Úkraína hefur í gegnum aldirnar verið vígvöllur og blóði drifinn sem slíkur, vettvangur hroðaatburða. Við getum byrjað í seinni heimsstyrjöld, þar sem morðóðir nasistar óðu yfir steppurnar í austri, eftir að Adolf Hitler rauf friðarsamninga við Jósef Stalín, leiðtoga Sovétríkjanna sumarið 1941.
Hitler réðist þangað inn með her sinn í leit að „lífsrými“ til handa komandi kynslóðum Þriðja ríkisins. Sú ferð varð að sneypuför, en engu að síður tókst nasistum að drepa um 1,5 milljón af gyðingum Úkraínu, eða næstum þá alla. Um 25 milljónir Rússa féllu í glímunni við nasista, hermenn og almennir borgarar.
Við getum einnig staldrað við samyrkjuvæðinguna og hreinsanir Stalíns á fyrstu áratugum Sovétríkjanna, sem kostuðu milljónir manna lífið. Í Úkraínu er orðið “Holodomor“ notað yfir þá manngerðu hungursneyð á árunum 1932-1933, sem dró milljónir manna til dauða, 4-7, jafnvel hærra. Grunnur hennar lá í andúð Jósef Stalín á þjóðernissinnuðum Úkraínumönnum og bændum þar, sem hann taldi afturhaldssama og hamla framþróun og iðnvæðingu Sovétríkjanna.
Stórveldi Svía féll í Úkraínu
Þá lauk stórveldisdögum Svía, undir stjórn Karls tólfta (XII) við borgina Poltava í Úkraínu árið 1709 þar sem þeir töpuðu fyrir Rússum, sem eftir þetta urðu að stórveldi í N-Evrópu. Þá reyndi Napóleón Bonaparte að sölsa undir sig Rússland árið 1812, en hann fór að mestu leyti í gegnum nágrannaríkið sem nú er Hvíta-Rússland á leið sinni til að lumbra á Rússum. Napóleón hafði ekki erindi sem erfiði og missti nokkur hundruð þúsund menn í þessari sennilega frægustu og alræmdustu herför sögunnar. Eftir það má segja að allur vindur hafi verið úr Napoleon.
Fleiri þjóðir hafa slegist við og í Úkraínu; Pólverjar, Litháar, svo einhverjir séu nefndir. Og í byrjun tilvistar þessa svæðis allskonar aðrir hópar, sem við getum jafnvel kallað víkinga, að minnsta kosti suma.
Samhljómur með sögu Úkraínu og Íslands
Það merkilega við sögu Úkraínu er að hún er nánast jafngömul sögu Íslands, því nokkur sátt ríkir um þá söguskoðun að það hafi verið norrænir menn, víkingar, sem stofnuðu til búskapar í Kíev, það sem kallað hefur verið Kænugarður, á 9.öld eftir Krist. Á vatnaleiðum sem liggja um svæðið sigldu menn og voru ræðarar. Það er jafnvel talið vera uppruni orðsins, „rús“ – sem orðið Rússar er mögulega dregið af. Ein þessara leiða var áin Dnépr, sem Kíev stendur við.
„Fjöldi norrænna manna settist að í helstu borgum á þessari vatnaleið og sú kenning í sagnfræði sem kölluð er normannismi segir að einmitt þeir hafi stofnað rússneska ríkið,“ segir í bókinni Rússland og Rússar eftir Árna Bergmann, einn okkar helsta kunnáttumann um Rússland og sögu þess.
Til að gera langa sögu stutta, þá var Úkraína (þýðir í raun „jaðarinn“/ „jaðarsvæði“) eitt af burðarlýðveldum Sovétríkjanna 1922-1991 og tveir af leiðtogum þess voru frá Úkraínu, þeir Nikita Krústsjov og Lenoid Brésnev. Þegar Sovétríkin féllu á annan dag jóla árið 1991 varð Úkraína, með sínar 43 milljónir manna, endanlega laust undan járnhæl Sovétsins, en landið hafði lýst yfir sjálfstæði 24. ágúst eftir misheppnaða valdaránstilraun gegn síðasta leiðtoga Sovétríkjanna, Mikail Gorbatsjov.
Stríð á stríð ofan
Drögum upp smá tímalínu og víkjum að Pútín. Árið 2000 tekur hann við í Rússlandi sem forseti eftir valdatíma Boris Yeltsín (1991-1999). Nokkrum mánuðum áður (Pútín þá forsætisráðherra) hófst styrjöld númer tvö Téténíu, S-Rússlandi. Rússland er svo skrambi stórt og þar búa fjöldamörg þjóðarbrot. Í þessu tilfelli höfðu íslamskir vígamenn ráðist inn í héraðið Dagestan og lýst þar yfir heilögu stríði. Þessi átök stóðu til 2009, með miklu mannfalli og svívirðilegum mannréttindabrotum.
Í ágúst 2008 hafði Pútin einnig ráðist inn í Georgíu (enn eitt af fyrrum lýðveldum Sovétríkjanna, þaðan var Stalín) vegna þess að þeir vildu nálgast Vesturlönd og jafnvel ganga i NATO, sem frjálst og fullvalda ríki. Það vildi Pútín ekki. Stríðið stóð stutt, en enn eru um 10.000 rússneskir hermenn staðsettir í Georgíu. Í raun er staðan þannig að Rússland hefur hernumið um 15-20% af landsvæði Georgíu, svæði sem kallast Abkasía og Suður-Ossetía.
Árið 2014 köstuðu íbúar Úkraínu af sér spilltum forseta og lepp Pútíns, Viktor Janúkóvits, sem flúði með mikinn auð til Rússlands og er þar enn. Það er kölluð „Maidan-byltingin“. Þetta sama ár gripu aðskilnaðarsinnar til sinna ráða í Donbass-héraðinu í A-hluta Úkraínu, studdir af Rússum, og hertóku borgirnar Donetsk og Luhansk. Stofnuð voru svokölluð „alþýðulýðveldi“ á báðum stöðum og þar hefur rússenskum vegabréfum verið dreift til íbúanna. Stór hluti A-Úkraínu er því á valdi ólögmætra aðila.
Innlimun Krímskaga
Þetta sama ár réðust svo óeinkennisklæddir hermenn frá Rússlandi inn á Krím-skaga og hertóku hann. Þetta var í raun innlimun Rússlands á Krím-skaganum, sem allt frá miðri síðustu öld hafði tilheyrt Úkraínu og brot á alþjóðalögum. Í þeim átökum sem hófust 2014 hafa um 14-15.000 manns fallið og er þeim alls ekki lokið. Innlimum Krím hefur reynst Rússum dýr, efnahagslega séð. Friðarsamningar sem skrifað var undir í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands 2015 halda ekki.
Heldur er það svo að Vladimír Pútín hefur undanfarnar vikur verið í mögnuðu vopnaskaki og leikur sér með friðinn í Evrópu við landamæri Úkraínu, með hjálp síðasta einræðisherra Evrópu og „leppsins“ í Minsk, Alexander Lúkasjénkó, sem sjálfur hefur kúgað þjóð sína með harðri hendi í um aldarfjórðung. Talið er að allt að 120-150.000 rússneskri hermenn við landamæri Úkraínu, gráir fyrir járnum. Haldnar hafa verið „heræfingar“ og fleira slíkt.
Brjálæðislegt vopnakapphlaup er í gangi, í boði húsbóndans í Kreml, sem samkvæmt könnunum nýtur þverrandi fylgis, enda búinn að brjóta á bak aftur allt það sem kallast getur lýðræði og borgaralegt samfélag í Rússlandi. Laun hins almenna Rússa hafa lækkað, sem og ellilífeyrir.
Pútin fangelsar stjórnarandstæðinga og hefur meðal annars hefur bannað allskyns frjáls félagasamtök. Honum er ekki annt um mannréttindi eða borgaraleg réttindi, enda sjálfur afurð kerfis sem braut öll slík réttindi á bak aftur og kúgaði þegna sína grimmilega, nokkuð sem kostaði milljónir manna lífið, t.d. í þrælkunarbúðum.
Mikil mótmæli hafa verið í Rússlandi undanfarin ár; 2012, 2017/2018 og 2021, sérstaklega í kjölfar kosninga, en öll andstaða hefur verið brotin á bak aftur með hörku. Fáir á Vesturlöndum trúa á lögmæti kosninga í Rússlandi, enda stjórnar Pútín t.d. öllum helstu fjölmiðlum og hefur látið loka öðrum sem gagnrýna hann. Lög sem þrengja að fjölmiðlafrelsi voru sett árið 2014 og ýmsum aðilum hefur verið bannað að bjóða fram á valdatíð Pútíns.
Blaðamenn og stjórnarandstæðingar myrtir
Hinum megin landamæranna, í Úkraínu er fólk ekki hneppt í fangelsi fyrir að mótmæla valdhöfum og þar eru stjórnarandstæðingar ekki myrtir eins og í Rússlandi, blaðamenn og fleiri sem láta sér annt um lýðræði. Þekktustu dæmin eru blaðakonan Anna Politkovskaya (myrt 2006) og stjórnmálamaðurinn Boris Nemtsov, sem var myrtur árið 2015, skotinn til bana rétt fyrir utan Kreml.
Nú situr Alexei Navalny, helsti stjórnarandstæðingur Rússlands í fangelsi, en honum var sýnt banatilræði í ágúst 2020 og hefur verið ráðist á hann ítrekað og hann handtekinn mörgum sinnum eftir að hann hóf að mótmæla Pútín.
Mikil spilling í báðum löndum
Úkraína er verulega spillt (rétt eins og Rússland) og þar eru mörg vandamál. Rússland er reyndar neðar á alþjóðlegum lista yfir spillingu, sem er verra. Þau vandamál eru líka arfleifð kommúnismans, sem er jú í raun spillt stjórnarform, miðað við hvernig því er beitt. Spillingu er ekki eytt yfir nótt. En Vladimír Pútín ræður ekki yfir íbúum Úkraínu, þeir ráða sér sjálfir. Völd hans takmarkast við landamæri Rússlands. Það virðist hann hins vegar eiga erfitt með að sætta sig við. Um 30 árum eftir að Sovétríkin og Berlínarmúrinn féllu. Kallast það ekki langrækni, jafnvel afneitun?
Þar að auki lítur hann ekki á Úkraínu sem sjálfstæða þjóð, það kemur berlega í ljós í grein sem Pútín skrifaði í fyrrasumar, en þar segir hann m.a. að Úkraína sem land sé afurð Sovétsins og að á tímum Bolsévíka (Lenin og félaga) hafi Rússland í raun verið „rænt“ því svæði sem nú er Úkraína. En á þá bara að breyta því með hervaldi og ofbeldi? Pútín er því sár og fúll yfir atburðum sem gerðust fyrir um 100 árum síðan. Hann segir að saman geti Rússar og Úkraínumenn orðið sterkir og náð árangri, því að „við erum ein þjóð“ segir í greininni.
Það hefur yfirleitt ekki tekist mjög vel að reyna að sameina lönd með hervaldi og eða halda þjóðum saman með valdi og kúgun. Fyrir því eru mörg dæmi og flest ljót. Þó er það gert enn í nokkrum ríkjum, Kína og N-Kórea kannski verstu dæmin.
Er ástæða til að ætla það að Pútín gangi með þá grillu í höfðinu að honum takist að sameina Rússland og Úkraínu með valdi? Vantar þá ekki einhverjar veruleikatengingu? Slíkt myndi að minnsta kosti kosta nýtt stríð í Evópu og gífurlegt mannfall, því ekki er annað að sjá en að flestir íbúar Úkraínu séu tilbúnir að verja föðurland sitt, rétt eins og Rússar gerðu þegar Hitler stakk þá í bakið. Hvers vegna reynir Pútín ekki að sýna velvild og samvinnu í stað ógnar og sundurlyndis? Og fyrir utan að hann telur þjóðirnar vera þær sömu, hvers vegna þá að ráðast á bróðurþjóð sína? Er ekki eitthvað bogið við það?
Vilja sterkari tengsl við Evrópu, ekki Rússland
Í könnun meðal íbúa Úkraínu í mars í fyrra kom fram að um helmingur þeirra vill tengjast bæði Evrópu/ESB og NATO en aðeins um 20% vill nánari tengsl við efnhagssamband sem kallast á ensku „Eurasian Economic Community“ en þar eru Rússland og Hvíta-Rússland fyrirferðamestu ríkin. Í þessari könnun voru íbúar Krímskaga, Luhansk og Donetsk ekki spurðir álits, enda í raun búnir að segja skilið við Úkraínu.
Herforingi andmælir Pútín
Pútin er nánast einráður í Rússlandi og hefur því ekkert það sem kallast gæti lýðræðislegt aðhald, hvorki frá þinginu, Dúmunni, sem hann hefur í vasanum, og eða fjölmiðlum. Það sem vakti hinsvegar athygli fyrir skömmu var bréf fyrrum herhöfðingja, þar sem hann varar Pútin eindregið við að hefja stríð. Hann benti á að framferði Pútíns væri nánast glæpsamlegt og stríð við Úkraínu myndi gerða þjóðirnar að ævarandi andstæðingum og kosta miklar blóðsúthellingar. Þá sagði hann einnig að aðgerðir Pútíns nú væru til að draga athyglina frá vandamálum heima fyrir. Frá þessu var sagt í vestrænum fjölmiðlum.
Vladímír Pútín er ekki vinsæll í Úkraínu og varla mun brölt hans og „kraftasýning“ á landamærunum auka þær vinsældir. Hann er eins og gaur sem er að reyna við píu, en hún vill ekki sjá hann og því fer hann að hnykla vöðvana og beita valdi. Gamaldags og kann ekki góðri lukku að stýra. En að hræra upp hræðslu og ótta, það kann Pútín.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.