Verndun líffræðilegrar fjölbreytni og baráttan gegn loftslagsbreytingum eru tvö af stærstu viðfangsefnum mannkyns. Um þau hafa verið gerðir alþjóðlegir samningar að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna, undirritaðir af fjölmörgum þjóðríkjum. Enn fremur starfa milliríkjanefndir um hvort málefni fyrir sig, um loftslagsbreytingar (Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC) og um líffræðilega fjölbreytni og þjónustu vistkerfa (Intergovernmental Panel on Biodiversity and Ecosystem Services, IPBES). Gallinn er aftur á móti sá að hingað til hefur verið fjallað um þessa málaflokka sem aðskilin viðfangsefni, bæði hérlendis og alþjóðlega. Hættan sem af því stafar er að aðgerðir innan annars málaflokksins vinni gegn hinum. Það er því ánægjulegt að nýlega hófust umræður milliríkjanefndanna tveggja með því markmiði að samhæfa aðgerðir. Slík samhæfing þarf einnig að ná til stefnumótunar einstakra þjóðríkja.
Loftslagsváin og tap líffræðilegrar fjölbreytni
Eru almenningur og stjórnvöld nægilega vel upplýst um þessi mál til að taka þau alvarlega og bregðast við þeim ógnum sem felast í tapi líffræðilegrar fjölbreytni og loftslagsbreytinga af manna völdum? Talsverður árangur hefur náðst við fræðslu almennings um ógnir af völdum loftslagsbreytinga. Skilningur hefur aukist á því að komið er að ögurstundu og að bregðast þurfi skjótt við til að stemma stigu við frekari hlýnun loftslags. Samhliða hafa stjórnvöld sett á dagskrá aðgerðaáætlanir gegn loftslagsbreytingum sem beinast annars vegar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hins vegar að bindingu þeirra. Sami árangur í uppfræðslu og stefnumótun hefur því miður ekki náðst þegar kemur að verndun líffræðilegrar fjölbreytni, þrátt fyrir að afleiðingarnar, ef ekkert er að gert, jafnist fyllilega á við þær sem stafa af loftslagsbreytingum. Þetta skapar þá hættu að aðgerðir gegn loftslagsvánni taki ekki mið af líffræðilegri fjölbreytni.
Hvað er líffræðileg fjölbreytni?
Í huga sumra snýst verndun líffræðilegrar fjölbreytni aðeins um tegundir. Tegundir og tegundaauðgi eru vissulega mikilvægur hluti líffræðilegrar fjölbreytni, en það er mikil einföldun á hugtakinu og afar villandi að einblína aðeins á þann þátt. Samkvæmt skilgreiningu samningsins um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity, CBD) nær hugtakið til alls breytileika meðal allra lífandi lífvera á láði og í legi og vistfkerfanna sem þær eru hluti af. „Líffræðileg fjölbreytni nær til fjölbreytni innan tegunda, milli tegunda og meðal vistkerfa“. Þetta er því yfirgripsmikið hugtak sem getur verið áskorun að skilja og tileinka sér. Til að bæta úr því þarf meiri fræðslu um innihald líffræðilegrar fjölbreytni, og meðal annars með það að markmiði var á dögunum stofnaður samstarfsvettvangur hér á landi, BIODICE (Biodiversity in Iceland), sem nær til fjölda einstaklinga og stofnana. Allir áhugasamir um líffræðilega fjölbreytni eru hvattir til að kynna sér samstarfsvettvanginn á www.BIODICE.is.
Hvers vegna er mikilvægt að samhæfa aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og tapi líffræðilegrar fjölbreytni?
Líffræðileg fjölbreytni er mannkyninu lífsnauðsynleg vegna þess að hún leggur grunn að margslunginni þjónustu sem vistkerfi og lífríkið veita okkur í dag, þar með talið fæði, klæði og vernd gegn sjúkdómum. Hún leggur einnig grunn að annarri og oft ófyrirséðri þjónustu sem vistkerfi kunna að veita mannlegum samfélögum og öllu lífríkinu hér á jörð um ókomna framtíð. Það er því kaldhæðnislegt að líffræðilegri fjölbreytni hnignar með ógnarhraða vegna síaukinna umsvifa mannsins. Helstu ógnirnar felast í ósjálfbærri landnýtingu og rányrkju náttúruauðlinda, mengun, ágengum tegundum og örum loftslagsbreytingum af mannavöldum og nú einnig í aðgerðum gegn loftslagsvánni ef ekki er að gætt. Það er því jafn aðkallandi að grípa til aðgerða til verndar líffræðilegri fjölbreytni og gegn loftslagsbreytingum, og þessar aðgerðir þarf að samhæfa svo þær vinni ekki gegn hvor annarri.
Samtal hafið á alþjóðlegum vettvangi
Í desember á síðasta ári héldu IPCC og IPBES sameiginlegan vinnufund þar sem farið var yfir hvernig mætti best tengja saman aðgerðir gegn loftslagsvánni og hnignun líffræðilegrar fjölbreytni. Í skýrslu nefndanna tveggja er að finna mikilvæg skilaboð*. Meðal þess sem bent var á er að það sem sameinar best verndun líffræðilegrar fjölbreytni og bindingu kolefnis í vistkerfum er endurheimt náttúrulegra vistkerfa, þar með taldir náttúruskógar (punktar 10-13), auk sjálfbærrar landnýtingar (punktur 14). Enn fremur er lögð áhersla á að víðfeðm nytjaskógrækt geti bæði reynst skaðleg líffræðilegri fjölbreytni og raskað kolefnisbindingu vistkerfa sem fyrir eru, einkum og sér í lagi ef plantað er framandi tegundum (exotic species) sem síðar geta reynst ágengar (punktur 19). Í sviðsmyndum IPCC um bindingu kolefnis hefur hingað til öll skógrækt verið sett undir einn hatt og ekki gerður greinarmunur á nytjaskógrækt og endurheimt náttúruskóga, en í skýrslunni er bent á að úr því þurfi að bæta sem fyrst.
Einstök náttúra
Íslensk náttúra hefur mikla hnattræna sérstöðu, ekki síst vegna legu landsins. Þrátt fyrir að mikið af gróðri og jarðvegi hafi tapast frá landnámi, fyrst og fremst vegna aldalangrar ósjálfbærrar landnýtingar, eigum við enn einstaka náttúru sem hefur að geyma sérstaka fjölbreytni sem ekki má tala niður og fórna í nafni aðgerða í loftslagsmálum. Verndun þess sem hefur varðveist og endurheimt vistkerfa eru því lykilaðgerðir sem sameina best markmiðin tvö: vistfræðilega bindingu kolefnis og verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum þarf að taka mið af þessu með mun skýrari hætti en raun ber vitni.
Öll skógrækt sett undir einn hatt í nafni aðgerða í loftslagsmálum
Í smíðum er landsáætlun um skógrækt sem hefur skort sárlega í ljósi þess að æ fleiri bændur hafa hug á að fara út í nytjaskógrækt. Verkefnið er enn brýnna nú vegna fyrirhugaðrar eflingar skógræktar sem hluta af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. En aðgerðaáætlunin gerir því miður lítinn greinarmun á mismunandi skógrækt og því þarf ekki að koma á óvart að í fyrstu drögum um landsáætlun um skógrækt sem lögð voru fram til umsagnar var mikil áhersla lögð á nytjaskógrækt og lítið sem ekkert hugað að líffræðilegri fjölbreytni.
Nytjaskógrækt á rétt á sér eins og önnur form landbúnaðar og hana þarf að skipuleggja sem slíka. Nytjaskógrækt er hins vegar ekki vel til þess fallin að ná sameiginlegum markmiðum í loftslagsmálum og verndun líffræðilegrar fjölbreytni eins og bent var á í skýrslu IPCC og IPBES. Þar að auki gera landsáætlunardrögin ráð fyrir að nota í auknum mæli tegundir sem hafa verið skilgreindar ágengar víða erlendis og eru farnar að sýna skýr merki um ágengni í nágrannalöndum okkar. Þetta eru stafafura (Svíþjóð, Írland) og sitkagreni (svartlistuð í Noregi frá 2012). Báðar þessar tegundir eru þegar í mikilli ræktun hér á landi og eru því komnar til að vera. Þær eru einnig farnar að sá sér út fyrir skipulögð skógræktarsvæði og því þarf að setja strangar reglur um notkun þeirra til að koma í veg fyrir að þær ógni frekar líffræðilegri fjölbreytni landsins.
Vonandi ber okkur gæfa til að gera landsáætlun um skógrækt sem tekur mið af öllum þessum atriðum. Til að það geti orðið þarf að koma á samtali milli þeirra aðila sem vinna að landsáætlun um skógrækt og þeirra sem vinna að verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Enn fremur þurfa stjórnvöld að sýna meiri ábyrgð við stefnumótun um þessi mál.
Lærum af reynslunni, leysum ekki eitt vandamál með því að skapa annað stærra
Vísir að slíku samtali fór fram í vel sóttri málstofu um skógrækt og loftslagsbreytingar á Líffræðiráðstefnunni 2021 þar sem fulltrúar skógræktar kynntu gagnlegar upplýsingar og sín sjónarmið. Þessu samtali þarf að halda áfram til að afstýra því að framkvæmdir í nafni aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum ógni líffræðilegri fjölbreytni landsins. Við megum ekki við því að leysa eitt brýnt vandamál með því að skapa annað stærra. Endurtökum ekki mistökin frá sjöunda áratug síðustu aldar þegar ráðist var í víðfeðma framræslu mýra í nafni bættrar landnýtingar! „Við vissum ekki betur“ dugði sem afsökun foreldrakynslóða okkar. „Við vissum ekki betur“ dugar okkur ekki sem afsökun gagnvart komandi kynslóðum. Við vitum betur!
Höfundur er prófessor í vistfræði við Háskóla Íslands.
*Pörtner, H.O., og fleiri. 2021. IPBES-IPCC co-sponsored workshop report on biodiversity and climate change; IPBES and IPCC. DOI:10.5281/zenodo.4782538.