Hvers vegna? Hönnuðir hins nýja og metnaðarfulla borgarhverfis sem kallast Höfðinn (Ártúnshöfði) ákváðu að hafa að engu sterk varnaðarorð frá Skipulagsstofnun um landfyllingar við ósa Elliðaáa. Álitið var gefið út fyrir fjórum árum og segir þar:
Skipulagsstofnun telur að bein áhrif fyrirhugaðrar landfyllingar á laxfiska geti orðið talsverð og jafnvel verulega neikvæð sé horft til mögulegrar skerðingar á fæðumöguleikum og búsvæði og geti þessi áhrif orðið varanleg og óafturkræf. Hver þessi áhrif verða er þó háð óvissu þar sem ekki liggja fyrir nægilega upplýsingar um búsvæði laxfiska við ósana, um dvalartíma laxfiska þar og þolmörk laxastofnsins fyrir skerðingu búsvæðis. …Stofnunin minnir í því sambandi á meginreglu umhverfisréttar um varúð sem hefur meðal annars verið lögfest í náttúruverndarlögum.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og Fiskistofa taka í sama streng, Veiðimálastofnun og Skrifstofa umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg sem segir „nauðsynlegt að ítrustu varfærni verði gætt við þessa framkvæmd enda einstakt að hafa laxveiðiá í miðri höfuðborg og því beri að hlúa að ánum frekar en að skapa aukið álag og áhættu.“
Hönnuðir hverfisins ganga ótrauðir gegn áliti allra sem vita betur. Hvers vegna?
Samráð um hvað?
Nú stendur yfir herferð til að fá borgarbúa til samráðs um hverfið. Ég hef fengið þau svör að þessi hönnum hverfisins muni fara í auglýsingu hvað sem líður varnaðarorðum enda myndi breyting „riðla” skipulagstillögunni. Ekki boðar það gott fyrir framhald samráðs. Lágmarkskrafa er að hætt verði við landfyllingaráfanga 2 og 3 sem Skipulagsstofnun setur sérstaka fyrirvara við. (Sjá mynd í Fréttablaðinu 30. mars).
Í nafni sanngirni get ég þess að hugmyndir um hverfið í heild eru margar góðar. Hins vegar verður að knýja fram svar strax á opinberum vettvangi: Hvers vegna er þetta skipulag látið ganga þvert gegn öllum ráðleggingum um aðgát við ósa Elliðaánna? Hvað tilgangur er æðri því markmiði að standa vörð um perlu Reykjavíkur?
Í öðru lagi verður að færa út landhelgi grænu svæðanna sem eftir eru, en ekki ganga sífellt á þau. Útfærsla landhelginnar tekur til Elliðaárdalsins sjálfs þar sem á að hætta við strax allar byggingar á svokölluðum þróunarreit við Stekkjabakka. Þar ætti að prýða svæðið í anda dalsins alls. Ennfremur að taka frá rífleg svæði fyrir almenningsgarð og útivist á Geirsnefi og meðfram ánum út til ósa, en ekki þrengja jafn stórlega að og nú er vilji fyrir. Taka frá svæði meðfram ánum öllum á báða vegu með góðu rými fyrir fiska, fugla og fólk sem vill njóta nálægðar við náttúru (sem nú er búið að spilla um of).
(Þann 21. apríl 2021 efna Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands til málþings um skipulag grænna svæða á og nálægt höfuðborgarsvæðinu þar sem borgarstjóri situr fyrir svörum. Þessi grein verður send til fundarins sem fyrirspurn).
Höfundur er fyrrverandi borgarfulltrúi og var sem slíkur formaður samráðshóps sem eitt sinn var um málefni Elliðaánna.