Endurvinnsla plasts er afar mikilvæg í öllu samhengi. Hún er flókin af því að margar, ólíkar plasttegundir eru til. Samt á plast að vera stór hluti nýs hringrásarhagkerfis. Það liðkar fyrir því að samfélög þrífist til langs tíma. Umhverfis- og loftslagsmál verða að ná sem allra fyrst ásættanlegu flugi til grænnar framtíðar. Endurnýting hráefna er þar lykilatriði. Hugmyndir um stórtæka „hátækni“ brennslu plasts ganga ekki upp. Meðal annars vegna loftmengunar sem minnkar en hverfur ekki þrátt fyrir síun, efnahvörf, háan hita og vegna mjög vandmeðfarinnar ösku sem fylgir brennslunni. Samtímis verður að draga úr notkun og frumframleiðslu plasts, án þess þó að kasta því fyrir róða. Sem liður hringrásarhagkerfi er plast framtíðar smíðaefni. Aðeins má brenna allra óæskilegasta, lífrænum úrgangi.
Því miður hefur mikið af plasti verið urðað. Bæði í vondum landfyllingum þar sem öllu ægir saman, sbr. Gufunes og Geirsnef í Reykjavík og í meira flokkuðum og eitthvað skárri fyllingum, eins og á Álfsnesi. Þessi háttur á „sorpförgun“ var því miður viðurkenndur af okkur öllum. Nú er þekking á plasti og vinnslutækni önnur og betri, og skilningur bættur á nauðsynlegri vegferð plasts og ótal annarra efna í veröldinni.
Fyrir alllöngu hefur komið fram að það skortir á sem besta meðhöndlun plasts hér á landi. Mestur hluti þess getur farið í endurvinnslu en gerir það ekki. Minni hluti getur þar með verið fluttur úr í sérhæfða endurvinnslu og dálitlu verður brennt innanlands. Því miður hefur mest af plasti sem til fellur hér á landi verið flutt út án nægrar vitneskju um örlög þess. Fyrir alllöngu varð ljóst að meðferð stórs hluta er ekki í samræmi við ásættanlegar kröfur.
Íslensk fyrirtæki taka t.d. við veiðarfærum úr svokölluðum gerviefnum og senda út í verjanlega úrvinnslu. Íslenskt fyrirtæki framleiðir t.d. að hluta umbúðir úr endurunnu plasti. Íslenskt fyrirtæki endurvinnur t.d. ýmis konar plast, m.a. rúlluplast bænda, og notar jarðvarma við nýsköpun vinnsluaðferðar. Plastendurvinnslufyrirtæki hefur almennt skort hráefni til innlendrar framleiðslu og þá um leið framlög frá Úrvinnslusjóði.
Sá sami sjóður hefur greitt fyrir útflutning á plasti. Flókin saga þeirra mála verður ekki rakin hér né lögð fram rökstudd gagnrýni á starfshætti hans undanfarið eða á lög sem hann starfar eftir. Þau hafa þurft endurskoðunar við, í takt við tímann.
Endurskoðun fór fram undir lok síðasta kjörtímabils með frumvarpi umhverfisráðherra um „breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald (EES-reglur, hringrásarhagkerfi)“ eins og stendur í skjölum Alþingis (708. mál á 151.þingi). Umhverfis- og samgöngunefnd vann vandað nefndarálit og lagði fram breytingartillögur. Ég var framsögumaður nefndarinnar. Að álitinu stóðu allir stjórnarþingmennirnir, auk tveggja þingmanna Samfylkingar og Viðreisnar með fyrirvara. Breytingarnar verða ekki raktar hér en fólu m.a. í sér þá skyldu Úrvinnslusjóðs að vita allan feril plastsins erlendis og sjá til þess að hann standist umhverfiskröfur. Einnig var farið skýrt fram á endurmat sjóðsins sjálfs, og annarra er endurvinnslumál varða, á stuðningi við og fyrirkomulagi á innlendri endurvinnslu plasts í því augnamiði að auka hana verulega. Alþingi samþykkti enn fremur að embætti Ríkisendurskoðanda færi yfir starfsemi Úrvinnslusjóðs.
Ég rek þetta hér vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um Úrvinnslusjóð og meðhöndlun plastúrgangs. Tekið var á þeim málum af festu í þingnefndinni, í samráði við á þriðja tug umsagnaraðila. Læt hér fylgja stuttan kafla úr nefndarálitinu með skýrum vilja mikils meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Þingið afgreiddi frumvarpið með traustum meirihluta (sleppi tilvísunum í lög og töluliði laga, og einnig síðustu málsgrein kaflans):
„Meiri hlutinn áréttar að hagkvæmnis- og umhverfisverndarrök mæla með því að sem mest af plasti er til fellur í landinu verði endurunnið hérlendis og sem minnstur hluti fluttur úr landi. Ef aðstæður til endurvinnslu eru til staðar á landinu er rétt að nýta þær enda sé um mikilvægan þátt í myndun hringrásarhagkerfis á Íslandi. Mikilvægt sé að ef plast verði flutt úr landi séu fyrir því gildar ástæður. Tryggja verði að unnt sé að styrkja nýsköpun enn frekar á þessu sviði endurvinnslu, aðstoða jafnvel fyrirtæki til þess að sinna endurvinnslu plasts og auka jafnt sérhæfni sem samkeppni í þeim geira. Meiri hlutinn fagnar þeim styrktarsjóðum sem snúa að nýsköpun í úrgangsmálum.
Meiri hlutinn hvetur til þess að umhverfis- og auðlindaráðuneytið efni til átaks sem miði að því að koma bæði umgjörð innlendrar plastendurvinnslu og framkvæmd hennar í horf sem hæfir hringrásarhagskerfi sem best. Þar þarf að kanna og ákvarða hvort og þá að hve miklu leyti endurvinnsluþátturinn verði aðskilinn frá verkefnum Úrvinnslusjóðs. Á það við um endurvinnslu fleiri efna, t.d. glers og ef til vill málma á borð við ál.
Með vísan til framangreindra sjónarmiða um mikilvægi þess að sem mest af plasti er fellur til á landinu verði endurunnið á Íslandi leggur meiri hlutinn til breytingu …. laga um úrvinnslugjald sem kveður á um skyldu Úrvinnslusjóðs að tryggja að fullnægjandi gögn séu til staðar áður en greiðslur er inntar af hendi. Af því leiðir að Úrvinnslusjóður þarf að fá upplýsingar um endanlega ráðstöfun plastúrgangs, hvar plastið verði endurunnið og hver umhverfisáhrif ráðstöfunarleiðar eru. Liggi þessar upplýsingar ekki fyrir getur Úrvinnslusjóður ekki greitt út fyrir ráðstöfun úrgangsins…”
Höfundur var annar varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis 2017-20121.