Háskóli Íslands er ein mikilvægasta sameign Íslendinga, stofnaður á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar, og byggður upp með framlögum borgaranna, í gegnum skattkerfi og happdrætti. Á sama hátt og fornbókmenntirnar, tungan og yfirráð yfir fiskimiðunum, voru það starf og fórnir fyrri kynslóða sem skópu Háskólann vegna þess að þær trúðu réttilega að í honum fælist fjöregg gæfuríkrar og gróskumikillar framtíðar.
Um langt árabil hafa starfsfólk og nemendur skólans kosið sér rektor til að stýra starfi sínu. Það er vegna þess að Háskóli Íslands er allt annað en fyrirtæki eða venjuleg ríkisstofnun. Hann er samfélag jafningja sem vinna að frjálsri sköpun og miðlun þekkingar. Þannig speglar hann lýðræðishugsjón Íslendinga og er á vissan hátt holdgervingur hennar.
Kosningabaráttan undanfarnar vikur hefur verið til fyrirmyndar að því leyti að tekist hefur verið á um hugmyndir og leiðir til að hlúa að, auðga og styrkja þetta fjöregg þjóðarinnar. Báráttan hefur verið drengileg og hafa þeir sem þetta rita ekki orðið varir við að veist væri að persónum frambjóðenda enda engin ástæða til. Öll eru þau sómafólk.
Nú er komið að seinni umferðinni og kjósa þarf milli tveggja einstaklinga sem eiga margt sameiginlegt. Bæði eru framúrskarandi vísindamenn. Jón Atli er verkfræðingur sem hefur birt fjölmargar vísindagreinar á sviði þar sem hann hefur verið leiðandi og nýtur alþjóðlegrar virðingar. Guðrún er íslenskufræðingur sem hefur, auk umfangsmikilla greinaskrifa, dregið saman brautryðjendarannsóknir sínar í tveimur bókum frá virtum erlendum háskólaforlögum: um siðferði á Sturlungaöld og dróttkvæði. Norrænar miðaldabókmenntir eru alþjóðlegt rannsóknasvið þar sem Guðrún Nordal nýtur mikillar viðurkenningar og bók hennar um dróttkvæðin frá 2001 breytti að verulegu leyti þeim grunni sem dróttkvæðarannsóknir stóðu á enda hefur hefur hún undanfarin ár verið í forystu langstærsta alþjóðlega rannsóknarverkefnisins á þessu sviði, heildarútgáfu dróttkvæðanna. Báðir frambjóðendurnir hafa látið til sín taka á vettvangi stjórnunar og stýringar á vísindastarfi. Guðrún hefur um árabil tekið þátt í alþjóðlegu vísindasamstarfi og leitt starf Vísinda- og tækniráðs sem mótar vísindastefnu stjórnvalda og úthlutar mikilvægum fjármunum til rannsókna. Jón Atli var formaður vísindanefndar Háskólaráðs í rektorstíð Páls Skúlasonar og hefur verið aðstoðarrektor kennslu og vísinda í tíð núverandi rektors Kristínar Ingólfsdóttur frá 2005.
Báðir frambjóðendur búa því yfir þeirri reynslu, þekkingu og skilningi á vísindastarfi og miðlun þekkingar sem gera þau hæf til að stýra Háskólanum. Munurinn á þeim felst fyrst og fremst í því að Jón Atli hefur komið beint að stjórnun skólans undanfarinn áratug en Guðrún ekki.
Þó margt hafi tekist vel í stjórn skólans undanfarin ár, er margt annað sem þarfnast lagfæringar. Ekki hefur tekist að fá stjórnvöld til að rétta við fjárhag skólans. Álag á starfsfólki hefur aukist til muna og komið er að þolmörkum. Samhliða því hefur kerfisbundið verið dregið úr þátttöku starfsmanna í sameiginlegri ákvarðanatöku um málefni skólans, en það stríðir gegn lýðræðishefð Háskólans. Við leyfum okkur að trúa því að þessi lýðræðishefð sé starfsmönnum og stúdentum hjartfólgin.
Nýr rektor Háskóli Íslands þarf því að vega og meta það sem gert hefur verið á liðnum árum með hagsmuni skólans alls í huga. Hann má ekki vera bundinn af þátttöku sinni í ákvörðunum sem hafa ekki hafa allar reynst vel. Því teljum við að hagsmunir Háskólans og allra þeirra sem unna hag hans, þ.e. þjóðarinnar allrar, séu best tryggðir með nýrri forystu og styðjum Guðrúnu Nordal til rektors.
Höfundar eru prófessorar við Háskóla Íslands.