Undanfarið ár hefur COVID-19 tekið mikið pláss á vettvangi stjórnmálanna á meðan öðrum brýnum verkefnum hefur ekki verið sinnt af núverandi ríkisstjórn. Við viljum hér sérstaklega nefna eitt mál sem hefur verið látið sitja á hakanum hjá núverandi ríkisstjórn, en það er þjónusta og skyldur ríkisins við langveikt fólk, örorkulífeyrisþega og uppbyggingu endurhæfingaúrræða. Í þeim málaflokki hafa of mörg verkefni verið sett á bið og fólkið sem var fyrir tíma COVID-19 er enn í sömu stöðu og áður, jafnvel verri stöðu, því ekkert hefur þokast áfram í þeirra málum. Þau hafa einfaldlega verið látin bíða. Að okkar mati þarf að stokka upp stofnanakerfi ríkisins sem hefur með réttinda- og atvinnumál að gera, þar á meðal þeirra sem eru með skerta starfsgetu, fötlun eða örorku. Er þar átt við verkefni sem falla undir verksvið Tryggingastofnunar ríkisins, Vinnumálastofnunar og Sjúkratrygginga Íslands.
Við teljum skynsamlegast að sameina þrjár ofangreindar stofnanir í eina nýja stofnun sem hefur það að augnmiði að þjónusta notendur og leiðbeina þeim eins og best verður á kosið. Nú er tími til að fara í slíkar breytingar, ekki síst til að mæta þeirri þörf sem skapast hefur og mun skapast í kjölfar þeirrar félagslegu, fjárhagslegu og heilbrigðiskreppu sem COVID19 hefur haft og mun áfram hafa í för með sér.
Ný stofnun myndi í senn annast aðstoð við atvinnuleit, skipulag vinnumarkaðsúrræða, s.s. námskeiða, starfsúrræða, námsúrræða og endurhæfingar. Þar yrði áhersla lögð á vinnumiðlun og stuðningsúrræði fyrir alla, án aðgreiningar, auk aðgangs að hjálpartækjum og tækni- og starfsráðgjöf. Stofnunin hefði einnig umsjón með því að tryggja notendum greiðslur úr almannatryggingasjóði eða atvinnuleysistryggingasjóði eftir því sem við á.
Við leggjum áherslu á að efla þarf starfs- og námsráðgjöf, endurhæfingarúrræði, menntun- og símenntun, en aukin menntun og færni er hreyfiafl til atvinnuþátttöku. Til að auka möguleika fólks með ólíka starfsgetu til virkni og þátttöku á vinnumarkaði þarf að auka fjölda hlutastarfa og starfa með sveigjanlegan vinnutíma. Sérstaklega þarf að hafa í huga stöðu fólks sem hefur misst vinnu vegna árferðisins, ungs fólks (31% atvinnulausra í maí 2021 voru einstaklingar undir þrítugu), innflytjenda, fatlaðs fólks, fólks með geðraskanir og þeirra sem búa í dreifðari byggðum landsins. Víða á landsbyggðinni er aðgengi að endurhæfinga- og virkniúrræðum takmarkað en sérstaklega þarf að bæta aðgengi þeirra sem eru með annað móðurmál en íslensku að úrræðum.
Ríkið þarf að ganga ákveðnara til verks í því að tryggja rekstrargrundvöll ólíkra endurhæfingarúrræða, þannig að þeim sé gert kleift að veita einstaklingsmiðaða og fjölbreytta starfsendurhæfingu og stuðla þannig að virkni og atvinnuþátttöku fólks. Tíminn til að huga að þessu er núna, því þegar við förum að sjá út úr þessari kreppu þá kemur vandinn fyrst í ljós, eins og við sáum gerast eftir fjármálahrunið. Efla þarf þor og krafta fólks til virkni og almennrar samfélagsþátttöku með því að tryggja framboð úrræða, þar sem fagmennska er höfð að leiðarljósi en þá þarf einnig að gæta samfellu í endurhæfingu. Með því að vera með almannatryggingagreiðslur, ráðgjöf við hjálpartæki, vinnumarkaðsúrræði og endurhæfingu á sama stað verður þjónustan betur sniðin að notendanum. Þá verður yfirsýn yfir þörfina betri og það skapast fleiri tækifæri til að þróa vinnu- og velferðarþjónustu ríkisins enn frekar. Með því að sameina þessar stofnanir í eina þá eru hagsmunir notenda hafðir að leiðarljósi og aukið samspil verður á milli ábyrgðar og faglegra vinnubragða.
Ellen Calmon er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og Gunnar Alexander Ólafsson heilsuhagfræðingur.