Benedikt Erlingsson, leikstjóri, kvikmyndagerðarmaður og leikari, er með okkar allra skemmtilegustu og beittustu hugsuðum. Hann er næmur á tíðarandann og þjóðarsálina, og kemur hlutum frá sér með bæði áhrifamiklum og eftirminnilegum hætti.
Í viðtali sem Kjarninn tók við hann í fyrra, gerði hann að umtalsefni stefnu stjórnvalda gagnvar Ríkisútvarpinu, og sagði hreina „niðurrifstefnu“ vera í gangi. Bæði væri um að ræða fjárhagslegt svelti og einnig fullkomið metnaðarleysi gagnvart því mikilvæga starfi sem Ríkisútvarp ætti að sinna í samfélaginu. Tók hann dæmi af starfsemi DR, danska ríkisútvarpsins, og hvernig það væri að endurspegla danskt samfélag í gegnum vandað leikið efni samkvæmt djúpri langtímastefnu. Þetta væri svo vel gert, að þetta væri orðið að mikilli útflutningsvöru fyrir danskt þjóðarbú.
Benedikt nefndi einnig að sú nýja staða væri komin upp á Íslandi, að þeir stjórnmálamenn sem störfuðu hægra megin við miðju, styddu ekki við menningarstarfsemi eins og reyndi hefði verið áður fyrr. Hægri menn hefðu beitt sér fyrir uppbyggingu Þjóðleikhússins, Íslensku óperunnar og fleiri mikilvægra menningarstofnanna. Nú virtist önnur staða uppi, sem ekki væri gott að segja hvert myndi leiða.
Nú þegar landsfundur Sjálfstæðisflokksins er að baki þetta árið, liggur nú fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt það niður í orð í opinberri stefnu sinni, að hann vilji að Ríkisútvarpið verði lagt niður í núverandi mynd. Í ályktun landsfundar segir: „Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra
fjölmiðla. Landsfundur leggur til að þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil verði endurskilgreind og
Ríkisútvarpið ohf. verði lagt niður í núverandi mynd.“
Fullt tilefni er til að endurskoða hvernig Ríkisútvarp skal rekið og hvaða hlutverki það á að gegna. Það er raunar mál, sem á að vera til sífelldrar endurskoðunar, enda er slíkt hluti af faglegri stefnumótun þegar menningarstarf er annars vegar. En þetta eru engu að síður afdráttarlausari skilaboð um málefni Ríkisútvarpsins, en hafa verið formlega sett niður í stefnu flokksins hingað til. Eðlilega hafa ýmis viðhorf verið uppi varðandi þátttöku ríkisins á fjölmiðlamarkaði, en þetta verða samt að teljast nokkur tíðindi.
Að undanförnu hefur þriggja manna nefnd, undir forystu Eyþórs Arnalds, verið að vinna að úttekt á Ríkisútvarpinu. Skýrsla nefndarinnar verður afhent ráðherra mennta- og menningarmála, Illuga Gunnarssyni, í vikunni. Fróðlegt verður að sjá hvernig efnistökin í skýrslunni verða, og hvort það mat sem í henni kemur fram, tóni við nýlega samþykkta stefnu Sjálfstæðisflokksins. Um að leggja niður Ríkisútvarpið í núverandi mynd.
Þá er kannski komið svar við spurningunni sem Benedikt varpaði fram í fyrra, um hvert ný viðhorf gagnvart Ríkisútvarpinu myndu leiða.