Á hverju ári deyja nokkrir Íslendingar vegna neyslu of stórs skammts af fíkniefnum. Yfirleitt er þetta ungt fólk sem átti framtíðina fyrir sér og fyrir mistök innbyrgði svo stóran skammt af fíkniefnum að það lést.
Síðustu áratugi hafa slík dauðsföll ýtt undir þá trú hjá mörgum að taka þurfi harðar á fíkniefnasölu og gera fólki erfiðara með að nálgast efnin. Með auknum refsingum muni fólk forðast fíkniefnin, bæði sölu þeirra og neyslu, rétt eins og brennt barn forðast eldinn. En gæti verið að refsistefnan, bann við framleiðslu, sölu og neyslu fíkniefna, beinlínis stuðli að því að fleiri deyi vegna neyslu of stórra skammta?
Fólk tekur best ákvarðanir þegar það hefur aðgang að upplýsingum. Vegna þess að fíkniefni eru bönnuð, og framleiðsla þeirra og sala er í höndum vafasamra aðila, fylgir fíkniefnum engin innihaldslýsing þegar þau eru keypt né upplýsingar um hve sterk efnin eru. Því geta t.d. e-pillur verið missterkar eftir því hver selur þær, sem setur fíkniefnaneytendur í stórhættulega stöðu. Skammtur hjá dópsala A getur verið mátulegur, en sami skammtur hjá dópsala B getur verið lífshættulegur. Að sama skapi er ómögulegt að vita hverju er blandað í efnin til að drýgja þau, en það er mjög einstaklingsbundið hvaða áhrif tiltekin efni hafa á fólk.
Áfengisbannið er víti til varnaðar
Í raun erum við bara að endurupplifa það sem við upplifðum í áfengisbanninu. Fólk ýmist blindaðist eða veiktist vegna illa blandaðs landa og engin leið var fyrir það til að votta gæði heimabruggsins. Bara í ár hefur fjöldi manna í heiminum látist vegna neyslu illa bruggaðs áfengis í löndum þar sem áfengi er bannað. Fíkniefnaneytendur á Íslandi eru jafn illa staddir og áfengiskaupandi í Saudi-Arabíu. Hann hefur takmarkaða hugmynd um hvað hann setur í sig og þarf að setja traust sitt í hendur fíkniefnasala.
Bann við fíkniefnum (eða áfengi!) hefur einfaldlega ekki þau áhrif að fíkniefnaneysla hverfi. Ef til vill er neyslan minni í löndum þar sem fíkniefnaneytendur eru miskunnarlaust teknir af lífi, en allajafna eru fíkniefni aðgengileg alstaðar í heiminum þrátt fyrir bönn. Með því að banna fíkniefni er framleiðslu þeirra og sölu ýtt í undirheima, þar sem réttur „neytenda“ er afar takmarkaður.
Að því leyti gegnir fíkniefnabann ríkisins því hlutverki að verja einokunarstöðu skipulagðra glæpasamtaka á sölu fíkniefna, hverra söluandvirði skiptir milljörðum árlega á Íslandi. Varla þarf að taka fram að framleiðendur og sölumenn fíkniefna er helstu andstæðingar lögleiðingar fíkniefna, enda sitja þeir einir að milljarða króna hlaðborði.
Ljóst er að það mætti fækka dauðsföllum vegna fíkniefnaneyslu með því að lögleiða fíkniefnin. Þegar fólk veit hvað það setur í sig er léttara fyrir það að taka upplýsta og örugga ákvörðun. Það er erfitt þegar skipulögð glæpasamtök sjá um framleiðslu og sölu fíkniefna.
Ég held því ekki fram að breytingar til frjálsræðis muni útrýma dauðsföllum vegna misnotkunar á fíkniefnum, ekkert frekar en lögleiðing áfengis útrýmir ekki dauðsföllum vegna notkunar áfengis, en það hlýtur að hjálpa að fólk spili ekki rússneska rúlletu í hvert skipti sem það kaupir fíkniefni.
Höfundur er formaður Heimdallar.