Stundum, þegar ég hugsa um heiminn, fæ ég minnimáttarkennd. Suma daga virðist mér heimurinn sem ég lifi í ekki vera neitt annað en óskilgreindur blekkingarvefur ofinn af tímanum og að mannlegar sálir hafi þar ekki annan tilgang en að svífa um í fullkomnu stefnu- og skilningsleysi. Þá virðist mér heimurinn í dag hvorki skárri né verri en hann var fyrr á tímum og að ég, sem hið minnsta peð, eigi minna erindi í þennan veruleika heldur en maurinn, sem þekkir þó a.m.k. eigið hlutverk.
Elínborg Harpa Önundardóttir.
,,Gjörðir mínar og skoðanir breyta engu,” hef ég hugsað með mér þar sem ég skrolla niður fréttasíður og virði fyrir mér skakkaföll heimsins, í sunnudagsþunglyndi vetrarskammdegisins. Svona hugsunarháttur á sér samt einungis stað suma daga. Aðra daga er ég mun jákvæðari og minnist allra þeirra sem barist hafa fyrir bættum heimi, hvort sem sá heimur er jörðin öll eða minni heimar sem mynda í sameiningu hinn stóra heim.
Maðurinn er pólitísk vera
Nú á dögum er áberandi lág kosningaþátttaka hjá yngri kynslóðum samfélagsins og afar takmarkaður áhugi fyrir pólitískri umræðu. Að vissu leyti kemur þetta ekki á óvart þar sem heimurinn virðist oft vera óstjórnanlegur og tilveran tilgangslaus. Ég held þó einnig að ein ástæða áhugaleysisins sé hin þrönga merking sem margir leggja í hugtakið ,,pólitík” og útiloka þar með sjálfa sig eða aðra frá pólitískri umræðu. En hún ætti ávallt að vera opin öllum.
Það að segjast vera ópólitískur er ekkert annað en afneitun á tilvist eigin skoðana, athafna og jafnvel hugsana.
Að mínu mati hitti Forngrikkinn Aristóteles naglann á höfuðið í riti sínu um stjórnmál. Samkvæmt honum er maðurinn í eðli sínu pólitísk vera þar sem hann getur átt í samskiptum við aðra og beitt skynsemi sinni í rökræðu. Maðurinn getur þannig haft áhrif á og breytt umhverfi sínu og lífsskilyrðum til hins betra með velferð mannkynsins að leiðarljósi (að sjálfsögðu), enda getur hann einn allra dýra greint rétt frá röngu.
Kæru lesendur, þetta er það sem ég hef að segja:
Það að vera pólitískt þenkjandi þýðir ekki bara að vera yfirlýstur kommúnisti, anarkisti eða framsóknarmaður. Það þarf ekki að kunna skil á stefnum, frægum aðilum eða löngum orðum sem enda á „-nefnd“ eða „-sáttmáli“ til að geta tekið þátt í pólitískri umræðu. Fyrir mér þýðir það að vera pólitísk að taka samfélaginu sem við mér blasir opnum örmum og viðurkenna þá staðreynd að sérhvert okkar er óaðskiljanlegur hluti af stærri heild. Samfélagið umlykur okkur og þar með hið pólitíska. Við gerum okkur kannski ekki grein fyrir því, en á vissan hátt fela nánast allar okkar gjörðir í sér pólitískan möguleika (sem sýnir kannski fram á merkingarleysu hins ,,pólitíska ómöguleika”). Til að afhjúpa hið pólitíska í lífi okkar þarf oft ekki meira en augnabliks hlé frá amstri dagsins til að sjá að við tökum nauðsynlega afstöðu til tilverunnar. Það hvernig ég tala, hvernig ég kem fram við aðra, hvernig ég huga að umhverfi mínu, hvað ég borða, allt þetta verður pólitískt um leið og ég verð meðvituð um gildi þess.
Það að segjast vera ópólitískur er ekkert annað en afneitun á tilvist eigin skoðana, athafna og jafnvel hugsana. Þorum að láta til okkar taka í þessum heimi sem varðar okkur öll. Það skiptir ekki öllu hvort við gerum það á þingi, á kaffihúsinu, inn á heimilinu eða í skólanum. Höldum hinum pólitíska vettvangi opnum fyrir alla, líkt og samfélagið á að vera opið fyrir alla. Leggjum viðeigandi merkingu í það „að vera pólitísk“ af því að hvort sem heimurinn er óskilgreindur blekkingarvefur tilgangsleysisins eða ekki erum við pólitískar verur og verðum það þar til við yfirgefum skynsemina, eða hún okkur.
Höfundur er heimspekinemi og tímaflakkari.