Samtök kvenna um Nýja stjórnarskrá eiga heiður skilið fyrir að hafa vakið athygli á mikilvægi þess að lögfesta beri nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. Þau hafa á liðnum misserum virkjað landsmenn til að huga að þeim órétti sem stjórnmálaöflin hafa beitt hið lýðræðislega og fagra ferli sem ritun nýju stjórnarskrárinnar var. Ég hrósaði þeim í eyru konu með ríka réttlætiskennd, sem tók undir orð mín, og benti mér á, að breska kvenréttindakonan, Emmeline Pankhurst, hefði eitt sinn sagt í einum af sínum mörgu og beittu ræðum: „Konur eru mjög seinar til að rísa upp, en þegar þær hafa risið upp, þegar þær hafa ákveðið sig, fær þær ekkert á jörðu og ekkert á himni til að gefast upp; það er ógerlegt ...“
Fyrrnefnd samtök lyftu grettistaki án þess að hafa að baki sér voldug fyrirtæki eða stjórnendur þeirra með bólgna vasa af ágóða af eigum almennings, fyrirtæki sem sum halda úti „skæruliðum“ til að berja á þeim sem ögra forréttindastöðu þeirra í landinu. Þessi fyrirtæki halda úti fréttaveitum sem bjaga sannleikann og í sumum tilfellum hafa þau ráðið til sín menn sem hegða sér eins og skúrkar í hasarmyndum. Konurnar beittu einungis samtakamætti sínum og höfðu atkvæðisrétt sinn og réttlætiskennd ein vopna í örvamælum sínum.
Viska almennings. Ég man það eins og gerst hefði í gær þegar 523 frambjóðendur til stjórnlagaþings fengu hver og einn að kynna mál sitt í útvarpi allra landsmanna árið 2010. Að upplifa það að allt þetta fólk hafði sínar skoðanir á landsins gagni og nauðsynjum og tjáði þær í orði, með rökum og sannfæringu, færði mér heim sanninn um, að í öllu fólki býr viska. Ég hef einnig komist að því sem prestur sem hefur skrifað urmul minningarorða um ólíkt fólk á öllum aldri, að ævi sérhverrar manneskju er merkileg, því þar býr reynsla og viska, bæði súr og sæt.
Við 25, sem kosin vorum til stjórnlagaþings, vorum kosin sem einstaklingar en ekki sem pakkatilboð af listum stjórnmálaflokka.
Hæstiréttur ógilti kosninguna á eintómum getgátum eða hýpótesum um að einhvers staðar hefði hugsanlega einhver getað með einhverjum hætti, séð einhvers staðar yfir skjólborðið á milli kjörbása og komist að því hvað einhver annar kjósandi hugsanlega kaus. Ég er sannfærður um að allar kosningar á Íslandi í áranna rás mætti ógilda með sömu getgátum.
Stjórnvöld sáu við þessari ósvinnu Hæstaréttar og skipuðu þau sem valin höfðu verið til stjórnlagaþings í stjórnlagaráð. Ég vek athygli á því að að baki þeim sem valin voru var meira atkvæðamagn en að baki þingmönnum á yfirstandandi þingi sem senn lýkur. Hluti kjósenda að baki hverjum sitjandi þingmanni er 1,254% en að baki hverjum fulltrúa stjórnlagþings var hann 1,438%. (Þorkell Helgason, stærðfræðingur)
Stjórnlagaráð skilaði verki sínu á fjórum mánuðum og að margra mati með undraverðum árangri sé vísað til sérfróðra manna á sviði stjórnarskrárfræða í mörgum löndum. Eftirtekt hefur vakið hve mikinn aðgang almenningur hafði að ferlinu, bæði sérfróðir einstaklingar og almennt áhugafólk um grundvallarlög landsins.
En hvað svo?
Hvers vegna hefur Alþingi ekki tekið tillögu stjórnlagaráðs til afgreiðslu?
Andstæðingum þessa starfs má auðveldlega finna stað, aðallega í þremur stjórnmálaflokkum, Sjálfstæðisflokki, Framsókn og Miðflokki. Slitrur má svo finna innan annarra flokka. Döngunarleysi og svik sumra þingmanna í Samfylkingunni og misbeiting dagskrárvalds hjá forseta Alþingis á sínum tíma skaðaði vissulega ferlið.
En hvað hafa menn fram að færa í gagnrýni sinni á nýju stjórnarskrána sem oft er nefnd svo? Hafa stjórnmálamenn komið með einhver haldbær rök? Nei, engin rök frá einum einasta andstæðingi. Þeir bara nöldra án raka, eru í fýlu vegna þess að þeir sjálfir eða aðrar fylgispakar strengjabrúður flokkanna tóku ekki þátt í leiknum. Þeir hafa reynt að varpa rýrð á fulltrúa stjórnlagaráðs og sagt þetta fólk ekki spegla þjóðina. En gera þeir það sjálfir? Þeir una ekki úrslitum í „landsleiknum“ - og því má í raun, að breyttu breytanda, líkja þeim við fótboltabullurnar ensku á dögunum, sem hegðuðu sér eins og naut í flagi.
Andstaðan er ekki rökleg, ekki málefnaleg, heldur er hún siðferðisleg. Alþingi skortir siðferði þegar það hunsar þjóðarviljann. Andstæðingarnir tönnlast á því að allt of lítil þátttaka hafi verið í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2011, en skoðanakannanir gerðar á sama tíma sýndu að engu skipti hvort þátttakendur voru 49% eða 75% því niðurstöður skoðanakannana sýndu viðlíka niðurstöðu og talning atkvæða gerði og hafa æ síðan sýnt sömu niðurstöðu. Rökin þeirra eru því bara nöldur eins og urgur í reiðum hundum.
Á vef Hagstofunnar er þetta tekið saman:
„Við kosningarnar voru alls 236.850 á kjörskrá, 73,9% landsmanna. Af þeim greiddu 115.890 atkvæði, 48,9% kjósenda. Kosningaþátttaka karla var hærri en kvenna, 49,9% á móti 47,9% hjá konum.“
Þau sem mæta á kjörstað og kjósa ráða för. Hin sem heima sitja hafa þar með fært þeim sem kusu það vald í hendur að ráða úrslitunum.
Andstaða stjórnmálaaflanna er siðferðileg því hún byggir nefnilega á skorti á siðferði.
Í Neskirkju sem er í Ringsaker á Heiðmerkursvæðinu í Noregi, þar sem ég þjónaði sem sóknarprestur í 4 ár, og er ein höfuðkirkna á svæðinu, er emeleraður skjöldur á vegg við hliðið að kirkjugarðinum þar sem kirkjan stendur. Þar er þess minnst að í kirkjunni fór fram kosning til stjórnlagaþings árið 1814. Kosið var í öllum höfuðkirkjum um land allt, utan í einu héraði sem fékk konungsbréfið um kjörið svo seint að þeim tókst ekki að undirbúa kosninguna. Þingið kom svo saman á Eiðsvelli og samdi stjórnarskrá Noregs sem enn stendur, ein sú elsta í heiminum. Þar fóru menn eftir leikreglum en ekki geðþótta eða geðvonsku áróðursmanna, eins og hér á landi, sem reka sín mál rakalaust og eru ofan í kaupið, beint eða óbeint, á launum og bitlingum hjá þeim sem hirða óeðlilegan arð af sjávarauðlind okkar landsmanna.
Vandi Íslands er siðferðislegur. Fólk sem virðir ekki þjóð sína og meiningar hennar þarf að taka sig á og huga að hugtökum eins og réttlæti og sannleika, jafnræði og virðingu, kærleika og hamingju einstaklinga og þjóðarheildar.
Almenningur býr yfir visku og stjórnarskrárvaldið er í höndum hans. Alþingismenn eru kallaðir til að vinna í umboði þjóðar sinnar en hún hefur ekki gefið þeim stjórnarskrárvaldið. Það liggur hjá þjóðinni.
Í komandi kosningum færi vel á því að þjóðin sýndi vilja sinn öðru sinni í stjórnarskrármálinu með því að veita þeim frambjóðendum einum brautargengi sem ætla megi að hafi og sýni siðvit og siðvilja og kunni að standa í fæturna. Veljum slíkt fólk til að þjóna þjóð okkar á braut réttlætis og sannleik, en hegða sér ekki eins og fótboltabullur, sem fara í fýlu af því að niðurstaða leiksins var þeim ekki í hag.
Virðum úrslit kosninga, virðum lýðræðið og þar með stjórnarskrárgjafann, þjóðina sjálfa og visku hennar, óhefta af ráðvilltum stjórnmálaöflum.