Margt merkilegt hefur borið á góma í stjórnmálaumræðu á þessu ári en að mínu mati ber hæst þá umræðu sem orðið hefur um ofbeldi. Breytingar á viðhorfum okkar til og viðbrögðum okkar við ofbeldi hafa varanlegri áhrif á mannlífið en allar efnahagsaðgerðir samanlagt. Þetta er málefni sem snertir kviku hvers manns.
Umræðan kviknaði snemma árs þegar fötluð stúlka gleymdist í bíl ferðaþjónustu sem hún á allan sinn hreyfanleika undir. Vanræksla er eitt form ofbeldis og hér kom upp á yfirborðið kerfislæg vanræksla á hópi fólks enda reiddist þjóðin og reis á afturfæturna. Síðan hefur hver umræðualdan á fætur annarri risið, einkum um sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin líkama og um kynferðisafbrot. Ofbeldi bitnar helst á minnihlutahópum og einstaklingum sem minna mega sín. Í hvert sinn sem við vekjum máls á ofbeldi og hefjum aðgerðir gegn því þokumst við örlítið nær réttlátara samfélagi.
Konur búa á heimsvísu við lakari kjör en karlmenn. Heimurinn horfir til Íslands sem jafnréttisparadísar en jafnvel hér reka konur sig flestar upp undir glerþakið.
Konur búa á heimsvísu við lakari kjör en karlmenn. Heimurinn horfir til Íslands sem jafnréttisparadísar en jafnvel hér reka konur sig flestar upp undir glerþakið. Hindranirnar eru ósýnilegar en það er eins og loftið í þeim vistarverum þjóðarbúsins þar sem konur halda sig hafi verið tekið niður með gleri. Þetta er mest áberandi þegar kemur að fjármálum, konur þéna minna og eiga minna. Sá kerfislægi vandi sem misrétti kynjanna er bitnar ekki bara á konum heldur samfélaginu öllu og öllum samfélögum. Framsýnir stjórnmálaleiðtogar um víða veröld eru nú farnir að sjá það sem alþjóðleg hjálparsamtök hafa lengi vitað, að besta leiðin til að bæta þjóðarhag er að efla konur og auka jafnrétti.
Á þessu ári ofbeldisumræðunnar hef ég oft velt fyrir mér hve stóran hluta glerþaksins má rekja til kynbundins ofbeldis. Áður en lengra er haldið ætla ég að slá alla varnagla og undirstrika að karlar verða líka fyrir ofbeldi og konur beita því, jafnt andlegu, líkamlegu sem kynferðislegu. Börn verða fyrir ofbeldi karla og kvenna og beita því sjálf. Málið flækist enn fremur við að gerendur eru oft þolendur líka. Ofbeldi af öllum stærðum og gerðum er eitt helsta heilbrigðisvandamál heims og svo virðist sem hvar sem vald safnast saman verði til ofbeldi. En þarf það að vera náttúrulögmál?
Að varnöglum slepptum get ég fullyrt að konur verða oftar fyrir ofbeldi en karlar. Um þriðjungur íslenskra kvenna verður fyrir kynferðisofbeldi og afleiðingar þess eru geigvænlegar. Sá hópur sem býr við skert réttindi kallast minnihlutahópur.
Að varnöglum slepptum get ég fullyrt að konur verða oftar fyrir ofbeldi en karlar. Um þriðjungur íslenskra kvenna verður fyrir kynferðisofbeldi og afleiðingar þess eru geigvænlegar. Sá hópur sem býr við skert réttindi kallast minnihlutahópur. Vegna þessa kynbundna ofbeldis má kalla helming mannkyns minnihlutahóp. Auk þess eru konur minnihlutahópur innan flestra minnihlutahópa þar sem kjör kvenna innan hópsins eru verri en kjör hópsins í heild. Það þarf engan femínista til að sjá að það er brýnt að bæta hag kvenna og að hugsanlega er hægt að ráðast að rótum vandans með því að reyna að útrýma kynbundnu ofbeldi.
Fyrir þrjátíu árum tók ég viðtal við konu sem orðið hafði fyrir nauðgun. Ég roðnaði og fölnaði á víxl við skriftirnar og velti fyrir mér hvort virkilega mætti segja frá svona löguðu. Vitaskuld kom viðmælandi ekki fram undir nafni, það hefði verið óhugsandi í þá daga, en margir spurðu mig hvaða kona væri svo vitlaus að segja frá að hún hefði látið nauðga sér. Í dag fylgist ég með heilu hópunum af hugrökku fólki tala hispurslaust um nauðganir og ofbeldi, fólk á öllum aldri og af öllum kynjum, kyngervum og kynhneigð. Sumir segja frá því sem þeir lentu í um síðustu helgi, aðrir tjá sig í fyrsta sinn um eitthvað sem gerðist á fyrri hluta síðustu aldar og hefur litað líf þeirra æ síðan. Þegar ég skrifaði viðtalið fyrir þrjátíu árum vorum við farin að velta við einum og einum steini á akri ofbeldisins en nú er eins og jarðýta hafi farið þar um. Þegar steinum er velt koma í ljós hvítmöðkuð leyndarmál sem mannkynssagan hefur þagað um og þannig viðhaldið ofbeldinu.
Löggjafinn hefur samt lengi vitað að aðeins einn glæpur er alvarlegri en sálarmorðið nauðgun, það er að drepa líkamann líka. Herforingjar skipuleggja hópnauðganir af því að þeir vita að ekkert veikir andstöðu óvinaþjóðar eins og kynferðisofbeldi. Ómálga börn sem brotið er á vita að það er rangt. Þau geta brugðist við þögguninni í kringum kynferðisofbeldi með táknrænum hætti eins og að sleppa því að læra að tala. Við höfum lengi gert okkur grein fyrir því hverjar afleiðingar kynferðisofbeldis eru og fordæmt það en samt er því beitt allt í kringum okkur alla daga, ekki bara í Eyjum heldur aðallega í einkarýminu og jafnvel í hjónasængunum. Við höfum samt náð svo langt í umræðunni að fórnarlömb geta tjáð sig opinberlega án þess endilega að vera úthrópuð og það virðist vera að verða ríkjandi skoðun að nauðgun geti aldrei verið fórnarlambinu að kenna, sökin sé alltaf gerandans. Karlmenn er líka farnir að tjá sig opið um nauðganir.
Þegar um þriðjungur kvenna verður fyrir kynferðisofbeldi er ljóst að það eru ekki örfáir karlmenn sem beita því. Auðvitað eru til sjúkir menn, raðnauðgarar, sem þurfa lífslanga sálfræðimeðferð. En geta þeir staðið fyrir öllu þessu ofbeldi? Varla.
Það er eins og að stíga inn á jarðsprengusvæði að nefna orðið nauðganamenning. Ég ætla samt að gera það en kýs að tala um nauðganaómenningu. Eitthvað í samfélagi okkar veldur því að konur eiga alltaf á hættu að vera nauðgað og að nauðganir eru tiltölulega algengari á Íslandi en í nágrannalöndunum. Ég er fullviss um að um karlmenn sitja ekki á launráðum í reykfylltum bakherbergum og skipuleggja hvernig þeir skuli bregða brandi sínum konum til minnkunnar. En ég er jafn fullviss um að það er undirliggjandi munstur í samfélaginu sem veldur öllum þessum nauðgunum. Maður getur til dæmis spurt sig hvers vegna þungarokkurum hefur tekist að halda ellefu Eistnaflug án einnar kæru um naugðun. Er sá þjóðfélagshópur í eðli sínu síður ofbeldisfullur en aðrir? Er ekki líklegra að einhverskonar sáttmáli svífi yfir vötnum á þessari útihátíð sem fordæmir nauðganir og kemur þannig í veg fyrir þær?
Er íslenskum konum haldið niðri með kynbundnu ofbeldi? Er það vegna þess sem þær ná aldrei fullu flugi, hversu mikið sem þær mennta sig og gera sig breiðar í atvinnulífi og stjórnmálum? Er kynbundið ofbeldi hluti glerþaksins?
Ég hef hlustað á sérfræðinga segja að nauðganir hafi lítið með kynlífslöngun að gera heldur nauðgi menn til að sýna vald sitt. Því spyr ég óhjákvæmilega: Er íslenskum konum haldið niðri með kynbundnu ofbeldi? Er það vegna þess sem þær ná aldrei fullu flugi, hversu mikið sem þær mennta sig og gera sig breiðar í atvinnulífi og stjórnmálum? Er kynbundið ofbeldi hluti glerþaksins?
Ég veit ekki með ykkur en við mér blasir einfalt reikningsdæmi með þremur þekktum breytum, þremur óhrekjanlegum staðreyndum: Kynferðislegt ofbeldi rænir fólk til langs tíma vilja, kjarki og þrótti, kynferðislegt ofbeldi gegn konum er algengt og konur búa við lakari kjör en karlar. Mér finnst liggja nokkuð ljóst fyrir að þetta hlýtur að tengjast. Hverjir nauðga, hvers vegna og hvernig hægt er að fyrirbyggja ofbeldið eru minna þekktar breytur sem krefjast meiri umræðna og rannsókna. Fjölmiðlar, félagasamtök, fræðimenn og fólkið í grasrótinni hefur staðið sig frábærlega á síðustu árum við að opna þessa umræðu. Það ætti að vera pólitískt forgangsmál að leita svara við ofangreindum spurningum af því að kynbundið ofbeldi, sem og annað ofbeldi, er rót mikils samfélagsmeins.
Höfundur er framkvæmdastjóri fyrirtækisins Stílvopnið – valdefling og sköpun og meðlimur í ReykjavíkurAkademíunni.