Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er boðað aðhald á útgjaldahlið, sem sagt er að gagnist í baráttunni við verðbólguna. Þetta aðhald bitnar illa á mörgum meginþáttum velferðarmálanna og kemur fram í því að útgjöld eru almennt aukin mun minna en nemur verðbólgu á þessu ári (8,8%) og jafnframt minna en áætluð verðbólga á næsta ári (6,7%). Og á sumum sviðum eru útgjöld beinlínis lækkuð að krónutölu.
Þegar heildarbreyting útgjalda ríkissjóðs (A1-hluta) eftir málefnum er skoðuð kemur fram að hún eykst um 6,3% frá fjárlögum síðasta árs og um 3,4% frá frá áætlaðri útkomu þessa árs. Það er umtalsvert minna en verðbólgan sem nú ríkir og vænt verðbólgu næsta árs. Útgjöld til velferðarmála eru stærsti hluti opinberra útgjalda.
Þarna er því um að ræða verulega breytingu á raunfjármögnun opinbera velferðarkerfisins. Mun það skipta máli til að ná niður verðbólgunni? Nei, það mun ekki hafa nein áhrif á stríðið í Úkraínu né á truflanir í aðfangalínum heimshagkerfisins, en áhrif af því berast okkur í tímabundinni innfluttri verðbólgu. Þetta mun heldur ekki hafa nein umtalsverð áhrif á helstu innlendu uppsprettu verðbólgunnar, sem er óvenju mikil hækkun húsnæðiskostnaðar.
Þetta mun einungis rýra kjör þorra þeirra sem stóla á velferðarkerfið. Helsta undantekningin er að boðað er að bætur almannatrygginga til öryrkja og ellilífeyrisþega muni halda verðgildi sínu með 9% hækkun. Þá er innifalin í þeirri tölu 3% hækkun sem kom í vor þannig að um áramótin mun einungis bætast við 6% hækkun (Raunar er athyglisvert að ríkisstjórnin tvítelur þessa 3% hækkun bóta almannatrygginga sem kynnt var sl. vor sem sérstök uppbót til lífeyrisþega vegna þrenginga af völdum verðbólgunnar. Svo er þetta aftur talið núna sem þriðjungur þeirrar hækkunar sem boðuð er um áramótin næstu. Réttara hefði verið að segja bætur almannatrygginga hækka um 6% í fjárlögunum frá því sem er á árinu 2022. Húsaleigubætur eru einnig tvítaldar á svipaðan hátt. Þetta eru heldur leiðinlegar bókhaldsbrellur til að fegra framlag ríkisins). Kaupmáttur þessara bóta mun því rýrna þegar líður á næsta ár í þeirri verðbólgu sem þá verður um 6,7% skv. spá Seðlabankans.
Skoðum breytingar á fjárveitingum til helstu þátta velferðarmálanna á myndinni hér að neðan í samanburði við vænta verðbólgu 2022 og 2023.
Í fjárlögum ársins 2022 var gert ráð fyrir 3,3% verðbólgu, sem síðan hefur reynst verða miklu meiri (a.m.k. 8,8%). Rauða línan á myndinni sýnir verðbólgu ársins í ár umfram forsendur fjárlaga (5,5%), að viðbættri spá fyrir næsta ár (6,7%), alls 12,2%. Súlurnar sýna breytingu fjárveitinga í frumvarpinu frá áætlaðri útkomu ársins í ár til einstakra liða velferðarmála (sem er í flestum tilvikum svipuð og breytingin frá síðustu fjárlögum). Þessi samanburður útgjalda og verðbólgu gefur vísbendingu um hvort verðbólga ársins í ár sé bætt að fullu eða ekki. Síðan bætast við áhrif af verðbólgu næsta árs (rauða línan). Samanburður útgjalda til einstakra liða við rauðu línuna sýnir líkur á rýrnun útgjalda vegna verðbólgu áranna 2022 og 2023.
Þarna má sjá að það eru einungis útgjöld vegna málefna eldri borgara sem aukast meira en rauða línan sýnir. Bætur almannatrygginga til öryrkja og eftirlaunafólks sem eiga að fá verðbólgu yfirstandandi árs bætta um áramótin (með þeim fyrirvara sem að ofan greinir) er 9% og mun kaupmáttur þeirra því rýrna um ca. 3% á næsta ári. Allir aðrir þættir á myndinni fá mun minni aukningu fjárveitinga en nemur umframverðbólgunni á árinu og spá fyrir það næsta. Sumir liðir fá beina krónutölulækkun útgjalda.
Skólamál og heilbrigðismál munu fá umtalsverða raunlækkun á fjárframlögum (eru langt fyrir neðan rauðu línuna). Sérstaka athygli vekur að sjúkrahúsþjónusta fær krónutölulækkun upp á -1% sem þýðir verulega raunlækkun fjárframlaga að teknu tilliti til verðbólgu. Staðan á Landsspítalanum og öðrum sjúkrahúsum hefur líklega farið framhjá smiðum fjárlagafrumvarpsins! Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta fær einnig högg.
Hins vegar er umtalsverður sparnaður á útgjöldum í lyf og lækningarvörur, en eðlilegt er að þar komi sparnaður eftir að Kóvid er að mestu gengið yfir. Þann sparnað hefði hins vegar mátt nýta í aðra þætti heilbrigðisþjónustunnar sem aðþrengdir eru.
Tekjutilfærslur til heimila vinnandi fólks rýrna verulega
Þegar litið er til barnabóta og húsnæðisstuðnings má sjá að gert er ráð fyrir samdrætti útgjalda upp á -2,6% til fjölskyldumálefna almennt. Barnabætur fá sömu krónutölu árið 2023 og verða veittar á yfirstandandi ári (um 14 milljarðar). Þær munu því rýrna samkvæmt þessu vegna verðbólgu um ca. 12,2% á þessu ári og því næsta. Barnabótaaukinn sem veittur var sl. vor var eingreiðsla upp á 20.000 krónur (um 1.667 krónur á mánuði, sem dugar til að kaupa tvo ísa í brauðformi). Hann er því ekki til frambúðar og skiptir fólk nær engu máli.
Heildarfjárveiting til húsnæðisstuðnings mun sömuleiðis lækka um -2,1% og mun því rýrna verulega að raunvirði. Þar er mikill niðurskurður á vaxtabótum (því láglaunafólki sem fær slíkar bætur mun fækka um 2.700 manns á næsta ári, skv. upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu) og þeir fáu sem enn fá slíkar bætur munu fá umtalsvert minna en áður. Rétt er að hafa í huga í þessu samhengi að vaxtabæturnar áttu að koma í stað félagslega húsnæðiskerfisins þegar það var lagt af árið 1999. Markmiðið var að vaxtabæturnar myndu létta lægri og milli tekjuhópum íbúðakaup.
Á móti þessu spara stjórnvöld sér mikil útgjöld sem áður runnu til atvinnuleysisbóta, en þörf fyrir þær hefur auðvitað minnkað verulega með hinu góða atvinnuástandi sem nú ríkir.
Í fjárlagafrumvarpinu er boðað að breyta eigi fyrirkomulagi barnabóta og formi húsnæðisstuðnings en ekki er gert ráð fyrir að slíkar breytingar muni kosta neitt í fjárlagafrumvarpinu. Það yrði þá hugsanlega fjármagnað með tilfærslum frá öðrum liðum (líkt og gerst hefur með fjármagn sem áður fór til vaxtabóta en var tekið til greiðslu stofnframlaga íbúðabygginga, sem nú á svo að skerða stórlega). Annar möguleiki er að í tengslum við kjarasamninga komi framlög til slíkra liða í fjáraukalögum.
Einnig vekur athygli að í fjárlögunum eru settir aukalega um 44 miljarðar í „Almennan varasjóð og sértækar fjárráðstafanir", sem mun hafa alls um 66 milljarða til ráðstöfunar á næsta ári. Vonandi er það ætlað til að vega gegn þeirri miklu afturför velferðarríkisins sem nú blasir við.
Það eru kaldar kveðjur til heimila vinnandi fólks sem felast í þessum niðurskurði tekjutilfærslukerfisins, þar sem barnabætur og húsnæðisstuðningur eru megin þættir. Að þetta gerist samhliða fordæmalausum hækkunum á greiðslubyrði húsnæðiskostnaðar er vægast sagt öfugsnúið ef ekki beinlínis illgjarnt. Þetta lendir með sérstaklega miklum þunga á ungar barnafjölskyldur sem tiltölulega nýlega eru komnar út á húsnæðismarkaðinn, og á lágtekjufólk almennt.
Minna má á að um 13% barna undir 18 ára aldri bjuggu á heimilun sem voru undir lágtekjumörkum árið 2021. Það hlutfall verður án efa hærra í ár.
Meðferðin á heilbrigðisþjónustunni, ekki síst sjúkrahúsþjónustunni, er einnig mikið umhugsunarefni. Þar er þrengt að rekstri í stöðu sem er vægast sagt viðkvæm, einkum vegna manneklu og flótta starfsfólks. Varast ber að telja framlög vegna byggingar meðferðarkjarna á Landsspítala eða tímabundna aukningu vegna Kóvid með almennum fjárveitingum til rekstrar.
Tekjuskattur einstaklinga hækkar en eignafólki er áfram hlíft
Gert er ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga hækki um tæplega 11%, meira en útgjöld til stærstu liða velferðarríkisins. Þá eru einnig kynntar miklar hækkanir á ýmsum gjöldum á einstaklinga og fjölskyldur, þar á meðal á rekstur fólksbíla.
Þegar þetta bætist allt við mikla aukningu byrða vegna harkalegra vaxtahækkana Seðlabankans þá eru horfurnar fyrir heimilin slæmar. Kjör heimila launafólks eru rýrð verulega þannig að ávinningur síðustu kjarasamninga er að tapast, sem bitnar mest á lægri og milli tekjuhópum.
Ekki er horft til þess að leggja á hvalrekaskatt á mikinn gróða á Kóvid tímanum né á óvenju miklar arðgreiðslur og aðrar fjármagnstekjur. Fjármagnstekjuskattur stóreignafólksins er áfram óvenju lágur, bæði miðað við skattlagningu atvinnutekna og lífeyris, sem og miðað við fjármagnstekjuskatt í grannríkjunum. Hið sama á við um tekjuskatt fyrirtækja og auðlindagjöld.
Verst er að þessar aðgerðir stjórnvalda munu litlu skipta til að ná verðbólgunni niður. Sumar þeirra munu beinlínis auka verðbólguna, eins og auknar álögur á rekstur fólksbifreiða og aðra neysluvöru (t.d. áfengi).
Verkalýðshreyfingin þarf að beita sér af hörku í komandi kjarasamningum til að breyta þessari mynd sem við blasir í fjárlögum næsta árs.
Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi.