Í Kjarnanum var skrifuð frétt upp úr svari á vísindavefnum, sem í kjölfarið rataði á RÚV, þar sem leitast var við því að svara spurningunni hver útgjöld ríkissjóðs væru vegna beins og óbeins stuðning við íslenskan landbúnað. Ýmislegt er hægt að gagnrýna við hvernig höfundur svarsins, Þórólfur Matthíasson, túlkaði útreikninga og forsendur Efnahags og framfarastofnunar á stuðningi við landbúnað. Út í þá sálma verður þó ekki farið hér. Heldur verður farið yfir samhengi þessa stuðnings.
Það er ekkert leyndarmál að það eru tvær stoðir opinbers stuðnings við landbúnað á Íslandi. Annars vegar eru það búvörusamningarnir, sem segja til um hvernig beinum útgjöldum ríkisins er varið og svo er það tollverndin. Þetta er sama leið og flestar þjóðir heims beita til þess að styðja sinn landbúnað. Til þess að hafa samanburðarhæfan mælikvarða setur OECD þetta fram sem hlutfall af landsframleiðslu sem gefur flestum löndum heims falleinkunn þegar kemur að því hvernig stuðningur við landbúnað er ákvarðaður. Markmið einkunnagjafar OECD er að hvetja til þess að stuðningi við landbúnað verði settar skorður þannig að markaðsöflin fái að leika lausum hala í matvælaframleiðslu. Flestar þjóðir heims virðast hafa metið það sem svo að matvæli séu of mikilvæg til þess að leyfa markaðnum einum að ákvarða hvar hann sé stundaður. Sjónarmið um fæðuöryggi vega þar þungt víðast hvar.
Í öllum þessum löndum er pólitískur vilji til þess að búa þannig um hnútana að bændum sé gert kleift að búa í sama efnahagslega veruleika og aðrir íbúar landsins. En sjálfsagt er þar einnig deilt um sömu hluti og koma upp á hverju ári eftir að OECD birtir skýrslu sína þar sem þessi lönd fá falleinkunn. Það er eðlilegt og sjálfsagt að ræða markmið með opinberum stuðningi við landbúnað. En til þess að upplýst umræða geti átt sér stað þarf að setja hlutina í samhengi. Slíkt samhengi skortir í svari prófessorsins.
Höfundur er formaður Bændasamtaka Íslands og garðyrkjubóndi.