Lög Háskóla Íslands gera ráð fyrir að hver rektor sitji aðeins tvö kjörtímabil, eða 10 ár. Það kemur ekki til af engu, heldur af reynslu farsælla stofnana og fyrirtækja um að hollt sé að skipta um stjórnendur reglulega.
Okkur stendur til boða að velja milli tveggja góðra vísindamanna og reyndra stjórnenda í rektorskjörinu á mánudag. Annar hefur verið við völd sem nánasti aðstoðarmaður rektors síðasta áratug og vararektor síðasta kjörtímabil. Hinn, Guðrún Nordal, hefur undanfarin ár stýrt einni mikilvægustu menningarstofnun þjóðarinnar, Árnastofnun, og verið í formennsku þeirra stofnana sem fjármagna vísindi bæði hér á landi (vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs) og á Norðurlöndum (NordForsk). Ég ætla að kjósa nýja rektorinn, þann sem kemur með ferska sýn að Háskólanum.
Guðrún Nordal er víðsýn kona sem nær til allra, hlustar vandlega og nær fólki saman. Sem formaður vísindanefndar hefur hún öðlast skilning á þörfum allra greina vísindasamfélagsins. Hún hefur talað máli vísinda við stjórnvöld með þeim árangri að fjármögnun rannsókna hefur verið stóraukin. Í góðri samvinnu ólíkra hagsmunahópa leiddi hún mikilvægar umbætur á öllu verklagi við mat og úthlutun rannsóknarstyrkja. Hún á gott með að vinna með ólíku fólki og leiða það til farsællar niðurstöðu.
Umræður liðinna vikna hafa sannarlega leitt í ljós að það þarf margt að laga í Háskólanum. Ég ætla ekki að rekja það hér, enda of langt mál upp að telja.
En ég treysti Guðrúnu til að leiða þær umbætur sem þarf að gera á Háskóla Íslands til að nemendur og starfsmenn fái notið sín í starfi og skólinn geti sinnt sínu mikilvæga hlutverki.
Háskólinn er langstærsta mennta- og rannsóknarstofnun landsins – á margan hátt kjölfesta menningar hér á landi. Guðrún hefur sett fram skýra framtíðarsýn um háskóla sem sinnir íslenskri þjóð um leið og hann situr til borðs með bestu vísindamönnum alþjóðasamfélagsins. Við erum háskóli í örsmáu hagkerfi, en ef rétt er á spöðum haldið getum við tekið fullan þátt í alþjóðlegu vísindastarfi í miklu meira mæli en nú er. Þegar taka sterkir rannsóknarhópar þátt í alþjóðlegu samstarfi og sumum hefur tekist að afla gríðarmikilla fjármuna til rannsókna erlendis frá. Þessa sókn er hægt að stórauka með réttum stuðningi við fleiri rannsóknarhópa.
Guðrún Nordal sér tækifæri Íslands og skyldur til að takast á við þau stóru vandmál sem mannkynið stendur frammi fyrir. Henni er ljóst mikilvægi þess að leiða saman sérfræðinga á mörgum sviðum og mun vinna að því að skipulag Háskólans standi ekki í vegi fyrir þverfræðilegri samvinnu. Breiður skilningur hennar á rannsóknum mun auðvelda henni þetta starf.
Fyrst og fremst hefur Guðrún Nordal framsýni, réttsýni og hjartalag farsæls leiðtoga. Ég ætla að kjósa hana til rektors þann 20. apríl og hvet alla til að gera það sama.
Höfundur er doktorsnemi í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands.