Lengi vel þótti samfélagsleg ábyrgð vegna loftslagsbreytinga vera róttækt málefni. Umhverfisverndarinnar lifðu óhefðbundum lífsstíl og hugsuðu út í smáatriði neyslu sinnar til þess að lágmarka afleiðingar á umhverfið. Unnu rannsóknarvinnu í daglegum innkaupum og vógu og mátu margvísleg áhrif á umhverfið. Ný tækni sem er kennd við Web 3.0 gerir það að verkum að þetta þarf ekki að vera svona flókið. Sem samfélag getum við áorkað miklu ef við nýtum lausnir nýsköpunar og frumkvöðla.
Ný tækni í greiðslumiðlun skapar möguleika á að verðmiði vöru sýni kolefnisspor
Ef stjórnvöld hafa áhuga á að skattleggja kolefnisspor neyslu þá eru tækin ekki svo langt undan. Hvernig væri að nýta gögn í greiðsluferli í almennum viðskiptum til að innheimta kolefnisskatt í rauntíma, skapa jákvæða hvata fyrir fyrirtæki til að gera betur og sýna neytandanum á verðmiðanum hvort viðskipti þeirra hafa jákvæð eða neikvæð áhrif á umhverfi sitt?
Tæknin sem Alein Pay hefur þróað gerir fólki kleift að fá greitt í rauntíma samkvæmt snjallsamningum í Web 3.0 umhverfi. Það þýðir að aðili sem framleiðir vöru, getur fengið greitt um leið og vara er keypt í verslun án milligöngu verslunarinnar. Fasteignaeigandi sem leigir versluninni húsnæði fær hlutfall hverrar greiðslu greidda inn á sitt elektróníska veski samkvæmt leigusamningi. Og ríkið getur fengið skatt greiddan í rauntíma. Allt er þetta hægt með tilkomu Web 3 tækni, sem gerir greiðslumiðlun eins og við þekkjum hana nánast óþarfa.
Nú þegar eru íslensk sprotafyrirtæki á borð Meniga, Klappir, Greenbites, og fleiri að þjónusta gögn um kolefnisspor á vörum og þjónustu. Neytendur og ríkissjóður gætu notið góðs af, en mestu gæti munað fyrir fyrirtækin í landinu sem geta og vilja stunda umhverfisvænni starfsemi og hljóta umbun fyrir. Með nýjum nálgunum er hægt að nýta neyslu landsmanna sem vopn í baráttunni gegn loftslagsbreytingum - og einfalda fólki lífið í leiðinni.
Jákvæðir hvatar fyrir neytendur til þess að versla við sitt nærsamfélag
Í dag hef ég sem neytandi ekki hugmynd um hvert kolefnisspor vöru er, þegar ég versla. Með því að nýta sér möguleikana sem Alein Pay sprotafyrirtækið okkar, býður upp á, hafa fyrirtæki samstundis hvata og fjárhagslegan ávinning af því að gera betur í umhverfismálum. Fyrirtæki sem framleiða grænmeti fyrir nærsamfélagið og nota til þess jarðvarma og græna orku og þeir aðilar sem standa sig best í íslenskum landbúnaði myndu fá að njóta ávaxtanna af þeirra jákvæða starfi í stað þess að það sé þeim fjötur um fót.
Eitt öflugasta vopnið sem umhverfissinnaðir neytendur hafa er eigin neysla. Með því að veita krónum sínum í umhverfisvæna starfsemi fram yfir aðra sem mengar meira geta neytendur haft áhrif í hvert sinn sem þeir fara út í búð til að versla í matinn. Þetta eru að minnsta kosti skilaboðin sem fólk fær þegar það spyr hvað venjuleg manneskja getur gert. En þetta er hægara sagt en gert. Í heimi þar sem grænþvottur er að verða reglan frekar en undantekningin og framleiðendur sjá sér hag í að merkja vörur sínar sem NÁTTÚRULEGAR er erfitt að átta sig á hvað er raunverulega besti kosturinn fyrir umhverfið. Vörur eru vottaðar í bak og fyrir og merktar með mis skiljanlegum vörumerkjum og til að átta sig á hvað liggur þar að baki þarf rannsóknarvinnu og þekkingu. Þegar maður stendur úti í búð og er að velja á milli þriggja náttúrulegra flaskna af uppþvottalegi hefur maður ekki tíma til að vega og meta hver hafi bestu innihaldsefnin, umbúðirnar og stystu vöruflutningaleiðina.
Tækni Alein Pay byggir á því að safna og deila meiri gögnum en þekkist í dag í greiðslumiðlun. En engu að síður að setja völdin yfir gögnunum í hendur einstaklingsins. Þannig að þú sem neytandi eigir og stjórnir þínum gögnum aleinn og meira að segja bankinn þinn þarf að biðja þig um leyfi til þess að skoða fjárhagssögu þína. Á sama tíma geta framleiðendur birt þér gögn um áhrif vöru sinnar á umhverfið svo að í einu vetfangi viti neytendur nákvæmlega hvað þeir eru að kjósa með veskinu.
Grænn og hagrænn ávinningur fyrir samfélög
Með því að nýta þá tækni sem við hjá Alein Pay nýttum COVID til að skapa, fá yfirvöld á Íslandi tækifæri til að vinna að sínum markmiðum í þágu þjóðarinnar. Meiri upplýsingar í greiðsluferlinu gera verslunum kleift að birta upplýsingar um kolefnisskatt með verði vöru og ríkinu kleift að innheimta hann um leið og greiðsla á sér stað.
Þó verðið sé svipað á vörum úr óæskilegum efnum sem fluttar eru langa leið og vörum sem framleiddar eru í nærsamfélaginu og valda minni skaða er mikill munur á áhrifunum á umhverfið.
Aukin vitneskja, minni fyrirhöfn
Í dag er það kvöð fyrir marga að breyta lífi sínu, starfi, framleiðslu og neyslu til betri vegar fyrir umhverfið. Það er erfitt að átta sig á því hvað maður getur gert, hvernig maður á að gera það og á meðan dynja stanslaust á manni dómsdagsfyrirsagnir um að það sé að verða of seint að bregðast við.
Lausnin er ekki að allir verði duglegri og leggi meira á sig. Lausnin er að gera fólki það einfaldara að gera sitt til að hlúa að framtíð hnattarins. Við getum ekki gert þá kröfu til neytandans að rannsaka framleiðsluferli á hverju epli sem hann stingur í körfuna en með gögnum og nútímatækni er auðveldlega hægt að koma því til skila á einfaldan hátt hvor varan hafi meiri áhrif á umhverfið. Með nýjum nálgunum er hægt að nýta neyslu landsmanna sem vopn í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
Höfundur er stofnandi Alein Pay.