Frá því að Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, opinberaði slæma fjárhagsstöðu sína og fjölskyldu sinnar, hafa margar spurningar vaknað hjá almenningi sem er ósvarað enn.
Illugi upplýsti sjálfur í viðtali við RÚV í apríl að hann hefði selt íbúð sína við Ránargötu til stjórnarformanns fyrirtækisins Orku Energy, og leigir hann nú íbúðina af honum, þar sem hann hefur ekki efni á því að kaupa það, samkvæmt hans eigin frásögn. Kaupin voru upp á 53 milljónir króna. Er það slæm fjárhagsstaða hans sjálfs og fjölskyldunnar, sem gerir það að verkum, og svona er um hnútana búið.
Illugi neitar því, að hann sé undir hæl fjárfestisins í Orku Energy, þrátt fyrir þessa stöðu, en sé mið tekið af fyrirspurnum fjölmiðla um þetta mál, þá eru ekki öll kurl komin til grafar enn.
Það sem er eðlilegt er að velta fyrir sér, í þessu samhengi, er staða ráðherrans, óháð stefnumálum og málflutningi. Þegar fjárhagslegt sjálfstæði þingmanna og ráðherra er tvísýnt og veikburða, er mikilvægt að það sé uppi á borðum strax og sú staða skapast. Þannig var það ekki í tilfelli Illuga. Hann upplýsti ekki um málið strax.
Almenningur verður að geta treyst því að fjárhagsleg staða þingmanna og ráðherra sé góð, og sjálfstæði þeirra sé tryggt. Illugi hefur upplýst um að hann var í það slæmri stöðu, að hann missti húsið, eins og áður segir. Í ljósi þess að hann er að störfum fyrir almenning, meðal annars við að úthluta fé úr sameiginlegum sjóðum, þá er eðlilegt og réttlátt að spyrja hvort hann ráði við það verkefni, ef hann getur ekki stýrt eigin persónulegu fjármálum.
Raunar er Illugi ekki eini ráðherrann sem hefur fjallað opinberlega um slæma fjárhagsstöðu sína, því það hefur Eygló Harðardóttir, ráðherra félags- og velferðarmála, líka gert. Í pistli sem hún skrifaði í júní nefndi hún sérstaklega að hún hafi lengi ekkert kunnað með peninga að fara. „Lán varð nánast að lukku í mínum huga. Ef það var eitthvað sem mig langaði í, þá rölti ég í næstu lánastofnun og viðkunnanlegi þjónustufulltrúinn bjargaði því fyrir mig. Yfirdráttarlán brúaði bilið þar til LÍN borgaði út námslánin, bankalán dekkaði það sem upp á vantaði, 90% verðtryggt íbúðalán hjálpaði til við fyrstu kaupin og 100% gengistryggður bílasamningur reddaði bílnum. Í fæstum tilvikum átti ég eitthvað sparifé upp í fjárfestingar mínar, hvort sem um var að ræða menntunina, bílinn eða íbúðakaupin,“ sagði Eygló meðal annars í pistli, með fyrirsögninni Er lán lukka? Í honum varar hún við of mikilli skuldsetningu.
Eygló í pontu.
Eins og áður segir, þá verður almenningur að geta treyst því að ráðherrar og þingmenn, sem sinna því mikilvæga hlutverki að móta regluverk samfélagsins með lögum og framkvæma vilja Alþingis með fjárúthlutunum úr ríkissjóði, séu fjárhagslega sjálfstæðir og helst einnig með lágmarks skynsemi þegar kemur að persónulegum fjármálum. Því það er ekki hægt að gera kröfu um að stjórnmálamenn sýni mikla ábyrgð í fjárhagsstjórn fyrir almenning, ef þeir ráða ekki við þau verkefni fyrir þá sjálfa á sama tíma.