Spilling. Það var orðið sem var á allra vörum þegar ég var í Úkraínu fyrir skemmstu. Pólitíkusar, fulltrúar frjálsra félagasamtaka, leigubílstjórar, konan í kjörbúðinni – allir Úkraínumenn sem ég spjallaði við voru sammála um eitt: Það verður að takast á við spillinguna. Þegar Petro Poroschenko kom askvaðandi inn í gullbryddaðan fundarsalinn í forsetahöllinni í Kiev þar sem hann átti fund með fastafulltrúum ÖSE þá baðst hann forláts á því að vera seinn en sagði ástæðuna gleðiefni. Hann hafði verið að fylgja eftir frumvarpi sem sker upp herör gegn spillingu í landinu.
Nei, ekki bíða
Þetta er merkilegt því Úkraína er land í stríði. Harðir bardagar standa yfir í austurhlutanum þar sem aðskilnaðarsinnar hafa náð landsvæði sem telur 4,5 milljónir íbúa. Það væri freistandi að segja forgangsatriði að verja landið og að aðgerðir gegn spillingu verði að bíða. En nei, Úkraínumenn sjá sem er að þetta verður að gerast samhliða. Land sem er gegnsýrt af spillingu getur ekki varið sig. Einn viðmælandi sagði við mig að yfirstéttin í landinu skammaðist sín. Hún hefði verið svo upptekin við að maka krókinn fyrir sig og sína, með tilheyrandi óeiningu og vanrækslu á innviðum landsins, að þegar á reyndi var Úkraína veikburða og varnarlaus.
Hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE), þar sem ég starfa sem fastafulltrúi Íslands, er mikið pælt í þessum grundvallaratriðum. Starf ÖSE byggir á hinu svokallaða breiða öryggishugtaki (e. comprehensive security) sem gengur út á að virðing fyrir mannréttindum, lýðræði og réttarríkinu sé beinlínis forsenda friðar og öryggis. Ef þessir þættir eru ekki í lagi, þá er viðkomandi ríki óstöðugt inn á við og út á við.
Þetta snýst um pólitík
Aðferðafræði ÖSE er skýr. Aðildarríkin undirgangast pólitískar skuldbindingar um að virða grundvallarmannréttindi, að fram fari frjálsar og lýðræðislegar kosningar, og að farið sé að lögum og reglum. ÖSE aðstoðar svo eftir atvikum til dæmis með kosningaeftirliti, úttektum á stöðu mannréttinda og með því að aðildarríkin veita hvert öðru aðhald á vikulegum fundum fastaráðs stofnunarinnar.
Sums staðar á ÖSE-svæðinu er löggjöf ábótavant og stofnanir veikburða, og þá er á það bent og ríkin minnt á skuldbindingar sínar. Annars staðar er löggjöfin að mestu í lagi og stofnanir til staðar en hið pólitíska andrúmsloft er hins vegar með þeim hætti að hvorugt virkar sem skyldi. Skoðum þetta aðeins betur.
Lögin eru leikreglur samfélagsins og þau þurfa að vera skýr. Lagasetning er innanlandsverkefni en alþjóðasamvinna kemur að góðu gagni. Alþjóðlegar samþykktir og sáttmálar eru oft ákveðinn vegvísir. Fá málefnasvið eru séríslensk ef út í það er farið og við lítum gjarnan til reynslu annarra Norðurlanda, sem aftur taka mið af evrópskri löggjöf. Stofnanir á borð við ÖSE og Evrópuráðið, og líka ESB veita stundum ráðgjöf. Ekki til að miðstýra, fjarstýra eða hlutast til um innanríkismál heldur til að aðstoða.
Lög og reglur
En það er ekki nóg að hafa lög og reglur, það þarf líka að fara eftir þeim. Dómstólar, embætti saksóknara, lögregla og ýmsar eftirlitsstofnanir sinna eftirliti með framkvæmd laganna. En frjáls félagasamtök og ýmsir hagsmunahópar leika líka lykilhlutverk, svo ekki sé minnst á fjórða valdið, fjölmiðla.
Á móti gerum við kröfu til þessara „stofnana.” Frjáls félagasamtök eiga að vera fagleg, dómarar þurfa að vera óvilhallir, og eftirlitsstofnanir þurfa að vera sjálfstæðar og öflugar, svo dæmi séu nefnd. Fjölmiðlar eiga að segja satt og rétt frá en ekki draga einhvern taum. Stofnanir samfélagsins eiga að taka hlutverk sitt alvarlega og þær eiga að fá að sinna því án þess að sitja stöðugt undir ámæli.
„Samfélagið er ekki lengur eins og pýramídi þar sem stjórnvöld sitja efst, og svo koma aðrir þjóðfélagshópar koll af kolli. Samfélagið er miklu frekar keðja ólíkra hópa sem saman mynda eina heild.“
Og þá erum við komin að andrúmsloftinu. Á vettvangi ÖSE er mikið rætt um að hið pólítíska og samfélagslega andrúmsloft skipti sköpum, því eftir höfðinu dansi limirnir. Hvað er átt við með þessu? Jú, forystufólk þarf að tala skýrt og styðja við grundvallaratriðin en ekki grafa undan þeim. Það skiptir nefnilega máli hvað er sagt – og ekki sagt.
Dæmi: Það var eftir því tekið þegar stjórnvöld í einu aðildarríki ÖSE þögðu þunnu hljóði eftir að ráðist hafði verið á samkynhneigða sem voru í gleðigöngu. Árásarmennirnir voru handteknir en það vakti athygli að stjórnvöld stigu ekki upp til að mótmæla hatursglæpnum. Enginn sagði neitt og þau þöglu skilaboð voru skýr.
Dæmi um hið gagnstæða er þegar Joachim Gauck forseti Þýskalands fordæmdi tafarlaust hatursorðræðu gegn gyðingum sem birtist nýlega í mótmælum í Berlín. Og hann breikkaði samhengið og minnti á að fordómar og hatursorðræða sem birtist gegn einum hópi í dag, getur birst gegn öðrum hópi á morgun. Fordómar í garð múslima, innflytjenda, gyðinga, kristinna, hvítra eða svartra, eru greinar af sama meiði.
Það þarf sumsé að taka skýra afstöðu. Ekki bara gegn fordómum og ofbeldi eins og í dæmunum hér að framan, heldur líka varðandi lög og stofnanir samfélagsins. Það þarf að huga að og taka stöðu með grundvallaratriðunum. Það er hlutverk okkar allra því öll berum við ábyrgð.
Samfélagið er ekki lengur eins og pýramídi þar sem stjórnvöld sitja efst, og svo koma aðrir þjóðfélagshópar koll af kolli. Samfélagið er miklu frekar keðja ólíkra hópa sem saman mynda eina heild. Hver hefur sitt hlutverk og sín sjónarmið – og það þarf að virða. Enginn einn er óskeikull og allir þurfa að vanda sig. Við þurfum að virða lögin, standa með stofnunum okkar og skapa andrúmsloft sem leyfir og ýtir undir lýðræðislega málefna umræðu (og já, líka gagnrýni). Aðeins þannig er keðjan sterk.
Mannréttindi, lýðræði, réttarríki. Löggjöf og stofnanir, frjáls félagasamtök og fjölmiðlar. Andrúmsloft sem leyfir umræðu og virðir ólík hlutverk.
Þetta eru grundvallaratriðin samkvæmt ÖSE. Þegar þau eru ekki í lagi, þá er voðinn vís. Er ég of dramatískur? Spyrjið fólkið í Úkraínu.
Höfundur er fastafulltrúi Íslands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu