Niðurstaðan vafðist ekki fyrir Þorvarði. Fullyrðingar um laka fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar væru algjörlega úr lausu lofti gripnar. Staðan væri í raun þveröfug, borgin stæði fjárhagslega best allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þorvarður kveður þá sem halda öðru fram fara með vísvitandi ósannindi eða sýna af sér mjög yfirgripsmikla vannþekkingu. Hvorugt væri gott segir hann með réttu. Það er eins gott að þessi fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga fari þá með rétt mál.
Þorvarður birtir m.a. tölulegan samanburð þar sem hann ber saman skuldahlutfall sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu árið 2020. Bornar séu saman tölur úr A hluta ársreikninga þ.e. borgarsjóðs og bæjarsjóða. B hluta reikningarnir [reikningar sjálfstæðra bæjarfyrirtækja] séu ekki bornir saman vegna þess að flestar stofnanirnar og fyrirtækin séu með sjálfbæran rekstur og afli tekna sem duga fyrir kostnaði, m.a. greiðslubyrði lána (sic).
Hann kveður skuldahlutfallið, þ.e. hlutfall milli skulda og heildartekna ársins, en þar er miðað við að hlutfallið fari ekki yfir 150%. Skuldahlutfallið sýni hlutfall skulda og skuldbindinga af heildartekjum A-hluta sveitarfélaga. Þarna er framkvæmdastjórinn fyrrverandi heldur betur á villigötum. Í reglugerð þar um segir að heildarskuldir og skuldbindingar [A- og B-hluta] í reikningsskilum skuli ekki vera hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum. Um þetta ríkir hvergi neinn ágreiningur.
Því miður er Þorvarður ekki sá eini sem hefur notað þessa framsetningu. Aðrir hafa gert það í blekkingarskyni. En ekki ætla ég að væna Þorvarð Hjaltason um slíkt. Spurningin er hvort hann biðst nú ekki velvirðingar á stóryrðum sínum.
Höfundur er löggiltur endurskoðandi og hæstaréttarlögmaður.