Það voru ánægjuleg tíðindi frá Noregi, nánar tiltekið frá höfuðborginni Osló, sem bárust í dag. Einkabílar verða bannaðir í miðborginni árið 2019 til þess að draga úr mengun. Þeir sem ferðast um borgina í almenningssamgöngum, samfloti, fótgangandi og hjólandi verða settir í forgang fram yfir einkabíla. Þetta kemur fram í stefnuyfirlýsingu nýs meirihluta borgarstjórnarinnar, en í fyrsta sinn eru Græningjar í meirihluta borgarstjórnar.
Þetta er umfangsmikil stefnubreyting, og ljóst að hún getur verið öðrum borgum og borgarsamfélögum fyrirmynd. Sérstaklega eru það svæðin sem hafa yfir sér bílaborgarbrag, eins og til dæmis Reykjavíkurborg og höfuðborgarsvæðið, sem þurfa að taka sig á.
Fyrst hægt er að marka stefnu sem þessa í Osló er vel hægt að gera það hjá Reykjavíkurborg. Ef slíkt yrði gert, yrði það mikilvægt framlag borgarinnar í samhengi þeirra miklu áskorana sem Ísland stendur frammi fyrir, en markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent fyrir árið 2030, miðað við árið 1990, hefur verið gert opinbert. Fimmtán ár er stuttur tími og grípa þarf tafarlaust til viðamikilla aðgerða.
Ljóst má vera að mikill þungi í þeim aðgerðum sem þarf að grípa til, þegar draga á úr mengun, verður að vera á höfuðborgarsvæðinu. Þar er flest fólk, mest umferð, mesta mengunin og mesta óhagræðið í daglegu lífi. Með skynsamlegum aðgerðum er hægt að ná miklum árangri. Þétting byggðar er eitt atriði, sem mikilvægt er að horfa til, en það þarf að ganga mun lengra og gera hlutina hraðar.
Aðför að einkabílnum - eins og það er stundum kallað þegar er verið að reyna að vinna gegn alltof mikilli bílaumferð - er skynsamleg. Gísli Marteinn Baldursson, sem sumir, ekki síst flokksbræður hans í Sjálfstæðisflokknum, gerðu grín að fyrir að setja þetta mál á oddinn í sinni framsýnu pólitík sem borgarfulltrúi, fyrir mörgum árum síðan, hafði rétt fyrir sér. Og nú er svo komið, að aðgerðir, sem miða að því að gera eina borgarsamfélagið á Íslandi heilsusamlegra og hagkvæmara, þola enga bið.
Óhagræðið og mengunin sem fylgir bílaborgarbragnum er ígildi skuldar sem hvílir á íbúum. Í tilfelli Reykjavíkurborgar og höfuðborgarsvæðisins þá eru skuldirnar háar. Og það er eins með þær og allar aðrar skuldir; það kemur alltaf að skuldadögum að lokum. Reykjavíkurborg ætti að taka þessi skynsamlegu skref í Osló sér til fyrirmyndar, og taka frumkvæðið í því breyta hlutum til betri vegar.