Rammaáætlun – innihald 3. áfanga

Snæbjörn Guðmundsson fjallar um rammaáætlun en þessi er sú síðasta í röð greina á Kjarnanum sem unnar eru upp úr umsögn greinarhöfundar við 3. áfanga áætlunarinnar, sem liggur nú fyrir Alþingi.

Auglýsing

Ræðum tillögur verkefnastjórnar 3. áfanga rammaáætlunar. Fyrst vill greinarhöfundur taka það skýrt fram að það er ekki efamál að verkefnisstjórn og faghópar hafa unnið sína yfirgripsmiklu vinnu af heilindum, vandvirkni og fagmennsku. Hins vegar er á sama tíma ljóst að gögn eru því miður víða af afar skornum skammti og margir kostir hafa farið inn í nýtingarflokk rammaáætlunar þó síðar hafi komið í ljós að gögn vantaði upp á raunverulegt mat. Auk þess er, eins og greinarhöfundur hefur vikið að í fyrri greinum sínum um rammaáætlun, verulegur halli á vernd virkjanakosta og krafan um að allavega einhverjir kostir verði settir í nýtingarflokk mun valda óbætanlegum skaða á náttúrugersemum. Svo verður að lokum að horfa til þess að hugmyndir um náttúruvernd breytast hratt á okkar tímum og svæði sem þótti ef til vill vænlegt að skoða með virkjun í huga, eru nú mörg hver löngu orðin þekkt fyrir náttúrufegurð og aðdráttarafl og engum myndi detta í hug að virkja þar núna.

Eftirfarandi er yfirlit yfir virkjanakost í nýtingarflokki í 3. áfanga rammaáætlunar, raðað eftir landshlutum.

Reykjanes

 • Stóra Sandvík – 50 MW
 • Eldvörp – 50 MW

Eldvörp Mynd: Ellert Grétarsson

Vestast á Reykjanesskaganum eru tvær jarðhitavirkjanir reknar af HS orku, Svartsengi (þar sem Bláa lónið er) og Reykjanesvirkjun, yst á Reykjanestánni. Í rammaáætlun er nú lagt til að bæta tveimur vinnslusvæðum við þessar virkjanir. Þau eru bæði ómetanleg þegar kemur að jarðminjum. Rannsóknarsvæði á svæðinu sem kennt er við Stóru Sandvík mun ná yfir sjálfa víkina, gígaröðina Stampa og einn frægasta ferðamannastað Suðvesturlands, „Brúna milli heimsálfa“. Það þarf ekki að hugsa lengi um þau hörmungaráhrif sem virkjun á þessu svæði myndi hafa á ferðamennsku á svæðinu enda yrði fegurð þess fótum troðin með virkjun. Eldvörp eru af svipuðum meiði, en því miður eru þau lengra frá augum almennings og ferðamanna, og því hafa þau ekki fengið þá athygli sem þau eiga skilið. Gígaröðin Eldvörp er glæný á mælikvarða jarðsögunnar, myndaðist í eldgosi á svipuðum tíma og Snorri Sturluson vann við ritun bóka sinna. Eldvörp eru með fallegustu gígaröðum landsins, lítið snortin og í örskotsfjarlægð frá þéttbýlisstöðum Suðvesturhornsins. Þau eru ómetanleg, og í ofanálag er óvíst hvort þau myndi yfir höfuð sérstakan jarðhitageymi óháð öðrum virkjunum svæðisins. Ef svo er ekki munu þau ekki nýtast sem skyldi þar sem uppdæling úr Eldvörpum myndi einfaldlega koma niður á þeim svæðum sem þegar hafa verið virkjuð. Hér er mikil óvissa sem ekki virðist eiga að líta til, það er nefnilega allverulegur möguleiki á að eyðilegging Eldvarpa yrði algjörlega til einskis þar sem engin fengist úr þeim orka.

Auglýsing

Krýsuvík

 • Austurengjar – 100 MW
 • Sandfell – 100 MW
 • Sveifluháls – 100 MW

Seltún Mynd; Árni Tryggvason

Krýsuvíkursvæðið nær yfir einar mest nýttu og fallegustu útivistarperlur í nágrenni höfuðborgarinnar. Saga svæðisins, bæði jarðsaga og mannvist, er afar merkileg. Hraunflákar svæðisins eru glænýir, mikið til myndaðir eftir landnám, og mannvistarsagan mikil með bæði aldafornum minjum og minjum um brennisteinsnám síðari alda. Útivistar- og ferðamannastaðir eru fjölmargir, svo sem Seltún sunnan Kleifarvatns, Keilir, Djúpavatn og Vigdísarvellir. Til að nálgast hina dreifðu orku í Krýsuvíkurkerfinu þyrfti að útbúa stök virkjanasvæði við alla helstu jarðhitakjarna svæðisins og yrði viðkvæmt svæðið ekki svipur hjá sjón eftir slíkar framkvæmdir, augljóst er að virði þessara svæða ósnortinna mun aukast hratt með árunum. Hér ríkir því það sama og utar á Reykjanesskaganum, það væri glapræði að troða jarðhitavirkjunum niður á þetta svæði. Samt er það gert í rammaáætlun. Reyndar eru Brennisteinsfjöll eina háhitasvæði Reykjanesskagans sem ekki er í nýtingarflokki. Allt hitt virðist mega fara.

Hengilssvæðið

 • Hverahlíð II – 90 MW
 • Þverárdalur – 90 MW
 • Meitillinn – 45 MW

Hengilssvæðið hefur ákveðna sérstöðu þegar kemur að nýtingu. Núverandi virkjanir, á Nesjavöllum og Hellisheiði, útvega stórum hluta höfuðborgarbúa heitt vatn og eru þannig eðlilegur hluti af auðlindanýtingu landsins, en eru alls ekki án fórna. Uppbygging þessara virkjana var þó æði ólík, þar sem Nesjavallavirkjun var byggð upp í sex áföngum yfir um 15 ára tímabil en Hellisheiðarvirkjun var byggð allt of hratt upp, lítil reynsla fékkst á viðbrögð jarðhitageymsins við ágengri nýtingunni og afl svæðisins hefur fallið. Nú hefur Hverahlíð verið tengd við Hellisheiðavirkjun til að minnka álagið á jarðhitasvæðið við virkjunina. Hverahlíð II, sem er í nýtingarflokki 3. áfanga rammaáætlunar, er stækkun á því vinnslusvæði og í því samhengi eðlilegur kostur enda svæðið þegar nýtt.

Innstidalur Mynd: Ellert Grétarsson

Hinir virkjunarkostirnir í nýtingarflokki í Henglinum liggja hins vegar annars staðar í Hengilseldstöðinni, á miklu ósnortnari svæðum. Meitillinn liggur austan við Þrengslaveg þar sem lítið sést til mannvirkja en Þverárdalur er nánast algjörlega ósnortinn, langt inni í kjarna Hengilsins, líkt og Innstidalur sem af óskiljanlegum ástæðum er enn í biðflokki. Það er tóm þvæla að ætla að virkja á þessum svæðum, enda Hengillinn afar mikilvægur sem útivistarsvæði höfuðborgarbúa og Hvergerðinga og svæðin dýrmætari eftir því sem þau liggja dýpra í Henglinum. Sem betur fer virðist sem stendur nokkuð lítil hætta á því að jarðhiti í kjarna Hengilsins verði nýttur í næstu framtíð, þótt svæðið sé í nýtingarflokki, enda hafa forvígismenn Orkuveitunnar alls ekki sýnt því áhuga, og vonandi verður það þannig um ókomna framtíð. Langbest færi þó á því að Hengilssvæðið yrði að fullu varið í verndarflokki fyrir frekari virkjunarnýtingu.

Vestfirðir

 • Austurgilsvirkjun – 35 MW
 • Hvalárvirkjun – 55

Virkjanamöguleikar á Vestfjörðum hafa mikið verið ræddir undanfarin ár. Tvö víðfeðm hálendissvæði liggja þar, Gláma og Ófeigsfjarðarheiði. Virkjanakostirnir tveir í nýtingarflokki á Vestfjörðum eru báðir á síðarnefnda svæðinu. Ófeigsfjarðarheiði er eitt samfelldasta og mesta óbyggða víðerni utan miðhálendisins og ákaflega verðmætt sem slíkt. Náttúran þar er sérstök og svæðið ákaflega fáfarið, enda litlar byggðir við það. Virkjanirnar tvær myndu báðar hafa óbætanleg áhrif á þessi víðerni, Hvalá ein myndi skerða víðernin um meira en 40%.

Hvalárfoss Mynd: Snæbjörn Guðmundsson

Í flokkun faghópa rammaáætlunar var hins vega mat á víðernum með tiltölulega lágt vægi, jafnvel þótt víðerni séu orðin afar fágæt í heiminum, og þá sérstaklega í Evrópu. Þar að auki byggði flokkun Hvalárvirkjunar á takmörkuðum gögnum og hefur það komið bersýnilega í ljós á síðustu árum með betri könnun virkjanasvæðisins. Þannig kom í ljós sumarið 2019 að merkir steingervingar eru á virkjanasvæðinu, en þeir njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Þeir höfðu ekki verið rannsakaðir áður eða vitneskja um þá verið opinberuð. Slík heljarstór gloppa í gögnum vekur ágengar spurningar um hvort slíkt eigi ef til vill um aðra virkjanakosti í nýtingarflokki.

Norðurland vestra

 • Virkjanir á veituleið Blönduvirkjunar – 31 MW
 • Blöndulundur, vindorkuver – 100 MW

Hér eru kostir sem vert er að kanna vel í ljósi svæðisins sem þeir liggja á og er þegar raskað. Betri nýting á falli Blöndu ofan núverandi Blönduvirkjunar mun líklegast hafa lítil umhverfisáhrif umfram þau sem þegar hafa komið fram við fyrri virkjun. Það er því vænlegur kostur til framtíðar, þótt lítill sé miðað við risavirkjanir annars staðar á landinu. Aðrir álíka kostir eru einmitt til umfjöllunar hjá verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar, þar sem stækkun virkjana á Þjórsár-Tungnaársvæðinu eru metnir. Með betri nýtingu núverandi virkjana má bregðast við mögulegum orkuskorti framtíðar á viðunandi hátt. Blöndulundur myndi einnig geta komið til greina sem vindorkuvirkjunarsvæði með tiltölulega lítil áhrif á víðerni og ferðamennsku, þótt áhrif á fuglalíf gætu orðið mikil. Áhrifin yrðu þó almennt minni borið saman við mörg önnur vindorkusvæði sem komið hafa upp í umræðu undanfarinna ára eins og t.d. Búrfellslund, vindorkuhugmyndir við botn Breiðafjarðar og víðar.

Norðurland eystra

 • Bjarnarflag – 90 MW
 • Kröfluvirkjun, stækkun – 150 MW

Hér eru tvær hugmyndir í næsta nágrenni Mývatns. Kröfluvirkjun er þegar í rekstri og stækkun hennar, ef hún er möguleg yfir höfuð, mun hugsanlega ekki hafa mjög mikil áhrif á umhverfið umfram þau sem nú þegar hafa komið fram vegna núverandi virkjunar. Stækkun ætti þó að vera mjög hófleg, og uppsett afl stækkunar er að öllum líkindum allt of mikið miðað við nálægð við byggð og mikilvæg ferðamannasvæði.

Mývatn Mynd: Villy Fink Isaksen

Bjarnarflagsvirkjun er á hinn bóginn ákaflega viðsjárverður og í raun óskiljanlegur virkjunarkostur, í mikilli nálægð við íbúabyggð, mikilfengleg ferðamannasvæði og sjálft Mývatn sem er óumdeilanlega eitt allramerkasta stöðuvatn heims vegna lífríkis síns og umgjarðar. Allar stórar framkvæmdir í nálægð við vatnið eru áhættusamar en virkjun í Bjarnarflagi væri algjör fásinna. Algjörlega óvíst er hvaða áhrif virkjunin myndi hafa á grunnvatnsstrauma svæðisins, Mývatn sjálft og ofurviðkvæmt lífríki þess. Þar að auki væri von á loft- og grunnvatnsmengun með mögulega hörmulegum afleiðingum fyrir íbúa og ferðamenn á svæðinu. Bjarnarflagsvirkjun er ótvírætt einn af verstu virkjanakostum landsins en einhverra hluta vegna virðist þess ekki hafa gætt í mati fyrri verkefnastjórna. Nýtingarflokkun hennar er óðs manns æði.

Vatnasvið Þjórsár-Tungnaár-Köldukvíslar:

 • Skrokkölduvirkjun, Köldukvísl – 45 MW
 • Hvammsvirkjun í Þjórsá – 93 MW
 • Holtavirkjun í Þjórsá – 57 MW
 • Urriðafossvirkjun í Þjórsá – 140 MW

Á vatnasviði Þjórsár eru fjórir virkjanakostir í nýtingarflokki 3. áfanga rammaáætlunar. Skrokkölduvirkjun er mjög ofarlega í vatnasviði árinnar, milli Hágöngulóns og Kvíslaveitu, en hinar þrjár virkjanirnar eru fyrirhugaðar í neðri hluta Þjórsár milli Búrfellsvirkjunar og Þjórsárósa.

Skrokkalda

Eyrarrósargil Mynd: Ingibjörg Eiríksdóttir

Skrokkölduvirkjun er fyrirhuguð við hlið Sprengisandsleiðar, einnar fjölförnustu hálendisleiðar landsins. Hún er réttlætt með því að virkjunin sjálf og aðrennslisgöng verði neðanjarðar og því ósýnileg ferðalöngum um hálendið. Þeirri hugmynd hefur einnig verið haldið á lofti að Skrokkölduvirkjun sé fyrirhuguð á þegar röskuðu svæði. Það er hins vegar miklum ofsögum sagt að svæðið sé nú þegar raskað, uppistöðulón Landsvirkjunar, Hágöngulón og Kvíslavatn, eru víðs fjarri og umhverfið við sjálfa Skrokköldu er ákaflega eyðilegt, engin mannvirki sjáanleg en náttúrfegurð mikil og óbyggðaupplifun alger. Virkjunarhús verða vissulega neðanjarðar en hlaðhús og spennar, gangamunnar, jöfnunarþró, slóðar og fleira á yfirborði og mest allt sýnilegt af Sprengisandsleið, sem verður þess utan styrkt og byggð upp sunnan virkjunar. Tilvist þessara mannvirkja mun í hugum margra sem dragast að hálendinu eyðileggja óbyggðaupplifunina, bæði sjónrænt sem og hugrænt. Þótt hlífa eigi náttúruperlum eins og Eyrarrósargili, sem er í næsta nágrenni, er mjög hætt við að virkjunin muni skaða svæðið endanlega í hugum fólks, manngera það og þrengja þannig enn frekar að víðernum hálendisins. Þá verður samhliða virkjuninni endanlega gert út af við eitt allraþekktasta örnefni hálendisins, Köldukvísl, sem var gert ódauðleg skil í Áföngum, kvæði Jóns Helgasonar. Með Skrokköldu hættir Kaldakvísl, eitt allraþekktast hálendisfljót landsins, í raun að vera til þar sem hún verður fullvirkjuð og rennsli í farvegi hennar nánast hvergi meira en örlítið. Í ljósi alls þessa verður að tryggja áframhaldandi óbyggðaupplifun á þessu svæði og koma í veg fyrir að Landsvirkjun eigni sér það sem hluta af virkjanasvæðum sínum, sem fyrirtækið rær öllum árum að þessi misseri.

Neðri hluti Þjórsár

Virkjanir í neðri hluta Þjórsár, Hvamms-, Holta- og Urriðafossvirkjanir, eru annað magnað og dýrmætt svæði, sem Landsvirkjun og fleiri hafa reynt að klína á stimplinum „raskað“. Sannleikurinn er sá að farvegur Þjórsár í byggð neðan Búrfells, sem er 70 km að lengd eða þriðjungur af heildarlengd Þjórsár, er nánast algjörlega óraskaður, og mikilvægi árinnar þar hvað varðar náttúruumgjörð og byggðasögu mikið að sama skapi. Virkjanir ofar í ánni hafa engin áhrif á Þjórsá í byggð utan þess að jafna rennsli fjótsins yfir árið og draga úr framburði hennar ofan af hálendinu. Að öðru leyti er farvegur fljótsins fullkomlega óraskaður utan eins laxastiga við Búða.

Búði Mynd: Matthías Ásgeirsson

Mjög hætt er við að virkjanir á þessu svæði muni skaða eða eyðileggja fiskstofna árinnar, bæði lax og urriða sem þrífast í henni og þverám. Algjörlega óvíst er hvort mótvægisaðgerðir hönnuða með seiðafleytum muni koma að gagni, auk þess sem mikilvæg hrygningar- og búsvæði munu fara undir miðlunarlón. Virkjanirnar munu rústa stórkostlegri umgjörð Þjórsár í byggð sem er án efa einn stórbrotnasti farvegur jökulfljóts í blómlegu landbúnaðarhéraði nokkurs staðar á jörðu. Áin rennur um Þjórsárhraun, mesta hraunflæmi sem runnið hefur á jörðu frá síðasta jökulskeiði ísaldar, þrír af mestu fossum landsins verða eyðilagðir, Urriðafoss, Búði og Hestafoss, auk flúða við Ölmóðsey ofan Viðeyjar sem er sjálf friðlýst vegna sérstæðs lífríkis. Viðey hefur notið náttúrulegrar verndar af Þjórsá sjálfri og er því nánast ósnortin af mönnum og dýrum. Náttúruleg vernd eyjunnar, sem hýsir yfir 70 plöntutegundir, þar af tvær tegundir sem teljast sjaldgæfar á landsvísu, mun verða að engu þar sem Hvammsvirkjun mun stöðva rennsli Þjórsár við eyjuna og opna hana fyrir ágangi manna og dýra.

Viðey Mynd: Anna Sigríður Valdimarsdóttir

Virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár munu skerða varanlega lífsgæði íbúa, ferðamanna og sumarbústaðaeigenda í nágrenni virkjunar, með vatnsskerðingu í farvegi, mögulegu leirfoki úr lónstæðum og ásýnd farvegarins, stíflum og jarðvegshaugum. Loks hafa nú virkjanahugmyndirnar nú þegar skaðað mjög illa samfélagið við Þjórsá sem klofnað hefur vegna ágangs Landsvirkjunar, eða eins og segir í umsögn Ungsólar við rammaáætlun frá því í apríl 2017:

„Samfélagið hefur í áraraðir fundið fyrir áhrifum þess að vera undir járnhæl óvissu sem fylgir því að hafa þetta mál hangandi yfir sér. Mál af þessum toga valda miklu álagi á jafn lítið samfélag eins og Skeiða- og Gnúpverjahreppur er. Við höfum nú þegar fundið fyrir þessum áhrifum eftir áratuga þóf um virkjanir í Þjórsá.“

Þessi klofningur í sveitinni er því miður alls ekki einsdæmi en hann hefur verið mikið í umræðu vegna virkjana eins og Hvalár-, Svartár- og Einbúavirkjunar. Virkjanaframkvæmdir þar eru í öllum tilvikum reknar áfram af einkaaðilum, en í Þjórsá hefur Landsvirkjun notið krafta sinna sem stærsta orkufyrirtæki landsins og sett gríðarlega og óvægna pressu á samfélagið.

Niðurstaða

Ofangreindir kostir í nýtingarflokki 3. áfanga rammaáætlunar eru með heildaruppsett afl upp á rúm 1400 MW, og orkugetu upp á ríflega 10.000 GWst. Núverandi raforkuframleiðsla á Íslandi er um 20.000 GWst svo með virkjunum í nýtingarflokki væri verið að auka raforkuframleiðslu á Íslandi um meira en helming. Í ljósi núverandi framleiðslu, sem er þegar gríðarlega mikil, er sú hugmynd í besta falli stórfurðuleg að ætla að bæta svo mikilli raforkuframleiðslu við núverandi kerfi.

Flestir þessara kosta munu hafa miklar fórnir í för með sér fyrir náttúru, umhverfi og samfélög víða um land. Það verður að hafa vel í huga í allri umfjöllun um rammaáætlun. Nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd, sem og allir aðrir þingmenn sem koma að umfjöllun og atkvæðagreiðslum um þingsályktunartillöguna, þurfa að gera alvarlega upp við sig hvar þeir vilja standa gagnvart kynslóðum framtíðar.

Er náttúrgæðum, litlum samfélögum og hagsmunum komandi kynslóða virkilega fórnandi fyrir enn meiri og ágengari raforkuframleiðslu langmestu raforkuþjóðar heims?

Höf­undur er jarð­fræð­ing­ur, rit­höf­undur og stjórn­ar­maður í Hinu íslenska nátt­úru­fræði­fé­lagi og Hag­þenki.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar