Það segir margt um stöðu húsnæðismála á Íslandi í dag, að í komandi kosningum eru allir flokkar meir eða minna að lofa aðgerðum til að bæta húsnæðismarkaðinn á Íslandi. Húsnæðismarkaðurinn hefur einkennst of mikið af áherslum á séreignastefnu og of sundurleitum aðgerðum til að bæta aðstæður - á húsnæðismarkaði. Það eru um 25 ár liðin síðan þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lagði niður verkamannaíbúðakerfið. Sú glórulausa aðgerð hefur síðan aukið vanda fólks í lág- og millitekjuhópum til að fá öruggt húsnæði til langs tíma. Það sem þarf að gera er að móta heilbrigðan húsnæðismarkað, koma á jafnvægi á markaðnum og hugsa um aðrar lausnir í húsnæðismálum en felst í séreignarstefnunni.
Í þessu sambandi er það merkileg staðreynd að eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem hefur sett félagslegar lausnir í húsnæðismálum á dagskrá er Reykjavíkurborg. Á vegum Reykjavíkurborgar skal 25% úthlutaðra lóða fara til óhagnaðardrifinna leigufélaga eins og Búseta, stúdentafélaga, Bjarg og annara leigufélaga í eigu verkalýðshreyfinga og til annara félagasamtaka eins og Brynju-Hússjóð ÖBÍ. Þessi stefna hefur gefist mjög vel og hefur skilað fjölbreyttari íbúasamsetningu í hverfum borgarinnar sem og því að fleiri þúsundir geta nú leigt húsnæði til langs tíma á viðráðanlegum kjörum, sem er annað en GAMMA kjör samkvæmt draumi hægri flokkanna hafa getað gert.
Samfylkingin vill stuðla að öflugum húsnæðismarkaði með því að auka stuðning við húsnæðisfélög sem rekin eru án hagnaðarsjónamiða. Samfylkingin vill byggja að lágmarki 1000 leigu- og búsetuíbúðir á ári með auknum stuðningi og stofnframlögum ríkisvaldsins. Til viðbótar þessu vill flokkurinn huga sérstaklega að því að tryggja framboð á húsnæði fyrir ungt fólk sem og fleiri húsnæðiskjörnum fyrir eldra fólk.
Mikilvægt í þeirri viðleitni að ná betur utan um húsnæðismarkaðinn og þróun hans er að öll húsnæðis- og byggingamál verði færð undir eitt ráðuneyti. Með því verður hægt að koma á heildarsýn á málaflokkinn og meira jafnvægi á húsnæðismarkað sem hefur einkennst af aðgerðaleysi af hálfu stjórnvalda sem aukið hefur eftirspurn eftir húsnæði og hækkað verð á fasteignum.
Höfundur er heilsuhagfræðingur og skipar 7. sæti á lista Samfylkingar í Reykjavíkurkjördæmi suður.