Nýafstaðinn landsfundur Samfylkingarinnar samþykkti að frumkvæði Ungra jafnaðarmanna og með miklum meirihluta greiddra atkvæða framsæknustu umhverfisstefnu flokksins til þessa. Umhverfisstefnu sem hafnar áformum um vinnslu jarðefnaeldsneyta við Íslandsstrendur. Með þessu er flokkurinn kominn í forystu í umhverfismálum í íslenskum stjórnmálum og er fyrstur stjórnmálaflokka til að taka afgerandi afstöðu gegn olíuvinnslu á Drekasvæðinu.
Með samþykktinni er Samfylkingin ekki bara að taka afstöðu gegn olíuvinnslu. Hún er einnig að taka afstöðu gegn loftslagsbreytingum. Hún er að taka afstöðu gegn flóðum, þurrkum og ofsaveðrum og með fátæku fólki í þróunarlöndum sem glímir nú þegar við alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga. Hún er að taka afstöðu gegn einum skítugasta orkugjafa heims og með umhverfisvænum valkostum framtíðarinnar í orkumálum. Loks tekur hún afstöðu gegn auknum útblæstri gróðurhúsalofttegunda og með markmiði Sameinuðu þjóðanna um að halda hlýnun jarðar innan við +2°C.
Ætli heimsbyggðin að ná því markmiði - og forðast hörmulegustu afleiðingar loftslagsbreytinganna - þá verða tveir þriðjuhlutar þekktra jarðefnaeldsneyta að verða eftir í jörðinni. Þetta er staðreynd sem byggir á skýrslum sérfræðinganefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Í ljósi þessa - og í ljósi alvarleika málsins ef ekkert verður að gert - hvað er þá olíuvinnsla á Drekasvæðinu annað en skilaboð til heimsbyggðarinnar um að Ísland, eitt efnaðasta ríki heims, ætli ekki að standa við sitt, ætli ekki að standa við markmiðin, ætli ekki að standa við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum?
Einstakt tækifæri
Það getur ekki hvaða land sem er ákveðið að láta olíulindir sínar vera. Það er t.d. mun erfiðara fyrir Noreg, sem hefur framleitt olíu í yfir 40 ár, að segja allt í einu stopp. Efnahagur Noregs er það háður olíunni að stopp í olíuvinnslu þýddi algjört efnahagshrun. Skörp lækkun heimsmarkaðsverðs á olíu í vetur varð t.a.m. til þess að norska krónan hrundi. Þetta er vandamál sem Íslendingar þurfa ekki að glíma við - að minnsta kosti ekki á meðan við látum olíuna vera. Íslendingar eru því í fullkominni stöðu til að taka af skarið, vera öðrum ríkjum fyrirmynd og taka afgerandi afstöðu í loftslagsmálum. Að geyma olíuna á Drekasvæðinu gæti orðið stærsta einstaka aðgerð Íslendinga í þágu loftslagsins.
Við getum ekki átt kökuna og étið hana líka. Við getum ekki talað fallega um aðgerðir í loftslagsmálum á tyllidögum og á alþjóðlegum ráðstefnum og á sama tíma tekið ákvörðun um að hella íslenskri olíu á loftslagseldinn. Framtíðin er olíulaus. Látum olíu okkar liggja og tökum framtíðinni opnum örmum.
Höfundur er stjórnarmaður í Ungum jafnaðarmönnum.