Öll upplýst umræða um skattkerfi okkar Íslendinga er af hinu góða. Skattar og gjöld skila árlega um 7-800 milljörðum í ríkiskassann. Því er mikilvægt að almenningur sé meðvitaður um eðli og tilgang þeirra fjölmörgu ólíku skatta sem lagðir eru á einstaklinga og fyrirtæki til fjármögnunar samneyslunnar.
Í grein í Viðskiptablaðinu í gær var fjallað sérstaklega um jöfnunarhlutverk tekjuskattkerfisins, þ.e. tekjuskatta einstaklinga til ríkissjóðs. Tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins á sér einkum stað með þrepaskiptum tekjuskatti, persónuafslætti og tekjutengdum bótum. Í þessu samhengi voru birtar upplýsingar um hlutdeild hverrar tekjutíundar í nettótekjum ríkissjóðs af tekjuskatti, þ.e.a.s. þeim tekjum sem eftir standa hjá ríkissjóði þegar tekið hefur verið tillit til persónuafsláttar, vaxtabóta og barnabóta.
Í aðsendri grein í Kjarnanum talar Stefán Ólafsson um að dregin hafi verið upp „mjög röng mynd af skattbyrði tekjuhópa” og telur að gleymst hafi að ræða útsvar og neysluskatta. Skattbyrði einstaklinga var þó einfaldlega ekki til umfjöllunar í greininni heldur tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti. Útsvar og neysluskattar þjóna ekki þessu tekjujöfnunarhlutverki, nema að mjög takmörkuðu leyti. Heildarmyndin breytist ekki þó útsvarsgreiðslum sé bætt við – þá greiða efstu fimm tíundirnar 89% af tekjuskatti og útsvari til hins opinbera, að teknu tilliti til vaxta- og barnabóta. Einnig þarf að hafa í huga að ríkissjóður ábyrgist greiðslu útsvars einstaklinga til sveitarfélaga. Ef staðgreiðsla a.t.t. til persónuafsláttar dugir ekki fyrir útsvari greiðir ríkið mismuninn, eins og tekið var tillit til í okkar greiningu.
Því er ekki að neita að hönnun tekjuskattskerfisins á Íslandi er mjög tekjujafnandi. Við tökum þó auðvitað undir þau sjónarmið að skattbyrði á Íslandi sé mikil og tímabært að draga úr henni svo meira megi verða eftir í vasa launafólks.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.