Það bárust af því fréttir í gær að Miri Regev, ráðherra menningarmála í Ísrael, hefði í viðtali við tímaritið At, sagt að eftir mánuð þá myndu listamenn í Ísrael fá að vita nákvæmlega hvað mætti og hvað mætti ekki, þegar kæmi að listsköpun sem væri beint eða óbeint ríkisstyrkt. Löggjöf sem heftir listamenn í sínum störfum er á næsta leyti.
Alltaf þegar svona viðhorfum er lýst er eðlilegt að mótmæla þeim, enda er þetta stórkostleg frelsisskerðing og ömurleg ritskoðun valdhafa í þokkabót. Ekki nóg með að segja, að eftir mánuð myndi liggja fyrir hvað listamenn mættu gera og hvað þeir mættu ekki gera, heldur lét hún fylgja að listamenn í Ísrael væru upp til hópa óheiðarlegir „hræsnarar“.
Við göngum stundum að því vísu að tjáningarfrelsið sé heilagt og að listamenn geti gert það sem þeir vilja til þess að koma skilaboðum sínum á framfæri, með heilindi sín að vopni. Listin á sér engin landamæri, og þess vegna er eðlilegt að ömurlegum ritskoðunartilburuðum eins og þessum, sem birtast í orðum Regev, sé mótmælt hér á landi eins og annars staðar.
Í bakherberginu ríkir í það minnsta einhugur um það...