Nýlega birtist á vef Stjórnarráðsins fréttatilkynning um fund menningarmálaráðherra Norðurlanda sem haldinn var í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í byrjun mánaðarins. Færsla sama efnis birtist á fésbókarsíðu íslenska fulltrúans í þessum ráðherrahópi og síðar kom blaðagrein í nafni ráðherra í Morgunblaðinu.
Í fréttatilkynningunni kom meðal annars fram að ráðherrarnir hefðu ákveðið að veita 180 milljónum króna aukalega til norræns menningarsamstarfs á næsta ári. Í fésbókarfærslunni og blaðagreininni sagði einnig að fjárveitingar til þessa málaflokks yrðu auknar. Það er rangt. Raunar er það svo öfugsnúin túlkun á því sem gerðist við mótun fjárhagsáætlunar norræns samstarfs fyrir næsta ár að halda mætti að boðskapurinn hafi komið úr öflugri áróðursmaskínu. Þetta er undrunarefni því engin ástæða er til að ætla annað en að fulltrúi Íslands í hópi norrænu ráðherranna vilji veg samstarfsins og menningarlífsins sem mestan. Hvers vegna vill ráðherrann þá hreykja sér af afrekum sem eru í raun ekki annað en orðaleikir og bókhaldsbrellur?
Ráðherrann sagði einnig þær gleðifréttir að ákveðið hefði verið að verja rúmum 76 milljónum íslenskra króna til nauðsynlegra viðgerða á Norræna húsinu, sem er ágætt fyrsta skref, því á næstu árum þarf 600 milljónir króna til að ljúka viðgerðunum. Mennta- og menningarmálaráðherra verður að fylgja þessu máli fastar eftir og verja þessa borgarprýði og meistaraverk finnska arkitektsins Aalvar Altos sem er helsta miðstöð og merki norræns samstarfs á Íslandi.
Ríkisstjórnir Norðurlanda samþykktu árið 2019 nýja framtíðarsýn norræns samstarfs til ársins 2030. Þar eru lofsverð markmið um að gera Norðurlönd að sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Megináherslan er lögð á að efla starf í loftslags- og umhverfismálum.
Ríkisstjórnunum var ljóst að til að ná markmiðunum þyrfti að auka fjárveitingar til þessara málaflokka. Einhverjum kann að finnast þetta sjálfgefin og augljós niðurstaða: Ef styrkja á starf á tilteknu sviði þarf að jafnaði að verja til þess auknu fé. Í norrænu samstarfi er þetta engu að síður nokkur nýlunda því á síðustu 25 árum rúmum hafa ráðamenn í löndunum talað af mikilli sannfæringu fyrir eflingu norræns samstarfs en á sama tíma hafa fjárveitingar til þess dregist verulega saman. Sem hlutfall af þjóðarframleiðslu eru þær aðeins helmingur þess sem var fyrir aldarfjórðungi.
Talnaglöggir sérfræðingar Norrænu ráðherranefndarinnar virðast hafa farið í gegnum reikninga samstarfsins og séð að feitustu bitarnir sem hægt var að tálga af norræna sauðinum væru framlög til menningar- og menntamála. Ekki höfðu menn miklar áhyggjur af því hvort skepnunni yrði meint af þessari meðferð. Líklega hefur þar ráðið reynsla undanfarinna ára sem sýnt hefur að samstarfið tórir þótt það sé svelt, skorið og beitt harðræði. Ekki var hnífnum heldur beitt af nákvæmni eða með umhugsun. Þau menningar- og menntaverkefni sem látin voru fjúka virðast hafa verið valin af handahófi því ekki var haft fyrir því að rökstyðja af hverju þau skyldu valin fremur en önnur.
Norðurlandaráð stöðvaði niðurskurðinn
Niðurskurðarstarfið hófst 2019 þegar farið var að undirbúa fjárhagsáætlun næsta árs á eftir. Um líkt leyti hófst faraldurinn sem heimsbyggðin hefur tekist á við síðan. Menningarlífið varð eins og kunnugt er illilega fyrir barðinu á þeim vágesti. Við þingmenn í Norðurlandaráði, samstarfsvettvangi norrænu þinganna, sem ekki vorum höfð með í ráðum við mótun framtíðarsýnarinnar, áttuðum okkur á því að tímasetningin væri óheppileg og að réttast væri í það minnsta að fresta tilfærslum á fjármunum þangað til ástandið hefði batnað. Eftir strangar samningaviðræður okkar íslensku þingmannanna, sem þá vorum í formennsku í Norðurlandaráði, við fulltrúa ríkisstjórnanna tókst tímabundið að fá nokkuð dregið úr niðurskurðinum í mennta- og menningarmálum.
Á þessu ári ætlaði Norræna ráðherranefndin að halda niðurskurðinum áfram en nú höfðum við þingmennirnir fengið nóg. Jafnframt benti Norræna félagið og fleiri fylgismenn norræns samstarfs á hversu vanrækt samstarfið hefði verið undanfarin ár og áratugi og lögðu til að í stað þess að færa fé milli málaflokka yrðu framlög landanna aukin þannig að hægt yrði að gera framtíðarsýnina að veruleika án þess að veikja þá grunnstoð sem menningar- og menntamálin eru.
Með miklu harðfylgi og breiðri samstöðu þingmanna þvert á flokkahópa tókst Norðurlandaráði að stöðva að mestu niðurskurðinn á framlögum til mennta- og menningarmála í fjárhagsáætlun komandi árs. Samkomulag náðist einnig um að hefja viðræður milli Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar um endurskoðun á fjárhagsáætlunarferli og fjármálum norræns samstarfs.
Og þá kemur að kjarna málsins: Rausnin sem mennta- og menningarmálaráðherra gumar af í fréttatilkynningu, fésbókarfærslu og blaðagrein felst ekki í því að auka framlög til málaflokksins heldur í því að hætta við fyrirhugaðan niðurskurð. Og það var ekki gert að frumkvæði ráðherranna, heldur af því að Norðurlandaráð, Norræna félagið og fulltrúar menningarlífsins beittu ríkisstjórnirnar hörðum þrýstingi. Meðal annars hótuðu þingmenn að fella fjárhagsáætlun næsta árs á Norðurlandaráðsþingi en það hefur aldrei gerst síðan Norræna ráðherranefndin var stofnuð í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar og hefði orðið ríkisstjórnunum og samstarfinu mikill álitshnekkir. Jafnframt þarf að hafa í huga að ríkisstjórnir Norðurlanda hafa engu lofað um framhaldið. Samkvæmt langtímaáætlunum þeirra á að halda áfram niðurskurðinum í menningar- og menntamálum á næstu árum. Í þetta sinn var hægt að stoppa í götin með því að nota fé sem sparast hafði í fyrra í norrænu samstarfi vegna samdráttar á Covid-tímum. Það er ekki framtíðarlausn.
Mennta- og menningarmálaráðherra Íslands þarf því ekki annað en að leiðrétta misskilning sinn á stöðu mála og einhenda sér síðan í að tryggja fjármögnun norræns samstarfs til framtíðar, verði hún ráðherra í næstu ríkisstjórn.
Menningarsamstarfið er grunnur alls annars
Þegar ráðist var í niðurskurð á framlögum til til menningar- og menntamála á Norðurlöndum virðist það eitt hafa ráðið ferðinni að þar var mest fé fyrir. Enginn virðist hafa velt því fyrir sér af hverju þessir málaflokka hafa allt frá upphafi opinbers samstarfs Norðurlanda hlotið meira fjármagn en önnur svið þess. Norrænir ráðamenn fyrri tíma áttuðu sig á því að menningin og menntasamstarfið, ekki síst kennsla í tungumálum nágrannalandanna, var og er undirstaða alls annars. Ef innbyrðis tengsl og samkennd landanna er ekki sterk verður samstarfið í heild sinni bitlaust sverð þegar kemur að því að vinna saman að loftslags- og umhverfismálum, framgangi lýðræðis og mannréttinda á alþjóðavettvangi, viðhalda norræna módelinu eða öðrum hagsmunamálum Norðurlanda.
Þegar nefnd eru aukin framlög til norræns samstarfs er líklegt að einhverjir geri þá athugasemd að allar opinberar stofnanir telji sig alltaf þurfa aukið fé. En hafa ber í huga að þær óskir sem flokkahópur jafnaðarmanna í Norðurlandaráði, Norræna félagið og fleiri stuðningsmenn norræns samstarfs hafa borið upp á undanförnum mánuðum og árum ganga ekki út á annað en að laga þá miklu skerðingu sem það hefur orðið fyrir á síðustu 25 árum.
Einnig þarf að hafa í huga þann ávinning sem löndin hafa af samstarfinu. Sú krafa er ávallt gerð til verkefna sem fá norrænan fjárstuðning að þau hafi "norrænt notagildi" sem þýðir að þau þurfa að skila meiru en ef löndin ynnu að sama marki sitt í hvoru lagi. Ávinningur Íslendinga af samvinnunni er svo mikill og óumdeilanlegur að íslenskir ráðherrar ættu allir að minna sem oftast á mikilvægi þess og vinna að því samstíga að efla norrænt samstarf. Um gagnsemi norræns samstarfs fyrir Íslendinga vísa ég að öðru leyti í nýlega grein Hrannars Björns Arnarssonar, formanns Norræna félagsins, með fyrirsögninni "Björgum norrænu samstarfi".
Samstarf með djúpar rætur
Eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar treystu Íslendingar um áratuga skeið á hervernd og efnahagslegan og pólitískan stuðning Bandaríkjamanna. Það skjól byggðist fyrst og fremst á hagsmunum stórveldisins af því hafa aðstöðu til hervarna á miðju Atlantshafi. Þegar dró úr þeirri þörf hvarf stuðningurinn við Ísland að mestu og Bandaríkjamenn beindu sjónum í aðrar áttir. Nú höfum við fangað athygli þeirra á ný að nokkru leyti í ljósi breyttra aðstæðna í alþjóðamálum en enginn veit hversu lengi það endist eða hvert sú athygli leiðir.
Samband okkar við Norðurlönd byggir á öðrum og traustari grunni. Milli landanna eru djúp söguleg og menningarleg tengsl. Við höfum sameiginlega sýn og gildi í grundvallarmálum sem varða lýðræði, mannréttindi, réttarríkið og almennt um uppbyggingu og skipulag réttláts þjóðfélags. Norrænu ríkin hafa löngu gefið upp á bátinn alla stórveldisdrauma. Stuðningur þeirra við Ísland síðustu áratugi hefur ekki ráðist af hernaðarhagsmunum eða miðað að yfirráðum eða að því að þröngva Íslendinga til að fylgja þeim að málum.
Norðurlöndin eru öll smáríki en Ísland þeirra minnst og framlag okkar til samstarfsins er lítið í krónum talið. Engu að síður er hlustað á rödd Íslendinga, ekki síst þegar skýrt kemur fram vilji til náinna tengsla við hin löndin og virðing fyrir menningu þeirra og gildum. Nú væri ráð að næsti mennta- og menningarmálaráðherra léti til sín taka heima fyrir við að styrkja stöðu skandinavísku tungumálanna í íslenska skólakerfinu, efla Norræna húsið og að öðru leyti vinna að traustari tengslum Íslands við Norðurlöndin. Næst þegar ráðherra kemur á fund norrænna starfssystkina sinna getur ráðherrann þá talað af trúverðugleika um að efla þurfi norrænt samstarf og að Ísland vilji einhverju kosta til. Þá verða spunameistararnir óþarfir og sömuleiðis bókhaldsbrellurnar. Það mun skila raunverulegum árangri.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.