Eitt gagnaver enn er fyrihugað og nú á Akureyri takk fyrir, skrifað undir 5. apríl af bæjarstjóra og fulltúa atNorth, hvað skyldi eiga að gera þarna? Kannski grafa eftir rafmynt og hvað skyldi fara mikil orka í þetta gagnaver? Kannski eins og ein Villinganesvirkjun líkt og á Blönduósi. Fram kom í fréttinni að fyrirtækið leitar ennfremur að staðsetningu fyrir stórt gagnaver á Norðurlöndum sem mun nýta um 50MW af raforku (Viðsk.bl. 5.apr. 2022). Ásókn gagnavera er mikil. Til upplýsingar má nefna að „Orkuþörf rafmyntarinnar Bitcoin nemur rúmlega 120 teravattstundum á ársgrundvelli samkvæmt greiningu vísindamanna við Cambridge háskóla. Til að setja þessa orkunotkun í samhengi, þá nam raforkunotkun á Íslandi árið 2019 19,5 teravattstundum samkvæmt tölum frá Orkustofnun.“ Á meðan notum við olíu til að vinna loðnuafurðir og að hluta til fyrir eðlilega notkun rafmagns í vestfirskum byggðum.
Orkuþörf rafmyntarinnar er óseðjandi. Um gagn og gangsleysi rafmyntar má lesa í greinargóðum pistli Gylfa Magnússonar á Vísindavefnun: „Hvernig virkar Bitcoin og aðrar rafmyntir?“
Nú þegar rammaáætlun 3. áf., „Áætlun um vernd og nýtingu landsvæða,“ er komin inn á borð þingmanna, hefjast deilur um niðurstöður hennar enn á ný. Margir litu þannig á, til og með undirrituð, að rammaáætlun og vinna við hana væri sáttargjörð í virkjunarmálum og ætluð til að setja niður deilur í þessu erfiða máli sem stórvirkjanastefnan er. Kallaðir voru að borðinu okkar bestu vísindamenn og ekki bara fáir heldur margir: „Alls hafa fjórir faghópar með samtals 27 sérfræðingum starfað með verkefnisstjórn 3. áfanga. Ótaldir eru þá sérfræðingar á ýmsum sviðum sem hafa lagt verkefnisstjórninni og faghópunum lið í einstökum verkum.“ Gísli Már Gíslason telur að öllum sem til þekkja megi ljóst vera að aðferðafræði vísindamanna standist alla skoðun og niðurstöður fengnar með viðurkenndum vísindalegum aðferðum (GMG MBL. 18. sept. 2021). Hverjir eru þeir sem telja sig vita betur, telja sig geta breytt þessum niðurstöðum, slitið þessari sáttargjörð?
Ef rammaáætlun 3. áfangi er úrelt plagg eins og sumir hafa haft á orði, má álíta að hugsunarháttur þeirra sem hrópa hæst á græna orku fengna með vatnsafli gæti verið úreltur. Jafnan er talað um orkuskipti með ákveðnum greini, sér í lagi af virkjunarsinnum. Því má spyrja hvort ekki sé betra að krefjast þess af stjórnmálamönnum að þeir tali hreint út og viðurkenni hvers vegna þeim sé umhugað um að virkja, það er auðvitað til að auka lífsgæðin og auka neyslu, eins umhverfisvænt og það nú hljómar. Sú spurning blasir hins vegar við: Er réttlætanlegt að ráðast í stórar virkjanir með uppistöðulónum, raflínum og óheyrilegu jarðraski, er vit í að rífa landið okkar á hol til þess að við getum aukið neyslu af einhverju tagi?
Allt er þetta spurning um arð og ágóða en jafnframt spurning um hugarfar. Þegar farið er upp á heiðar og fjöll til að rannsaka hvernig megi framleiða meiri orku til að byggja fleiri stóriðjuver eða setja á stofn orkufrekan iðnað eins og gagnaver þá er enginn vandi að finna út með mælistikuna eina að vopni hvar sé hagkvæmast og best að reisa stíflur, búa til lón og byggja mannvirki því viðvíkjandi.
Ef hugarfarið er hins vegar hliðhollt náttúru þessa sama lands og virðing fólks er meiri fyrir lífríkinu, jarðminjum, menningarminjum, fossum, flúðum, lyngheiðum og flám en því að mata erlend stórfyrirtæki á ódýrri orku þá fæst allt önnur útkoma og vandinn verður meiri. Þá er tekið tillit til viðhorfs fólks til arfleifðar og náttúru, vitundar um að við höfum þetta land aðeins að láni og að okkur beri skylda til að skila því sem best til komandi kynslóða. Eyðilegging náttúruperla eins og Héraðsvatna, Skjálfandafljóts eða Hvítár Árn. og vatnasviðs þeirra er þá óhugsandi og flokkast undir beinan hernað gegn landinu. Segja má að hernaðaráætlanir nái hámarki í orkuskýrslu umhverfisráðherra sem út kom í mars og kynnti var svo eftirminnilega, 18-33 Blönduvirkjanir á næstu 18 árum (Guðmundur H Guðmundsson 7. apr. 2022) .
Frá alda öðli hafa Héraðsvötn flæmst um eylendið í Skagafirði, breytt og byggt upp, skipt um farvegi ótal sinnum og farið sínu fram án afskipta manna. Þegar búseta krafðist var reynt að stemma stigu við ágangi Vatnanna, með görðum og síðar þegar brúargerð hófst í Skagafirði. Oft hafa slíkar aðgerðir haft lítið að segja, Vötnin fara sínu fram. Þau renna síbreytilega áfram og sjá dyggilega um að flæðiengjar eða kílar, eru á sínum stað, færa þangað áburð og viðhalda því lífríki sem þar á heima. Eylendið er á náttúruminjaskrá (nr 418) líkt og Orravatnsrústir (nr 413) sem líka eru í hættu ef virkjað verður í Héraðsvötnum. Kílarnir (flæðiengi) eru víðáttumiklir og nánast óslitið flæmi allt frá Grundarstokk og út í sjó austanvatna í Skagafirði. Einhvern veginn finnst skrifara að hér stangist á verndun votlendis annars vegar og eyðing þess hins vegar.
Við eigum að hætta þessum hernaði gegn landinu okkar, landi sem okkur var trúað fyrir og við eigum að skila afkomendum okkar í sæmilegu standi. Okkur ber að halda fast í verndarflokk rammaáætlunar og frekar bæta í en hitt. Ég minnist orða Jóhanns oddvita á Silfrastöðum á fundi í Varmahlíð fyrir margt löngu. Er ekki allt í lagi að við skiljum eitthvað eftir fyrir komandi kynslóðir? spurði sá vísi maður, en þá var einmitt verið að ræða virkjanir í Héraðsvötnum. Viðstaddir stjórnmálamenn þögðu við.
Ýmis úrræði eru til önnur en að virkja viðkvæmar náttúruperlur eins og Héraðsvötn, Skjálfandafljót eða Hvítá Árn. (öll eru svæðin ennþá í verndarflokki). Innan fárra ára gætum við staðið og undrast hin forneskjulegu viðhorf dagsins í dag, þetta að vatnsaflsvirkjanir á Íslandi séu einu úrræði orkuvana mannkyns, svo er ekki.
Nefnum hér nokkur dæmi: Vindorka, sjávarföllin (ein slík færeysk virkjun lýsir upp hálfa Þórshöfn), sólarorka, kjarnasamruni (sem nú er á tilraunastigi), orkusparnaður, stöðvun á orkufrekum iðnaði (lesist gagnaver og álver), fullnýting orku sem til fellur í dag (í Kárahnjúkavirkjun „... nam framhjárennsli eða yfirfall úr miðlunarlóni virkjunarinnar 1,6 teravattsstund á síðasta ári. Alla jafna nemur framhjárennslið upp undir 1,3 teravattsstund á ári, en mest hefur það verið rúmar 2,6 teravattsstundir.“) Já, svona er þetta: „Sem dæmi þá myndi Skatastaðavirkjun C framleiða um eina Terawattstund á ári.“ Ég sting síðan upp á því að næst þegar álver hótar að loka eins og hefur gerst, þá verði því leyft að loka og orkan notuð í eitthvað betra.
Sífellt er gumað af því að við getum orðið „stórasta“ land í heimi í orkumálum, notað eingöngu græna orku o.s.frv. Við skulum þá gæta þess vel að verða ekki „stórasta“ land í heimi í eyðileggingu náttúruverðmæta.
Enn á ný skora ég á þingmenn að standa með náttúrunni, einkum þingmenn þeirra flokka sem hafa náttúruvernd sérstaklega á stefnuskrá sinni. Gangið varlega um landið okkar, virðið sáttargjörðina, ekki rýra verndarflokk Rammans, bætið frekar í verndina.
Höfundur er rithöfundur.