Eitt af því sem nú er að farið að ná eyrum stjórnmálamanna eru erfiðleikar margra á húsnæðismarkaði. Í einfaldri mynd þá er vöntun á litlum og meðalstórum íbúðum á höfuðborgarsvðinu, eftirspurnin er töluvert meiri en framboðið, enda stórir árgangar ungs fólks að stíga inn á fasteignamarkað á hverju ári. Lítið hefur verið byggt eftir skellinn frá hruni, þó mörg fasteignaverkefni séu nú á uppbyggingartíma. Lánastofnanir gera miklar kröfur um greiðsluhæfi og eiginfjárframlag til þess að geta fengið lán, og því gengur fólki verr að kaupa íbúðir en áður.
Þrátt fyrir þetta þá hefur þróunin á Íslandi verið í takt við það sem gerst hefur í öðrum löndum, þar sem miklir erfiðleikar á húsnæðismarkaði kom fram í kjölfar fjármálakreppunnar. Til dæmis er meðalaldur kaupenda fyrstu íbúðar kominn í um 31 ár hér á landi, sem er nálægt meðaltalinu í Bretlandi.
Húsnæðismarkaðurinn hefur verið vinsælt þrætuepli í baklandi stjórnarflokkanna og hafa stjórnvöld sýnt fádæma vilja til þess að nota almannafé til að hafa tímabundin áhrif á fasteignamarkaðinn. Um 80 milljarða gjafir úr ríkissjóði til sumra þeirra sem voru með verðtryggðar húsnæðisskuldir eru til marks um það. Sumir vilja meina að þessi aðgerð skapi enn meiri vanda fyrir þá sem eru á leigumarkaði, eins og bent er á í grein Guðmundar Guðmundssonar, Hvar, hvernig hvenær?.
Nú ætla stjórnvöld að fara byggja töluvert af nýjum húsum og koma upp 2.300 félagslegum íbúðum á næstu árum, þar af eru 400 á dagskrá næsta ári og þeim fylgir 1,5 milljarður króna í fjárlögum, sem er reyndar grunsamlega lág fjárhæð miðað við fjölda íbúða.
Áætlunin nær fram á árið 2019, en fólk verður að minna sig á að umboð ríkisstjórnarinnar verður endurnýjað 2017. Loforð um eyðslu fjármuna, til bygginga á íbúðum, á árunum 2018 og 2019 eru því orðin tóm, enda algjörlega óljóst hvernig fjárlög þessara ára munu líta út eða hvaða stjórnmálamenn munu marka stefnuna í ríkisfjármálunum. Það kann ekki góðri lukku að stýra að lofa upp í ermina á sér en það er verið að gera þarna.
Auk þess verður ekki séð að nægilega nákvæmar útlistanir séu komnar fram um það hvernig ríkið eigið að stíga inn á byggingamarkaðinn, og gera eitthvað sem byggingaraðilar sjálfir geta gert án þess að ríkisábyrgð komi hvergi nærri. Sterkir innviðir á leigumarkaði verða ekki byggðir upp á einni nóttu, og það er ekki að sjá að þessi áform stjórnvalda um uppbyggingu á þessum fjölda íbúða breyti stóru myndinni nokkuð. Þessi fjöldi er nálægt árlegri þörf á markaðnum, og því er þetta í reynd bara lítill dropi í hafið, á meðan ekki fylgir vel útfærð stefna um hvernig innviðirnir á leigumarkaði verða byggðir upp, með lögum og reglum, og sértækum lausnum. Þeir sem lásu textann sem fylgdi undirritun kjarasamninga, þar sem því var lofað að miklar umbætur ættu eftir að koma fram á húsnæðismarkaði, almennu fólki á vinnumarkaði til heilla, hafa vafalítið haldið að von væri á vel útfærðri stefnu en það sést ekki í hana ennþá.
Það er mikil þörf fyrir góðar hugmyndir á húsnæðismarkaði, og mikilvægt að málaflokkurinn fá þá athygli sem hann á skilið, eins og Benedikt Sigurðarson hefur bent á í fróðlegum greinum á vef Kvennablaðsins. En góður vilji leysir engan vanda, allra síst ef viljinn til þess að eyða skattfé í uppbyggingu á fjölda íbúða sem varla nær árlegri uppbyggingarþörf, verður skynseminni yfirsterkari. Vonandi koma fram vel útfærðar sértækar lausnir á þeim vandamálum sem glímt er við, sem geta til dæmis dregið úr byggingarkostnaði, því það er að mörgu að hyggja. Ekki síst ef stjórnarflokkarnir ætla að gera alvöru úr því að afnema verðtryggingu lána, því þá þarf að endurskipuleggja fjármögnunarhluta húsnæðismarkaðarins allan í leiðinni.