Uppi varð fótur og fit fyrr í júlí þegar greint var frá því að Landsbankinn ætlaði að byggja nýjar höfuðstöðvar við Austurhöfn í Reykjavík. Margir hafa notað tækifærið til að gagnrýna áformin, þar á meðal forsætisráðherrann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Frosti Sigurjónsson og Vigdís Hauksdóttir, þingmenn Framsóknarflokksins, og Elín Hirst og Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins.
Látum það liggja milli hluta hvað fólki finnst um áform ríkisbankans. En margir láta eins og ákvörðun bankans sé ný af nálinni og þessar upplýsingar komi á óvart. Í bakherberginu er bent á að það standist bara ekki. Reyndar skal það tekið fram að forsætisráðherra hefur lengi talað gegn þessum áformum, oftar en ekki á skipulagslegum forsendum.
Greint hefur verið frá áformum Landsbankans reglulega undanfarin ár. Bankinn átti auðvitað lóðina fyrir hrun og ætlaði sér þá að byggja nýjar höfuðstöðvar. Allir þekkja hvað varð um þau áform, og ríkið og borgin eignuðust lóðina eftir hrun.
Í byrjun árs 2012 greindi bankinn frá því að hann ætlaði sér að reisa nýjar höfuðstöðvar fyrir árið 2015. Bankinn sagðist vilja gera það í miðborginni. Í viðtali við Fréttablaðið í janúar 2012 sagði Kristján Kristjánsson upplýsingafulltrúi að það kæmi allt eins til greina að horfa aftur til lóðarinnar sem bankinn hafði átt fyrir hrun.
Árið 2013 hófst aftur umræða um það að Landsbankinn ætlaði sér að byggja nýjar höfuðstöðvar, helst í miðborg Reykjavíkur, og þá var lóðin við Hörpuna aftur komin inn í myndina því bankinn óskaði eftir viðræðum við borgina um þá möguleika sem væru fyrir hendi.
Í fyrra keypti svo bankinn lóðina við Hörpu undir væntanlegar höfuðstöðvar sínar og þá hófst þessi umræða á ný. Bankinn keypti lóðina af Situs ehf. fyrir milljarð króna, sem samsvarar um 58 þúsund krónum á fermetrann, sem verður að teljast góður díll á besta stað í borginni. Aðeins tvö tilboð bárust í lóðina, og tilboð bankans var 15 prósentum hærra en hitt.
En hverjir voru það líka sem seldu lóðina? Eignarhaldsfélagið Situs er í meirihlutaeigu ríkisins. Hinn hlutann á Reykjavíkurborg.
Þrátt fyrir að nú stígi stjórnmálamenn fram fullir af vandlætingu þá er nákvæmlega ekkert sem á að koma þeim á óvart í Landsbankamálinu. Og það sem meira er: stjórn Situsar er pólitískt skipuð. Ef stjórnarmeirihlutinn var svona mikið á móti því að Landsbankinn byggði höfuðstöðvar á þessum stað, af hverju var þá verið að selja bankanum lóðina á slikk?