - sum beinlínis hættuleg, t.d. vatnsleysanleg flúorsambönd, málmsambönd eins og áloxíð og sambönd málma og sýaníðs. Vinna má suma aðra málma úr mulningi og afrennsli vinnslunnar með sérkostnaði. Skárri aðferðir gullvinnslu hafa þróast en eru bæði dýrari en sú venjulega og óvíða reyndar í fullburða stíl. Hér verður ekki rökstudd afstaða til hugsanlegrar gullvinnslu á Íslandi.
Oft er gert mikið úr ljótleika stóru byggingarefnisnámanna, einkum á suðvesturhorninu. Nú er líka minnst á þann veruleika að „grafa burt fjall“ og þá átt við Litla-Sandfell við Þrengslaveg. Vel má fallast á þá skoðun að námurnar gætu verið minna sýnilegar á fjölförnum slóðum. Legan skýrist meðal annars af stuttum aðkomuvegum að helstu þjóðvegum, sbr. námur í Ingólfsfjalli, Lambafelli, Bolöldum og Vífilsfelli, og við Undirhlíðar (Krýsuvíkurveg). Héðan af verður vinnsla á þessum stöðum seint færð úr stað, jafn harkaleg og hún er. Get ekki mótmælt sívaxandi byggingarefnistöku í stórum námum en myndi vilja minna áberandi, nýja vinnslustaði. Einhvers staðar verður að ná í efni og þörfin virðist vaxa. Brýnt er að skylda frágang og sem bestan viðskilnað á námum. Einnig þarf að breyta lögum og hefta námugröft undir tilteknu magni nema öryggi eða mjög brýna nauðsyn beri til.
Tvö lítil námufjöll landsins eru varla hálf orðin: Stapafell og Súlur skammt frá Keflavík/Njarðvík og Höfnum. Stærsti gjallgígur Seyðishóla mun hverfa á 10 tl 15 árum. Ef til vill er hreinlegra að vinna þannig fremur en að grafa í sundur framhlíðar stórra fjalla. Litla-Sandfell er sömu gerðar og til dæmis Stapafellið og líkt hundruðum annarra móbergs- og bólstrabergsfella víða á yngri hluta landsins. Það merkir þó ekki að eyðing þess sé sjálfsögð enda margt fleira í húfi en jarðmyndunin sjálf.
Námuvinnslu byggingarefnis fylgir mikil mengandi vélanotkun og akstur flutningabíla. Opnum námum fylgir rykmengun og sums staðar líka akstrinum. Nú hillir undir orkuskipti sem minnka loftmengun vegna útblásturs véla en rykið losnar eftir sem áður. Mikið álag á fremur viðkvæmt vegakerfi eykst fremur en minnkar en allra nýjustu vegir þola þó betur þungaumferð en áður. Þolmörk vegakerfisins (helstu 12.000 km) í heild, hvað varðar slit, burðarþol, viðhald og öryggi, eru löngu brostin og ótækt að fjölga flutningabílum og ferðum þeirra á helstu þjóðvegum um marga tugi prósenta (eða hundruð?) á fáeinum árum.
Útflutningur byggingarefnis er sér kapítuli þegar kemur að ákvörðunum og leyfisveitingum. Erfitt eða ómögulegt er að samþykkja hefðbundinn vélagröftinn og stórfellda vegaflutninga. Einnig mengandi sjóflutninga (eins og stendur), eins þótt horft sé til lægra kolefnisspors við framleiðslu byggingarefna. Íblöndunarefni í sement og veggjaplötur er víðar til en á Íslandi. Horfa ber einnig til geymslu á lausu efni og útskipunar, hvort vinnsla og útflutningur henti samfélaginu í heild eða staðbundið og hvort ætti að fullvinna vistvænt byggingarefni hér á landi fremur en flytja hráefni út. Almennt séð getur Ísland aðeins tekið við erlendum iðnfyrirtækjum sem vilja stíga jákvæð skref í loftslagsmálum innan þolmarka sjálfbærni. Samfélagið er lítið, náttúran sérstæð og raforkan með fremur lág efri rafaflsmörk í heild. Og er ekki þörfin á fjölbreyttri fullvinnslu vara meiri en þörf á skjótfengnu fé fyrir hráefnisútflutning? Full orkuskipti og græn, fjölbreytt fullvinnslu- og þjónustustarfsemi er ramminn sem fylla þarf í. Þá fjölyrði ég ekki um gjörbreytta tekjuskiptingu og jafnrétti í eyríkinu. Það er vissulega hin hliðin á túkallinum.
Höfundur er jarðvísindamaður og fyrrum þingmaður VG.