Þegar ég fyrst hófst handa við að setja saman þetta bréf, ætlaði ég að orða það almennt og beina orðum mínum til allra stjórnmálamanna og núverandi ríkisstjórnar. Síðan þegar ég hugsaði um hver myndi eiginlega lesa það og taka það til sín, datt mér enginn í hug. Því hef ég ákveðið að beina orðum mínum til þeirra stjórnvalda sem munu taka við í framtíðinni. Þetta hef ég ákveðið, því ég tel litlar líkur á því að núverandi stjórnvöld hlusti á gagnrýni í ljósi nýliðinna atburða. Mér þykir það miður. Ég fagna því hinsvegar ef einhverjir núverandi stjórnarliðar taka þessi orð til sín.
Þegar þetta er skrifað er ég búsettur erlendis vegna persónulegra aðstæðna og fylgist því minna með fréttum og umræðunni heima en ella. Það sem ég heyri og les, hryggir mig vegna þeirrar svartsýni og vonleysis sem birtist þar. Skiljanlega blasa við mörg vandamál og margt er að hægt að bæta. Því tel ég það ótrúlegt að það sé ekki gert. Þrátt fyrir allar þær auðlindir sem við eigum og þrátt fyrir öll þau tækifæri sem við gætum skapað, er óbreytt ástand staðreyndin.
Fólk mun fara
Óbreytt ástand leiðir eingöngu til þess að fleira fólk tekur sig upp og fer. Fólk sem hefur ekki færi á að fá húsnæði við hæfi, getur ekki fundið vinnu við hæfi og á jafnvel í erfiðleikum með að borga fyrir mat og aðrar nauðsynjar mun fara. Enda mun það spyrja sig hvort að það sé ekki til eitthvað betra annars staðar. Það er ekki erfitt að komast að svarinu. Víðast hvar annars staðar í Evrópu og utan hennar, má finna ódýrari húsnæði, hagstæðara vöruverð og meiri fjölbreytni í störfum. Íslendinga stendur öll Evrópa til boða, og af minni reynslu er þar hvorki hungursneyð né alvarlegur skortur á nauðsynjum.
Fyrir flestum er það einfalt hvað verður að gerast svo að fólk sjái einhverja framtíð á Íslandi; það þarf að geta fjárfest í húsnæði eða leigt húsnæði svo það hafi þak yfir höfuðið. Það þarf að fá vinnu með mannsæmandi laun sem hæfir menntun þess og reynslu. Svo verða innviðir samfélagsins, menntakerfi, heilbrigðiskerfi, stjórnsýsla og dómskerfi, að virka og veita lágmarks þjónustu. Sé þetta uppfyllt, get ég séð mig búa á Íslandi til frambúðar. Ég er jafnframt viss um að fleiri taki undir það. Ef ekki mun ég og aðrir velkjast í vafa áfram: vera eða fara. Þegar loks eitthvað hefur verið gert, gæti það hinsvegar verið of seint. Því skora ég á næstu ríkisstjórn að bregðast ekki og gera loks eitthvað í þessum málum.
Höfundur er rithöfundur, íslensku- og spænskufræðingur.