Föstudaginn 13. mars 2020, á árlegum degi líkamsvirðingar, fór af stað lokaður hópur á Facebook fyrir þolendur fitufordóma innan heilbrigðiskerfisins. Tilgangur hans var að vera vettvangur fyrir þolendur til að deila reynslu sinni og sýna fram á að fitufordómar og mismunun vegna þeirra innan íslensks heilbrigðiskerfis sé kerfisbundið vandamál og því þurfi kerfisbundnar aðgerðir til að rífa vandann upp með rótum. Í dag, ári síðar, birtum við þessar sögur opinberlega.
Í leiðinni vilja Samtök um líkamsvirðingu lýsa yfir áhyggjum af sjúkdómsvæðingu holdafars og aðgerðarleysi vegna fitufordóma og mismununar innan íslensks heilbrigðiskerfis og í stefnumótun Landlæknisembættisins. Við teljum slíkar áherslur ekki samræmast þeirri gagnreyndu þekkingu sem til er og að skortur sé á þverfræðilegri nálgun með heildarsýn að leiðarljósi til að koma í veg fyrir að inngrip valdi óþarfa skaða. Í tilefni dagsins birtum við því einnig ítarlega og fræðilega umfjöllun þar sem kafað er nánar ofan í skaðsemi ríkjandi nálgunar að heilsufari og holdafari sem kallast hin þyngdarmiðaða nálgun. Einnig er farið yfir þyngdarhlutlausa nálgun að heilsufari sem er talin hafa minni skaða og meiri árangur í för með sér. Við teljum þessa fræðilegu umfjöllun nauðsynlega til að geta sett reynslusögurnar í rétt samhengi. Umfjöllunina ásamt reynslusögunum og lista yfir tillögur og kröfur að úrbótum má finna hér.
Við viljum sérstaklega hvetja heilbrigðisstéttir, nemendur í heilbrigðisvísindum, stjórnendur heilbrigðisstofnana, ráðafólk sem tekur ákvarðanir um lýðheilsuaðgerðir og fjármagn til þeirra, t.d. á Alþingi og í sveitastjórnum, auk fjölmiðla að kynna sér umfjöllunina.
Við verðum að fara að horfast í augu við þá staðreynd að rétt eins og stríðið gegn fíkniefnum hefur stríðið gegn offitu mislukkast hrapallega og að grípa þurfi til skaðaminnkandi aðgerða áður en skaðinn verður meiri og alvarlegri. Við verðum að fara að taka frásagnir feits fólks þegar það lýsir þeim fordómum og mismunun sem það verður fyrir í daglegu lífi grafalvarlega og við þurfum að skapa líkamsvirðingarvænt samfélag sem gerir öllum líkömum kleift að þrífast óháð lögun, útliti eða stærð. Við höfum til of mikils að vinna til að gera það ekki og of miklu að tapa til að halda áfram á núverandi braut.
Það er einlæg von og trú Samtaka um líkamsvirðingu að þetta opna ákall verði upphafið á enn árangursríkari og skaðaminni lýðheilsustefnu með tilliti til holdafars, sem og líkamsvirðingarvænna samfélags. Sérstakar og auðmjúkar þakkir fá þeir þolendur og eftirlifendur þolenda sem treystu okkur fyrir frásögnum sínum. Við vonum að okkur hafi tekist að gera þeim góð og virðingarverð skil.
Höfundur er formaður Samtaka um líkamsvirðingu.