Þessa daganna er rifist fyrir EFTA-dómstólnum. Ástæðan er sú að óskað hefur verið eftir ráðgefandi áliti hans á því hvort verðtryggð neytendalán stangist á við tilskipanir Evrópusambandsins og sé þar af leiðandi ólögmæt.
Á meðal þeirra sem skiluðu greinargerð í málinu er ríkisstjórn Íslands, sem er þeirrar skoðunar að verðtryggingin samrýmist tilskipunum Evrópusambandsins að fullu. Ríkisstjórnin telur að verðtryggingin sé lykilþáttur í íslensku efnahagslífi og því verði að gera ráð fyrir að neytendur á Íslandi skilji grundvallarþætti verðtryggðra lána. Ríkisstjórnin lýsir auk þess áhyggjum sínum af því að ef verðtryggingin reynist ekki samrýmast tilskipununum mun það hafa alvarlegar efnahagslegar afleiðingar, bæði fyrir fjármálamarkaði og stofnanir Íslands. Þessa ríkisstjórn skipa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur.
Forsendubrestur
Sama ríkisstjórn komst til valda á baki þess loforðs að greiða hluta þjóðarinnar tugmilljarða króna skaðabætur vegna þess að verðtryggingin þróaðist ekki nákvæmlega eins og einhverjir höfðu óskað sér þegar þeir tóku húsnæðislán. Röksemdarfærslan fyrir þessari stærstu millifærslu Íslandssögunnar á peningum allra í vasa sumra - sem átt hefur sér stað með sértækum hætti - var sú að það væri forsendubrestur ef verðbólga hækki tímabundið verðtryggt lán.
Nú er ég bara leikmaður í þeim leik sem innantómt pólitísk hjal er, en ég get ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að röksemdarfærsla ríkisstjórnarinnar fyrir skuldaniðurfellingum sé algjörlega andstæð þeirri röksemdarfærslu sem sama ríkisstjórn teflir fram fyrir EFTA-dómstólnum. Ef neytendur skilja grundvallarþætti verðtryggra lána, og áhættuna sem þeim fylgir, þá geta þeir ekki orðið fyrir forsendubrest þegar lánin hækka vegna verðbólguskots.
En það skiptir víst máli í þessu sambandi hvort stjórnmálaflokkar séu að reyna að kaupa sér kosningar eða hvort þeir séu að reyna að koma í veg fyrir mögulega neyðarlagasetningu vegna þeirra stórkostlegu alvarlegu efnahagslegu afleiðinga sem ólögmæti verðtryggingar myndi hafa. Það vill enginn vera sá flokkur sem setur neyðarlög til að koma í veg fyrir nýtt efnahagshrun. Sérstaklega þegar það er sami flokkur (Framsóknarflokkur) og hefur komist til valda með því að agnúast útí verðtrygginguna, sem hann reyndar setti sjálfur á upphaflega með Ólafslögunum 1979 og þarf nú að verja með kjafti og klóm fyrir alþjóðlegum dómstólum.
Tökum ennþá verðtryggð lán
Skuldaniðurfellingarbíóið er og hefur alltaf verið óskiljanlegt. Það varð til sem atkvæðaveiðafæri á grunni þess að það þyrfti að grípa til almennra aðgerða til að leiðrétta forsendubrest. Þetta væri réttlætismál.
Niðurstaðan sem var kynnt í vor tikkar ekki í neitt af þessum boxum. Útfærslan er sértæk þar sem einungis hluti þeirra sem urðu fyrir áhrifum verðbólguskots fengu lottóvinning ríkisstjórnarinnar og hún er mjög óréttlát þar sem hún hyglar að sumu leyti þeim sem eiga miklar eignir en útilokar með öllu alla hina, meðal annars þá sem eiga minnst, t.d. leigjendur.
Ofan á allt annað er stefna annars ríkisstjórnarflokksins að banna verðtryggð húsnæðislán, sem myndi gera það mun erfiðara fyrir stóran hluta þjóðarinnar að kaupa sér húsnæði. Enn þann dag í dag er nefnilega meirihluti þeirra húsnæðislána sem Íslendingar taka verðtryggður. Þrátt fyrir forsendubrest, afnámstal, skuldaniðurfellingar og allt hitt ruglið þá velja flestir neytendur enn þennan kost. Ástæðan er einföld: afborganir eru miklu lægri.
Eignir hækka líka, ekki bara skuldir
Til að skilja grundvallarþætti verðtryggðra lána þarf nefnilega að átta sig á því að þau snúast um að dempa afborganir þannig að þær sveiflist ekki eftir verðbólguskotunum, sem eru auðvitað tíð á Íslandi, enda landið nokkurskonar Evrópu- og ólympíumeistari í hárri verðbólgu. Höfuðstól getur hækkað tímabundið en yfir aðeins lengra tímabil jafnast sú hækkun út samhliða því að eignaverð fer að hækka aftur.
Eins og núna, þegar það er nýbúið að ákveða að gefa afmörkuðum hóp 80 milljarða króna. Eignarverð er á fleygiferð upp á við. Á síðastliðnu ári hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu, þangað sem 70 prósent niðurfellingapottsins fer, til dæmis hækkað um meira en ellefu prósent. Hagsjá Landsbankans spáir því að húsnæðisverð hækki áfram, um níu prósent á þessu ári, 7,5 prósent á árinu 2015 og sjö prósent á árinu 2016. Þá verður íbúð sem kostaði 30 milljónir króna í fyrra komin upp í um 42 milljónir króna. Og eigandi hennar mögulega búinn að fá allt að fjórar milljónir króna gefins frá ríkinu samhliða þessari hækkun vegna þess að skuldir hans hækkuðu í verðbólguskoti.
Ný neyðarlög
Það virðast hins vegar ekki allir átta sig á því hvað það myndi þýða ef verðtrygging neytendalána yrði dæmd ólögmæt. Afleiðingarnar yrðu risavaxnar fyrir íslenskt efnahagslíf. Íbúðalánasjóður færi í nokkur hundruð milljarða króna gjaldþrot sem annað hvort lífeyrissjóðirnir okkar (sem eiga flest skuldabréf sjóðsins) eða ríkissjóður (sem er í ábyrgð fyrir honum) þyrfu að greiða. Íslensku bankarnir myndu þurfa að taka ansi stóran skell líka. Líklega myndi hann hlaupa hundruðum milljarða króna. Námslán eru ekki skilgreind sem neytendalán, en telja verður afar líklegt að látið yrði reyna á þá flokkun ef önnur verðtryggð lán yrðu dæmd ólögmæt. Ef henni yrði hnekkt myndi Lánasjóður íslenskra námsmanna tapa milljörðum króna.
Innan síðustu ríkisstjórnar óttuðust ráðamenn hennar mjög að þessi verðtryggingamál myndu tapast með hræðilegum afleiðingum fyrir íslenskt efnahagslíf, ríkissjóð og atvinnulíf sem hefur byggt á verðtryggingu í 35 ár. Þar var rætt um það í fullri alvöru að mögulega þyrfti að setja ný neyðarlög til ef það yrði niðurstaða dómstóla, til að koma í veg fyrir annað hrun.
Hringavitleysa
Staðan er því svona: Fyrir aldarfjórðungi setti ríkisstjórn undir forsæti Framsóknarflokksins lög sem innleiddu verðtryggingu í íslenskt samfélag. Í fyrra keypti flokkurinn sér kosningar með því að lofa að gefa fólki sem tók verðtryggð lán peninga vegna þess að verðbólgan, og þar með verðtryggðu lánin, urðu tímabundið hærri en fólkið óskaði sér. Það sem af er ári hefur forysta flokksins síðan talað hátt og ákveðið fyrir því að verðtrygging verði afnumin og ný húsnæðismálastefna velferðarráðherra hans gengur út á að öll lán verði óverðtryggð. Sami Framsóknarflokkur á síðan aðild að ríkisstjórn sem heldur því fram fyrir EFTA-dómstólnum að neytendur á Íslandi skilji grundvallarþætti verðtryggðra lána og því séu þau ekki ólögmæt!
Þótt neytendalán verði kannski ekki verðtryggð í framtíðinni verður kjaftæði stjórnmálamanna það örugglega áfram. Sú steypa mun aldrei tapa verðgildi sínu.