Á undanförnum mánuðum hefur iðulega sýnt sig að þrýstingur frá almenningi á fyrirtæki sem auglýsa á ensku eða gefa vörum sínum ensk heiti getur haft áhrif og skilað árangri. Í vor setti Nói-Síríus t.d. á markaðinn vöru þar sem á umbúðunum stóð „Butter & salt“. Eftir mótmæli og umræðu á samfélagsmiðlum og í blöðum baðst fyrirtækið afsökunar og hefur nú sett á markaðinn svipaða vöru þar sem stendur „Smjör & salt“ í staðinn. Fyrirtækið Oatly auglýsti í fjölmiðlum og á strætóskýlum „Itʼs like milk but made for humans“ en tók upp íslenska slagorðið „Eins og mjólk en gerð fyrir fólk“ eftir að stungið hafði verið upp á því á samfélagsmiðlum og mikil umræða skapast um málið.
En þrýstingur almennings og stjórnvalda hefur víðar áhrif en í auglýsingum fyrirtækja. Garðabær fjarlægði í sumar skilti á ensku sem stóð við íþróttamiðstöð bæjarins eftir ábendingar á samfélagsmiðlum og fjölmiðlaumræðu. Icelandair ákvað í haust, eftir kvartanir viðskiptavina og tilmæli menningar- og viðskiptaráðherra, að framvegis yrðu farþegar ávarpaðir á íslensku á undan ensku. Stjórn Isavia samþykkti nýlega, eftir umræðu á samfélagsmiðlum og fyrir atbeina ráðherra, að við endurnýjun skilta í Leifsstöð yrði íslenska sett á undan ensku, öfugt við það sem verið hefur. Ýmis fleiri nýleg dæmi um mætti nefna sem sýna að fyrirtæki og stofnanir bregðast við neikvæðri fjölmiðlaumræðu um enskunotkun.
En mikið starf er þó óunnið við að breyta viðhorfi bæði fyrirtækja og almennings til notkunar ensku á Íslandi. Í haust birtist frétt á Stöð tvö og Vísi um viðhorf Íslendinga og ferðamanna til erlendra heita veitingastaða, og til auglýsinga á ensku. Ég held ekki að erlend heiti veitingastaða og verslana hafi mikil bein áhrif á íslenskuna, en aftur á móti gefa þau skýrar vísbendingar um viðhorf okkar til tungumálsins. Fólki finnst þau alveg eðlileg og þar liggur hættan – ekki í beinum áhrifum heitanna á orðaforða og málkerfi. En allt öðru máli gegnir um samfellt mál sem okkur er ætlað að skilja, eins og auglýsingar. Í viðtölum í umræddri frétt komu fram tvenns konar viðhorf til þeirra sem ástæða er til að staldra við og taka alvarlega.
Hins vegar kemur fram sá skilningur að þetta sé bara hluti af eðlilegri þróun íslenskunnar – það sé eðlilegt að hún breytist og bara gaman að því. Ég tek sannarlega undir það að eðlilegt er að íslenskan breytist að vissu marki. Hún þarf að breytast til að þjóna síbreytilegu þjóðfélagi og í því getur falist m.a. að bæta við nýjum orðum, breyta tilteknum atriðum vegna tillits til ákveðinna þjóðfélagshópa, o.fl. En þetta mál snýst ekkert um breytingar á íslenskunni. Þetta snýst um það að enskan komi í stað íslenskunnar. Það er allt annað mál og grundvallaratriði að skilja þar á milli. Eftir því sem algengara verður að enska sé notuð þar sem hægt væri að nota íslensku fer okkur að þykja það sjálfsagðara.
Ég hef enga ástæðu til að ætla að þessi viðhorf séu bundin við það unga fólk sem þarna er rætt við. Þvert á móti finnst mér margt benda til þess að þau séu algeng og útbreidd. Við höldum að það sé sjálfgefið að íslenskan verði hér áfram, sama hvernig við förum með hana og hversu litla rækt við leggjum við hana. En þessi viðhorf leiða til þess að við fljótum sofandi að feigðarósi og vöknum ekki upp fyrr en það er orðið of seint – ekki fyrr en íslenskan hefur glatað stöðu sinni sem aðaltungumál samfélagsins. Sá missir væri óafturkræfur. Notum íslensku þar sem þess er kostur og hikum ekki við að gera athugasemdir við óþarfa og óeðlilega enskunotkun stofnana og fyrirtækja.
Höfundur er uppgjafaprófessor og málfarslegur aðgerðasinni.