Landsfundur LEB lýsti miklum áhyggjum af stöðu eldra fólks vegna viðvarandi skorts á hjúkrunarheimilum.
Hjúkrunarheimili eru fyrir mikið veikt fólk sem ekki getur lengur séð um sig sjálft m.a. vegna heilabilunar. Fólk sem þarfnast sólarhringsþjónustu ást og virðingar. Eldra fólk sem er orðið svona veikt er í veikri stöðu og verður að reiða sig alfarið á aðra. Fólk í þessari stöðu er varnarlaust og alfarið komið upp á aðra með þjónustu og hagsmunagæslu.
Það er sárt að horfa upp á framkomu stjórnvalda sem koma í veg fyrir að mjög veikt gamalt fólk fái notið lögbundinnar þjónustu og hjúkrunar með aðgerðaleysi og takmörkuðum fjármunum til uppbyggingar hjúkrunarheimila. Lýsing Marteins Sverrissonar í Fréttablaðinu 15. júní sl. af samskiptum sínum við kerfið vegna veikrar móður er átakanlegt en ekkert eins dæmi.
Hans niðurstaða er að stjórnvöldum sé sk... sama.
Nú bíða um rúmlega 400 einstaklingar eftir plássi og þar af liggja tæplega 100 einstaklingar á LSH og bíða eftir að geta útskrifast og komist á heimili þar sem þeir geta fengið þjónustu og aðbúnað við hæfi.
Í skýrslu Halldórs S. Guðmundssonar frá júní 2021 „Virðing og reisn“ er lagt mat á þörfina fyrir hjúkrunarheimili fram til ársins 2035 miðað við óbreytt hlutfall 80 ára og eldri sem þarfnast búsetu á hjúkrunarheimilum.
Í dag eru tæplega 3000 hjúkrunarrými í rekstri en miðað við óbreytt hlutfall verður þörfin tæplega 4800 árið 2035.
Til að mæta þörfinni telur Halldór að það þurfi rúmlega 130 ný rými á ári sem er árleg fjárfesting upp á 6 til 7. milljarða kr.
Bjarni Guðmundsson, tryggingafræðingur hefur rannsakað aldursbundna dánarlíkur og að meðaltali hafa lífslíkur á Íslandi aukist um 2,25 mánuði á ári frá árinu 1988 eða sem nemur einu ári á hverju fimm ára tímabili. Allt bendir til að lífaldur Íslendinga haldi áfram hækka og fleiri nái því að verða 80 ára og hópurinn sem verður 90 ára eldri mun stækka á næstu áratugum. Þetta er jákvæð þróun en hún krefst þess að sveitarfélög og ríki bregðist við á jákvæðan hátt en horfi ekki á þessa þróun sem óleysanlegt vandamál.
Í fjárlögum ársins 2022 og í drögum að fjármálaáætlun fyrir tímabilið 2023-2027 er gert ráð fyrir að fjárfesta í hjúkrunarheimilum fyrir 19,5 milljarða kr. Miðað við mat Halldórs á byggingarkostnaði við byggingu hjúkrunarheimila ætti þessi upphæð að duga til að byggja um 400 rými eða um 70 rými á ári. Þetta er væntanlega ofmat þar sem hluti fjármuna muni fara í endurbætur og viðhald. Þar til viðbótar kemur framlag sveitarfélaganna.
Það er ljóst að framansögðu að markmið stjórnvalda duga skammt til að mæta brýnni þörf til að fullnægja grunnrétti eldra fólks, það er að tryggja því öruggt heimili og þjónustu við hæfi þegar heilsan er farin að gefa sig og það getur ekki séð um sig sjálft. Við blasir að útskriftavandi LSH er ekki í sjónmáli og hann mun flytjast inn á nýjan spítala að öllu óbreyttu.
Fjör Gamalt fólk situr lasið heima og fær ekki þá aðhlynningu sem það þarfnast og á rétt á og aðstandendur eru örmagna.
Á undanförnum árum hafa margar nefndir verið skipaðar um rekstur og uppbyggingu hjúkrunarheimila og í hillum ráðuneyta er góður bunki af skýrslum. Því er ljóst að við þurfum ekki fleiri nefndir og skýrslur heldur fjármagnaða framkvæmdaáætlun og verkefnastjórn. Samhliða í stórátaki uppbyggingu hjúkrunarheimila þarf að tryggja aðra og fjölbreyttari búsetukosti fyrir eldra fólk sem tryggir greiðan aðgang að fjölbreyttri þjónustu, öryggi og samveru.
Þolinmæði eldra fólks og aðstandenda er þrotin. Krafan er einföld, stjórnvöld hætti að níðast á mjög veiku gömlu fólki sem er varnarlaust gagnvart aðgerðaleysi þeirra og tryggi því lögbundinn rétt að til geta búið við öryggi og fengið þjónustu við hæfi.
Marteinn Sverrisson komst að þeirri niðurstöðu að stjórnvöldum væri sk.. sama um hægi eldra fólks. Eftir samskipti við stjórnvöld síðustu misseri er stutt í að ég komist að sömu niðurstöðu.
Höfundur er formaður kjaranefndar Landssambands eldri borgara (LEB).