Í febrúar síðastliðnum nýttu 51% heimila í Meniga hagkerfinu sér yfirdráttarlán. Það tæki heimilin að meðaltali 17 daga að vinna sér fyrir þeirri upphæð sem þarf til að greiða upp yfirdráttarlánin. Miðað við 12% vexti var meðalkostnaðurinn 46 þúsund krónur á ári.
Vaxtakostnaður 0,8% af tekjum
Meðalstaða á yfirdráttarlánum heimilanna yfir febrúarmánuð var 383 þ. krónur. Hæst voru lánin jafnan í lok mánaðar, en meðal heimilið skuldaði þá 503 þ. krónur.
Það er líklegt að flesta langi til að losna við yfirdráttinn og vaxtakostnaðinn sem honum fylgir. Það er því áhugavert að skoða hversu langan tíma þarf að vinna fyrir upphæð sem nægir til að greiða niður yfirdráttinn.
Heimili með yfirdrátt voru að meðaltali með 455 þ. krónur í mánaðarlegar ráðstöfunartekjur á árinu 2014. Því tekur þau því 25 daga að greiða niður meðalstöðuna (383 þ. krónur) og 45 daga að greiða niður hæstu stöðu yfirdráttar (503 þ. krónur).
Hlutfall vaxtakostnaðar af ráðstöfunartekjum var að meðaltali 0,8%. Heimilin gætu því aukið ráðstöfunartekjur sínar um 0,8% með því að greiða upp yfirdráttarlánið.
Lágtekjuheimili vinna í 49 daga fyrir yfirdrættinum
Þegar heimilum er skipt í fjórðunga eftir ráðstöfunartekjum kemur í ljós að notkun yfirdráttarheimilda er nokkuð svipuð á milli tekjuhópa. Tekjulægsti fjórðungurinn sker sig þó aðeins úr með lægsta hlutfallið (46%).
Þegar meðalstaða reikninga er skoðuð kemur í ljós að yfirdráttarlánin hækka með hækkandi tekjum. Tekjulægsti fjórðungurinn er að meðaltali með 326 þ.kr. í yfirdrátt en sá tekjuhæsti með 429 þ.kr..
Ef við skoðum aftur yfirdráttinn í samhengi við ráðstöfunartekjur eru niðurstöðurnar nokkuð ólíkar á milli tekjuhópanna. Það tæki heimilin í lægsta tekjuþrepi að meðaltali 49 daga að vinna sér inn fyrir yfirdrættinum sínum á meðan heimilin í efsta tekjufjórðungi næðu sama takmarki á 16 dögum.
Hlutfall vaxtakostnaðar af ráðstöfunartekjum sýnir svipaða mynd þar sem tekjulægsti fjórðungurinn greiðir að meðaltali 1,6% af ráðstöfunartekjum sínum í vaxtakostnað á meðan sá hæsti greiðir 0,5%.
Um greininguna
Meniga vill leggja sitt af mörkum til að skapa opna umræðu um fjármál heimilanna. Vandaðar upplýsingar um stöðu heimilana geta gagnast heimilum sjálfum og haft jákvæð áhrif á aðgerðir opinberra aðila. Þessi greining er byggð á upplýsingum úr heimilisbókahaldskerfi Meniga. Upplýsingarnar eru byggðar á samandregnum upplýsingum frá 11 þúsund fjölskyldum sem nota Meniga til að fylgjast með fjármálum sínum.
Tekjuhóparnir eru fengnir með því að raða öllum heimilum eftir ráðstöfunartekjum árið 2014 og skipta þeim í fjóra jafn fjölmenna hópa. Á bak við hvern fjórðung eru því í kringum 2.700 heimili. Meðaltekjur allra í úrtakinu eru 455 þ. krónur á mánuði. Ráðstöfunartekjur í lægsta hópnum eru 199 þ. krónur á mánuði en 793 þ. krónur í þeim hæsta.
Ofangreindar upplýsingar eru fengnar úr Menigahagkerfinu og unnar í samstarfi Stofnunar um fjármálalæsi og Meniga. Meniga hjálpar fólki að halda utan um fjármál heimilisins og er heildarfjöldi notenda um 40.000. Aldrei er unnið með persónugreinanleg gögn í Meniga hagkerfinu. Nánari upplýsingar má finna á www.fe.is og www.meniga.is.
Höfundar starfa hjá greiningardeild Meniga og Stofnun um fjármálalæsi.