Míla, eitt mikilvægasta fyrirtæki sem sinnir grunninnviðaþjónustu, hefur verið selt úr landi til franskra fjárfesta. Ríkisstjórnin brást algerlega að tryggja að þessir grunninnviðir væru í eigu almennings. Innviðirnir sem Míla starfrækir er undirstaða fjarskiptaþjónustu í landinu og eru jafnmikilvægir innviðir eins og raforkan og hitaveitan. Það hefur ríkt almenn sátt í samfélaginu um að raf- og hitaveitur, grunninnviðir, skuli vera í eigu almennings. Að auki skiptir starfsemi Mílu gríðarlega miklu máli fyrir þjóðaröryggi. Þjónusta Mílu fer nær öllu leyti fram á einokunarmarkaði, fyrir utan samkeppni við Gagnaveitu Reykjavíkur á höfuðborgarsvæðinu. Það er hvorki hagkvæmt eða heppilegt út frá öryggis- neytenda eða gæðaþáttum að selja fyrirtæki sem hefur einokunarstöðu á markaði. Hættan er að fjárfestar einblíni á hagnað á kostnað viðhalds, nýjunga og gæði þjónustu auk þess að verð til notenda hækkar.
Tryggja eignarhald almennings
Ríkisstjórnin hefði getað tryggt eign almennings á þessari þjónustu ef vilji og þor hefði verið fyrir hendi eða að flokkar, sérstaklega VG, hefðu staðið á sínu prinsippi. Innan Sjálfstæðisflokksins er enginn vilji fyrir því að tryggja almenningi eignarhald á samfélagslegum mikilvægum innviðum eins og ljósleiðarakerfi. Flokkurinn sýndi það vel í verki þegar sá flokkur stjórnaði Reykjanesbæ þar sem allar eignir bæjarins sem hönd var á festandi voru seldar. Auk þess stóð Sjálfstæðisflokkurinn að sölu á hlut ríkisins í HS Orku og hlut Hafnarfjarðar í HS Veitum til fjárfesta. Ennfremur hafa Sjálfstæðismenn í Reykjavík talað opinskátt um að selja Gagnaveitu Reykjavíkur sem er í eigu OR og þar með Reykvíkinga. Mikilvægi Gagnaveitu Reykjavíkur hefur stóraukist eftir söluna á Mílu og það má aldrei gerast að það verði selt fjárfestum. Gagnaveita Reykjavíkur hefur haldið verði á ljósleiðaraþjónustu niðri, auk þess að fyrirtækið hefur veitt góða þjónustu.
Það er mikil einfeldni hjá þeim sem dásama söluna á Mílu til franskra fjárfesta að þarna séu aðilar sem ætli að auka þjónustuna á sama verði. Sömu aðilar hafa látið hafa eftir sér að fyrirtækið verði ekki selt áfram til annara fjárfesta. Hvaða tryggingu höfum við fyrir því? Einhver orð einhvers millistjórnanda hjá þessum frönsku fjárfestum; Það er nákvæmlega engin trygging fyrir því að Míla verði ekki áframseld til braskara og vogunarsjóða ef því er að skipta, þess vegna staðsetta í Kína. Það sem er alvarlegra varðandi söluna á Mílu er sú staðreynd að rökin fyrir sölunni má allt eins heimfæra við sölu á Landsvirkjun, Orkuveitunni eða sölu annara þjóðhagslega mikilvægra fyrirtækja til fjárfesta. Hér verður að draga línu í sandinn og hafna þessari útsölustefnu á eigum almennings til áhættufjárfesta.
VG veldur vonbrigðum
Það veldur mér miklum vonbrigðum að hinir stjórnarflokkarnir, Framsóknarflokkurinn og VG hafi leyft sölunni að ganga í gegn og ekki lagt til að ríkið hreinlega kaupi fyrirtækið. Ég er gapandi af undrun á afstöðu VG í þessu máli. Sá flokkur hefur tapað nær öllum sínum prinsip málum í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Hvernig ætlar flokkurinn, með þessari afstöðu sinni, að stöðva hugmyndir og áætlanir um sölu Landsvirkjunar ef þær koma fram?
Tímasetning sölunnar er áhugaverð í ljósi þess að alþingi er ekki að störfum og verið er að mynda ríkisstjórn. Öllu óskiljanlegra er sú afstaða formanns VG og forsætisráðherra að lúffa fyrir sölunni með því að boða nýtt frumvarp til laga sem setur fjarskiptafyrirtækjum ákveðin skilyrði. Að mínu mati hefði mátt stöðva söluna þangað til að lögin hefðu tekið gildi. Öll aðkoma stjórnvalda að þessu máli einkennist af vanmætti, aðgerðaleysi og ber keim af því að umbuna hagsmunum fjárglæframanna á kostnað íslenskra hagsmuna.
Það er ekki allt falt fyrir peninga. Sumt á að vera í eigu almennings á vegum hins opinbera, eins og grunninnviðir, til að tryggja góða og örugga þjónustu. Við sem þjóð höfum byggt upp þessa innviði til að bæta þjónustu við íbúa þessa lands en ekki til að auka arð og eignir fjármagnseigenda.
Höfundur er heilsuhagfræðingur.