Konur geta verið gríðarsterkt afl þegar þær standa saman. Þetta vissu þingmenn fyrir rúmum hundrað árum þegar þeir unnu að gerð frumvarps sem gerði konum kleift að kjósa til Alþingis. Konur höfðu þá þegar kosningarrétt til sveitastjórna og höfðu boðið fram kvennalista í Reykjavík í þrígang, árin 1908, 1910 og 1912. Það var því margur maðurinn sem óttaðist að þær myndu gera slíkt hið sama í þingkosningum - og kjósa bara hver aðra til Alþingis – og hvað myndi eiginlega leiða af því?
Þingmenn komu sér þó loks saman um ásættanlega lausn og í frumvarpi um kosningarétt kvenna árið 1913 er kveðið á um að konur skuli ekki fá kosningarétt fyrr en þær eru fertugar! Engin önnur þjóð setti viðlíka aldursákvæði, nema Bretar sem miðuðu við 30 ára aldur. Það var þó ekki vegna þess að yngri konum væri ekki treystandi til að kjósa því aldursmarkið skyldi lækka um eitt ár á ári hverju næstu 15 árin þar til karlar og konur stæðu jöfn árið 1931. Frumvarpið er óvenju heiðarlegt þegar að þessu misrétti kemur, því í greinargerð með því stendur að varhugavert sé að „fjölga svo kjósendum alt í einu, að núverandi kjósendur sjeu sviftir mest öllu valdi yfir landsins málum.“ Já, það getur verið erfitt að vera sviptur valdinu. Það getur verið erfitt að standa frammi fyrir róttækum breytingum, vitandi að ekkert verður eins og áður.
Auðvitað virðast okkur þessi ummæli í greinargerðinni kjánaleg, jafnvel barnslega einlæg, því við vitum betur í dag. En bíðum nú við. Er það mögulega álíka ótti sem sprettur upp í dag þegar rætt er um aðgerðir til þess að fjölga konum í stjórn fyrirtækja. Eða kvenkyns keppendum í Gettu Betur. Og þegar samfélagsumræðan leyfir ekki þá skýringu að það gangi ekki að núverandi valdhafar séu sviptir valdinu sísvona, þá er óttinn oft dulbúinn sem umhyggja fyrir þeirri ólánskonu sem verður nú „neydd“ í þetta hlutverk í nafni jafnréttis. Það þýði ekkert að setja svona lög – fyrirtækin verði óstjórnhæf, sjónvarpskvöldin ónýt og konurnar taugaveiklaðar af þessari miklu ábyrgð. En svo, eins og með kosningaréttinn fyrir hundrað árum, þegar kynjakvóti hefur verið settur reynist bara allt í lagi! Gettu Betur er bara pínulítið skemmtilegra og hver veit nema fyrirtækin séu aðeins betur rekin. Við þetta gleymist óttinn, umræðan hljóðnar og það dettur ekki nokkrum manni í hug að krefjast þess að snúa aftur til óréttlætisins.
Að takast á við misréttið
En því miður tekur misréttið sífellt á sig nýjar birtingarmyndir og því þarf jafnréttisbaráttan að gera slíkt hið sama. Ein af forkólfum íslensku rauðsokkuhreyfingarinnar sagði eitt sinn við mig að okkar kynslóð femínista stæði frammi fyrir stærstu áskorun hreyfingarinnar til þessa: Að takast á við afleiðingar klám- og kynlífsvæðingar samtímans.
Þær byltingar sem unnið hefur verið að á Íslandi undanfarna mánuði renna stoðum undir þetta. Konur mótmæla þeirri mismunun sem þær verða fyrir í öllum kimum samfélagsins, á heimilinu jafnt sem vinnustaðnum. En einmitt þarna tekur hin femíniska bylting á sig nýtt form til að aðlagast nýjum tímum: #þöggun, #6dagsleikinn, #freethenipple. Brjóst eru ekki kynfæri, þau eru fyrst og síðast matarkista fyrir börnin okkar. Við neitum að þegja þegar á okkur er brotið. Við skilum skömminni þangað sem hún á heima. Saman erum við gríðarsterkt afl.
Sjaldan hafa jafn margir úr jafn ólíkum áttum komið saman til þess að krefjast jafnréttis. Femínisminn er að opnast og sífellt fleiri vilja vera þátttakendur og hafa áhrif á hvernig femínisminn mótast. Það er það fallega við þessa hreyfingu – hún getur farið hvert sem er, hvert sem hennar er þörf, hvar sem misréttið er að finna. Þvílík gleði að það séu til kampavínsfemínistar, jafnréttissinnar, lopapeysutúttur og femínistatussur. Leyfum ekki þeim óttaslegnu að dulbúast umhyggjusemi og staðhæfa að allir femínistar falli í sama mót og þurfi því að vera sammála í einu og öllu. Við megum vera nákvæmlega eins og við viljum því þetta snýst ekki um orðið sem notað er til að lýsa okkur, þetta snýst um gjörðir sem færa okkur nær fullu jafnrétti kynjanna.
Baráttuhug fyrir jafnrétti er ekki aðeins að finna meðal kvenna. Íslenskir karlmenn leiða nú alþjóðlega átakið HeForShe, sem UN Women stendur fyrir. Markmiðið að safna saman milljarði karla um allan heim sem tilbúnir eru að leggja sitt af mörkum svo jafnrétti náist. Með því að fá karlmenn með í baráttuna er ekki verið að loka á raddir kvenna, heldur opna fyrir raddir karla. Í næstu viku fer fram í Hörpu alþjóðlega jafnréttisráðstefnan WE þar sem lögð er áhersla á mikilvægi jafnréttis fyrir bættan efnahag þjóða. Gestir koma hvaðanæva að, ekki síst vegna þess að litið er til Íslands þegar kemur að jafnréttismálum.
Skynsemin óttanum yfirsterkari
En betur má ef duga skal. Þess vegna er mikilvægt að við minnumst þeirrar baráttu sem formæður háðu til að tryggja okkur þau réttindi sem við njótum í dag. Kosningaréttinn, starfsframa, jöfn laun - já hvenær ætlum við eiginlega að komast yfir þann hjalla? Margt er enn óunnið.
Ég óska Íslendingum öllum til hamingju með 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna þann 19. júní 2015. Minnumst þess að óttinn við hið óþekkta er eðlilegur en við þurfum að nýta skynsemina til að greina hann og yfirbuga. Ótti má ekki standa í vegi fyrir framförum. Aðeins þannig náum við markmiðinu: fullu jafnrétti kvenna og karla. Það er hægt.