Verðbólgan ríður húsum hér á ný. Það skilar litlu að ræða orsakir hennar. Þar sýnist sitt hverjum. Ekki er örgrannt um að matið á orsökunum sé um of handstýrt af hagsmunum eða hugmyndafræði viðkomandi umsagnaraðila. Íslensk hugsun snýst jú aðallega um sérhagsmuni. Sumum er hún velkomið tækifæri til að smyrja ofan á þær hækkanir aðfanga sem þeir fá í fangið. Íslenskir markaðir einkennast upp til hópa af fámennis- eða einokunar framboði. Samkeppnin, sem er beittasta vopn neytenda, hefur verið á undanhaldi. Verðlagið hreyfist upp, ekki niður.
Ýmist er Covid 19, stríðinu í Úkraínu eða seinkun og slit á aðfangakeðjunni frá Asíu kennt um verðbólguna. Allt þetta eykur þrýsting á verðlagið. En það eitt og sér býr ekki til verðbólgu. Á sínum tíma var háum kauphækkunum, sem velt var út í verðlagið, sem aftur urðu tilefni nýrra kauphækkana. Þá bárust böndin einnig að sveiflukenndu einhæfu atvinnulífi. Þetta gerðist þó hvorki hjá Færeyingum né Grænlendingum, bjuggu þeir þó við sveiflukennda atvinnuvegi eins og við og kaupmáttur þar jókst ekkert minna en hjá okkur. Hvað gerði gæfumuninn?
Peningamagnið
Hvað þarf að vera til staðar til að verðbólga fari að láta til sín taka, burt séð frá dýpra orsakasamhengi hennar? Af hverju getur verðhækkun á einu vörusviði breiðst út til annarra? Til að verðbólga fari af stað verður peningamagn í umferð að aukast. Það þarf að búa til fleiri krónur og setja í umferð til að hægt sé að kaupa sama magn af umræddri vöru og áður. Við þau skilyrði festist verðhækkunin í sessi. Fái neytendur ekki fleiri krónur til að kaupa fyrir færist eftirspurnin til og minnkar á öðrum vörum. Áhrif hækkunarinnar fjara út. Ef verð á bensíni hækkar vegna dýrari orku hleypir það ekki af stað neinni verðbólgu nema til skamms tíma nema svigrúm sé gefið með því að auka peningamagn í umferð, sem opnar leið fyrir aðra til að hækka eigin verð. Jafnvel á íslenska fákeppnismarkaðnum myndi þessi einstaka verðhækkun á bensíni jafnast út og eftirspurn færast til. En viðbrögðin hafa jafnan verið gengislækkun sem er auðveldari til skemmri tíma en veldur illbætanlegum skaða til framtíðar. Hin leiðin er innri aðlögun að föstu gengi. Hún er í upphafi pólitískt erfiðari en heilladrýgri til lengdar.
En hvenær eykst peningamagn i umferð?
Ef bankar auka lánveitingar umfram uppgreiðslu lána eru komin viðbótar eftirspurn eftir vörum eða þjónustu. Halli á ríkissjóði er fjármagnaður með lántöku veldur verðbólgu því þetta jafngildir peningaprentun. Ferðamenn sem koma til landsins með peninga sem þeir skipta fyrir íslenskar krónur þrýsta á verðlagið, auka peningamagnið. Ofurhagnaður í sjávarútvegi sem ekki fer til Tortóla hækkar peningamagn í umferð og eftirspurn og þar með verðlag. Gengissig (-felling) býr til fleiri krónur fyrir útflutninginn sem eykur eftirspurn og hækkar verð. Það skýtur því nokkuð skökku við þegar Seðlabankinn hækkar stýrivexti um 0,75 % en leyfir genginu síðan að síga um 2,4 % sem eykur peningamagnið sambærilega.
Uppsafnað verðlag og hagstjórn
Ísland er eitt allra dýrasta land í heimi. Hvernig stendur á því ? Á seinni styrjaldar árunum jókst peningamagn vegna hernaðarframkvæmda hér í landi. Kauphækkanir umfram verðmætasköpun ýttu á verðlagið. Þetta var kölluð dýrtíð, því verðhækkanirnar voru ekki almennar. Með Viðreisnarstjórninni verða tímahvörf í hagstjórn. Þá er gengisfelling gerð að venjulegu hagstjórnartæki og hún heldur því hlutverki fram á okkar tíma. Sérhver gengisfelling eykur peningamagnið og hækkar verðlag. Sú hækkun gengur ekki til baka heldur bætist ofan á það verðlag sem fyrir var og myndar stökkpall fyrir næstu gengisfellingu. Allar þessar gengisfellingar eru að mestu (ekki öllu) leyti valdar að því háa verðlagi sem hér hefur safnast upp og fer enn hækkandi. Tilfinnanlegur skortur á samkeppni á innlendum mörkuðum veldur því að hér er lítill sem enginn þrýstingur á að lækka vöruverð á móti. Það er vissulega mikið áhyggjuefni fyrir almenning hve samkeppnin er orðin vesöl hér. Það gerir hagkerfið allt stirðara og söluvarning dýrari. Auðmenn einkum úr sjávarútvegi sanka að sér fyrirtækjum sem framvegis keppa ekki hvert við annað. Þess í stað samræma þeir verð og framboð.
Af hverju við – ekki nágrannalöndin ?
Því veldur íslenska krónan. Öll nágrannalönd okkar búa við stöðuga gjaldmiðla. Þeir eru öflugasta mótstaðan við verðbólgu. Það er athyglisvert, að öll þrjú löndin sem eru árvisst með hæsta verðlag á heimsvísu búa öll við sjálfstæðan gjaldmiðil. Þeir hreyfast ekki endilega í takt við aðra stærri gjaldmiðla, heldur í samræmi við stýringu gengis að heiman eða styrkleika gjaldmiðla þeirra og markaðsvirði framleiðslu landann á heimsmarkaðnum. Sviss á langa og farsæla sögu í miðri álfunni. Tvær heimsstyrjaldir fóru framhjá landinu, sem styrkti innviði og gjaldmiðil. Á meðan þjóðríki álfunnar höfðu hvert sinn gjaldmiðil var Noregur úti á rúmsjó eins og önnur lönd. Þegar olían fannst við Noreg voru Norðmenn svo klókir að skipta landinu í tvö nokkuð óháð hagsvæði.
Olíuauðurinn fór aldrei í land og sprengdi þar ekki verðlag svo sem á fasteignamarkaði umfram það sem gerðist annars staðar. Við hleyptum útgerðarauðnum hins vegar óhindrað og án auðlindagjalds inn á þunnan íslenskan markað, þar sem hann gat valsað um og keypt fyrirtæki að vild og sprengt upp verðlag. Það er einn af orsakavöldum verðbólgunnar hér. Næstu nágrannalönd okkar Grænland og Færeyjar hafa lifað við þá gæfu að geta ekki hringlað með gjaldmiðil sinn til að reyna að leiðrétta hagskekkjur. Íslenska hagkerfið þarfnast brýnt stöðugs alþjóðlegs gjaldmiðils, sem við getur ekki grautað í að vild ýmist meðvitað eða látið reka. Það er bæði dýrt og mótsögn í sjálfu sér að keppa á hnattvæddum mörkuðum með örlítinn, veikburða þjóðlegan gjaldmiðil. Það er engum til góðs, nema þeim sem nota hann sér til prívat hagsbóta. Þeir finnast, en mega ekki ráða stjórn á íslensku efnahagslífi.
Höfundur er hagfræðingur.