Í stað þess að horfa á kosningasjónvarp fór ég að sofa tiltölulega snemma eða seint eftir hvernig á það er litið. Ég rétt kíkti á talninguna um kl. tvö og svo ekki fyrr en um morguninn. Að mínum dómi sýna úrslitin ágætis þversnið af því hver við erum. Það má túlka niðurstöðurnar þannig að frjálshyggjan og aðrir lengst til hægri, Sjálfstæðiflokkurinn og Miðflokkurinn, fái 19 þingsæti, miðjumenn í allar áttir, Framsókn og Viðreisn, 18 þingmenn og vinstri menn og samfélagssinnaðir flokkar (það síðast nefnda á reyndar við um alla flokka nema „frjálsa“ hægri fólkið ), Vinstri grænir, Samfylkingin, Flokkur fólksins og Píratar 26 þingmenn. Ekki er gott að um 20% þjóðarinnar ákvað að kjósa ekki og tæplega 5% fær ekki fulltrúa á þing, sem sagt fjórðungar þjóðarinnar er ekki með í þingsætunum.
Helstu úrslit eru þau að Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínu og frábært til þess að vita að þjóðin færðist ekki lengra til hægri, nóg samt. Framsóknarflokkurinn fékk stóran hluta af týndu sauðunum heim og Miðflokkurinn var við það að hverfa sem því miður varð ekki raunin. Af þessu telst Framsókn sigurvegari kosninganna í huglægum skilningi, en það vantar ansi marga þingmenn upp á meirihluta. En um að gera að berja sér á brjóst meðan sigurvíman endist.
Vinstri grænum var refsað og það réttilega. Þau hafa einfaldlega látið spila með sig í fjögur ár og óþarfi að telja upp öll þau mál sem betur hefðu mátt fara hjá þessum flokki sem meinar vel en skilur stundum ekki hvað hann „þykist“ standa fyrir. Hefur undanfarin fjögur ár látið katlana ganga fyrir og hefur ekki haft vilja, hæfileika, þor eða getu til að berja í borðið á réttum tíma. Dýrin í skóginum geta ekki alltaf verið vinir, sérstaklega ef sum dýrin fá alltaf að borða en hin ekki. Samfylkingin, það er nú eiginlega best að eyða sem fæstum orðum í hana þó hún ætti að vera mér skyldust. En hún brást og lét innri pólitíska heimsku og forystu verða sér að falli. Eitt refsistig þar frá undirrituðum. Viðreisn vann á og Píratar héldu sínu og er það ágætis niðurstaða. Hinn „sigurvegari“ kosninganna Flokkur fólksins sýnir svo ekki verður um villst að það er óánægja með kjör hinna verst settu í þjóðfélaginu og það þarf að laga tafarlaust. Gæsalappirnar utan um orðið sigurvegari eru tilkomnar vegna þess að þar vantar enn fleiri þingmenn í meirihlutann á þingi en hjá Framsókn. Það er enginn sigur ef ekkert næst fram.
Sósíalistar náðu ekki kjöri en fylgi þeirra sýnir hvar óánægja vinstri manna liggur. Aðrir flokkar eru ekki áhugaverðir en hluti af lýðræðinu engu að síður.
Og hvað svo? Af framangreindu má vera ljóst að miðjumenn, vinstri menn þ.e. samfélagssinnaðir flokkar eru með stóran meirihluta á þingi alls 44 þingmenn. Einfalt, er það ekki? Nú byrjar auðvitað þessi hringavitleysa um hver fær umboðið, hinir huglægu sigurvegarar eða þeir stærstu eða ...? Ef Framsókn ætlar að standa við eitthvað af því sem flokkurinn segist standa fyrir þá semur hann við aðra samfélagssinnaða flokka. Ef Vinstri grænir vilja læra af reynslunni og ætla ekki vængbrotnir að bregðast sinni grundvallar hugmyndafræði þá kemur þriggja flokka stjórn með Sjálfstæðismönnum ekki til greina. En ef sá flokkur vill eina ferðina enn taka ranga ákvörðun þá mega þau það mín vegna. Það skiptir ekki máli hvort forysta flokks hefur verið álitin ásjáleg og áheyrileg, það eru verkin sem gilda en ekki persónur þegar litið er á heildarútkomuna. Engar grundvallar breytingar náðust fram á síðasta kjörtímabili í átt að réttlátari þjóðfélagi þ.m.t. í umhverfis- og náttúruverdnarmálum. Í þessu sambandi vil ég minna á að ýmis ágætis mál sem hafa komist í gegn samkvæmt gildandi lögum teljast ekki til grundvallarbreytinga. Ekki verður farið í sparðatínslu hér.
Í minni einfeldni þá geri ég ráð fyrir að formaður Framsóknarflokksins vilji gera tilkall til þess að verða forsætisráðherra, jafnvel formaður stærsta flokksins líka. Formaður Vinstri grænna gæti svo sem viljað það líka en ætti kannski að hugsa sig um, nema kannski að það verði þannig skv. framlagðri hugmynd hér að neðan.
Hugmynd að næstu ríkisstjórn byggir á þeim forsendum að alþingismenn geri nú einu sinni það sem ætlast er til af þeim samkvæmt niðurstöðum kosninganna. Hagi sér eins og fólk á að haga sér á Alþingi og láti hagsmuni þjóðarinnar ganga fyrir en ekki sérhagsmuni einstakra einstaklinga, sérhagsmunahópa eða fyrirtækja. Tillagan/hugmyndin byggir einnig á því að Framsókn starfi í samræmi við það sem flokkurinn gaf sig út fyrir að vera í aðdraganda kosninganna.
Eins og samlagningin gefur til kynna gætu Framsóknarflokkurinn, Vinstri grænir, Samfylkingin og Viðreisn myndað ríkisstjórn. Eins og allir sjá væri þá um að ræða nauman meirihluta á þingi eða 32 þingmenn. Af hverju ekki að hafa Flokk fólksins og/eða Pírata með, þá 38 eða 44 þingmenn? Einnig mætti t.d. skipta Samfylkingunni út fyrir Pírata eða Flokk fólksins. Ástæðan fyrir að velja þetta mynstur er að það næst ákveðin breidd með flokkunum fjórum. Flokkur fólksins hefur einblínt mjög á ákveðna þætti sem þarf að breyta, svo sem kjör öryrkja og þeirra verst settu, og Píratar eru að mínu mati mjög hæfir til að sjá mál frá ólíkum sjónarmiðum og geta þannig átt góð innlegg í ólík mál. Án þess að vera bundnir í báða skó af ríkisstjórnarsamstarfi.
Er ekki samt best að hafa alla flokkana í ríkisstjórn. Nei, ekkert frekar, aðallega af praktískum ástæðum. Það er erfiðara að smala saman skoðunum sex flokka en fjögurra á hverjum einasta ríkisstjórnarfundi frekar en að gera það með öðrum hætti. Það er nefnilega til önnur lausn. Það sem þarf að gera við myndun nýrrar ríkisstjórnar, ef af þessari samsetningu yrði, er að fara blandaða leið meirihluta stjórnar með hliðsjón af minnihlutastjórnum sem iðulega starfa árum saman á hinum Norðurlöndunum. Þetta krefst þess að þingmenn starfi saman á málefnalegan hátt. Áður en svona ríkisstjórn er mynduð þarf að semja um tvennt við Flokk fólksins og Pírata. Það sem samið er um er annars vegar að flokkarnir tveir verji ríkisstjórnina fyrir falli ef þannig aðstæður skapast á þingi og hins vegar að samið er við stuðningsflokkana um að ,,nokkur“ ákveðin baráttumál þeirra komi til framkvæmdar strax á fyrsta þingi. Ekki t.d. á kjörtímabilinu, það gera bara pólitískir refir.
Það er ekki mitt að leggja til þau mál sem samið yrði um en það er augljóst að það væru t.d. mál eins og kjör öryrkja, kvótakerfið, lýðræðislegri nálgun við ákvarðanir sem skipta alla þjóðina máli o.s.frv. Svona samstarf þarf að byggja á trausti og ábyrgð í báðar áttir þar sem enginn veit nákvæmlega hvaða mál koma upp. Ágreiningur getur og mun alltaf komið upp og er það eðlilegt. Reynslan sýnir hins vegar, sérstaklega hjá samfélagssinnuðum flokkum, að ágreiningur stafar oftast af ólíkri nálgun og orðanotkun en raunverulegum ágreiningi. Hvað stjórnarflokkarnir sjálfir semja svo um sín á milli ætti að vera „auðvelt“, nóg er af texta í öllum kosningaloforðunum sem hægt er að nota. Ég sleppi viljandi öllu ráðherrastólakarpi og sjálfhverfum uppákomum bæði persónulegum og flokkslegum því eins og allir vita er vinnustaður alþingismanna þess eðlis að það ætti að vera óþarfi. Hér er heldur ekki pláss fyrir frekari ráðleggingar um allt milli himins og jarðar, nóg er til af þeim í þessum heimi.
Það verður spennandi að sjá hvort nýtt Alþingi, sem er fullt af nýjum þingmönnum, verði spegilmynd stöðnunar og afturhaldssemi undanfarinna margra ára eða hvort eitthvað breytist raunverulega í átt að réttlátara þjóðfélagi. Einnig hvort tekið verði af fullri alvöru á umhverfis- og náttúruverndarmálum þar sem loftslagsmál og vernd líffræðilegrar fjölbreytni ætti að skipa stærstan sess, enda grundvöllur að tilveru okkar síðast þegar ég vissi.