Stríðið í Úkraínu heldur áfram. Nú skal innrásarliðið eyðileggja rafstöðvar, vatnsveitur og gasleiðslur. Tímasetningin er engin tilviljun. Það er vetur fram undan og frost. Í byrjun september 2022 gerðu Alþjóðabankinn og Evrópusambandið skýrslu opinbera sem áætlaði það myndi kosta um US$ 349 milljarða (ISK 50.000 milljarða) að endurreisa Úkraínu eftir stríð. Þetta mat miðaðist við 24. febrúar 2022 þegar innrás hófst til 1. júní 2022. Mikið tjón hefur orðið síðan. Nú duga vopnasendingar eingöngu ekki lengur. Það þarf að huga að fólkinu í landinu næstu mánuði. Hafa Bandaríkin, Evrópusambandið og NATO eitthvað plan fyrir Úkraínu í vetur? Hvernig á fólkið að lifa í landinu?
Innrás Rússa og klaufaskapur vesturlanda
Innrásin í Úkraínu var gerð af Rússlandi og er á ábyrgð Rússneskra yfirvalda. Það breytir því ekki að Vesturlönd hafa að ýmsu leyti verið klaufsk í samskiptum sínum við Rússland og Úkraínu eftir fall Sovétríkjanna. Hér nefni ég aðeins þrjú dæmi.
Í fyrsta lagi svokallað Búdapest Memorandum frá desember 1994 þar sem Úkraína var undir þrýstingi um að láta af hendi öll sín kjarnorkuvopn til Rússlands með því skilyrði að landamæri hennar við fall Sovétríkjanna yrðu virt. Samkomulagið var svikið af Rússlandi í febrúar 2014 með innlimun á Krímskaga. Bandaríkin og Bretland, sem undirrituðu samkomulagið ásamt Rússlandi og Úkraínu, höfðu engin úrræði til að bregðast við. Hefði Úkraína aðeins haldið litlum hluta af sínum kjarnorkuvopnum eftir væri Rússneskur her þar tæpast nú.
Í þriðja lagin tókst NATO haustið 2021 ekki að koma með neitt sem gæti fælt Rússa frá innrás í Úkraínu 24. febrúar 2022. Fyrir innrásina kepptust NATO ríkin líka við að lýsa því yfir að þau myndu ekki blanda sér á átökin með því að senda hermenn til að aðstoða Úkraínumenn að verja land sitt. Þarna hefði kannski verið skynsamlegra að segja ekki neitt. Auk þess báru fundir Biden og Pútin fyrir innrás engan árangur. Þetta ætti að hringja viðvörunarbjöllum í Taívan. Leiðtogar stórvelda geta ekki komið í veg fyrir átök þó þeir ræðist við og svo má líka spyrja um raunverulegan vilja að stuðla að friði milli stórvelda. Stórveldi getur litið á styrjöld ekki bara sem ógn, heldur líka sem tækifæri til að veikja annað stórveldi. Stríðið í Úkraínu lítur að mörgu leyti út sem „proxi war“ milli Bandaríkjanna og Rússlands. Staða Rússland veikist. Aftur á móti styrkist staða Kína í samkeppninni við Bandaríkin.
Vesturlönd og refsiaðgerðir
Bandaríkin og ESB keppast við að setja viðskiptaþvinganir á Rússa vegna Úkraínustríðsins. Þær hafa hins vegar borið takmarkaðan árangur þar sem Rússland nýtur beins og óbeins stuðnings BRICS landanna sem saman standa af Brasilíu, Indlandi, Kína og Suður Afríku auk Rússlands. Og nú vilja Argentína, Íran og Saudi Arabía gerast aðilar að BRICS hópnum. G7 hópurinn, samtök ríkustu iðnríkja heims þ.e. Bandaríkjanna, Bretlands, Kanada, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Japan hafa misst vægi. Þrátt fyrir umfangsmiklar viðskiptaþvinganir Vesturland gegn Rússlandi spáir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn aðeins 3,4 % samdrætti í vergri landsframleiðslu í Rússlandi árið 2022, en í tilviki Úkraínu 35 % samdrætti vergrar landsframleiðslu árið 2022. Áður hafði Alþjóðabankinn spáð um 45 % samdrætti vergrar landsframleiðslu í Úkraínu sama ár. Sem sagt, samdráttur í Rússlandi, algert efnahagshrun í Úkraínu.
Staða Bandaríkjanna í utanríkismálum
Staða Bandaríkjanna í utanríkismálum er ekki mjög góð þessa dagana. Fyrir stríðið í Úkraínu má segja að mikilvægustu svæði heimsins fyrir Bandaríkin væru: (i) Austur-Asía vegna uppgangs í Kína, (ii) Persaflóinn vegna olíu og svo (iii) Evrópa. Nú hefur vægi Evrópu aukist aftur vegna stríðsins í Úkraínu. Staða Bandaríkjanna hefur aftur á móti veikst við Persaflóa vegna deilna við Saudí-Arabíu sem nú ásamt OPEC takmarkar framboð á olíu. Þetta bætist ofaná hatrammar deilur við Íran. Staða Bandaríkjanna í Austu Asíu er heldur ekki sterk þar sem Bandaríkin hafa vanrækt að styrkja bandalög sín í þeim heimshluta til að bregðast við uppgangi Kína meðal annars vegna stríðsins í Úkraínu sem nú tekur mikinn tíma ráðamanna í Washington DC.
Deilur Bandaríkjanna við Kína
Kínversk stjórnvöld eru afdráttarlaus í þeirri afstöðu sinni að Taívan sé hluti af Kína, ekki sjálfstætt ríki. Þarna getur auðveldlega komið til átaka milli Bandaríkjanna og Kína á næstu árum. Bandaríkin eru gríðarlega ríkt land og öflugt hernaðarlega, en staða Kína í átökum um Taívan yrði að sumu leyti sterkari en Bandaríkjanna. Taívan er miklu nær Kína en Bandaríkjunum. Það eru aðeins um 180 km frá meginlandi Kína til Taívan, en um 12000 km frá Taívan til meginlands Bandaríkjanna. Bandaríska herstöðin í Guam er í 2700 km fjarlægð frá Taívan. Taívan er í allt öðru tímabelti en Bandaríkin. Það er t.d. 12 tíma munur á Taívan og Washington sem skiptir máli fyrir ákvarðanatöku í hernaði.
Stærðarmunur milli Taívan og Kína er gríðarlegur t.d. eru íbúar Taívan 24 milljónir en Kína 1400 milljónir. Það yrði tæpast hægt að nota hermenn eingöngu frá Taívan í stríði um landið eins og hingað til hefur verið gert í Úkraínu. Bandaríkin myndu þurfa að fórna mannslífum. Spyrja má hvort Bandaríkin væru tilbúin í slíkt stríð, hvort Bandarískur almenningur telji Taívan nægilega mikilvægt fyrir Bandaríkin. Spennan milli Bandaríkjanna og Kína hefur farið vaxandi t.d. vegna nýlegrar heimsóknar forseta fulltrúadeilda Bandaríkjaþings til Taívan.
Úkraína og Finnland
Það er skiljanlegt að Úkraínumenn sjálfir vilji taka meiri þátt í Evrópusamrunanum með ESB aðild og komast í varnarbandalag eins og NATO. En það er mikilvægt að velja rétta tímann til að taka stór skref. Finnland er dæmi um land sem lengi hefur lifað í skugga Rússlands eða Sovétríkjanna. Finnland vildi bæði tryggja efnahagslega hagsmuni sína og öryggishagsmuni, en til að ná því markmiði voru tekin skynsamleg og vel tímasett skref. Finnland var ekki fullgildur aðili að EFTA fyrr en 1986 löngu eftir að önnur Norðurlönd gengu þangað inn, Danmörk, Noregur og Svíþjóð 1960 og Ísland 1970. Finnland sótti svo ESB aðild eftir fall Sovétríkjanna 1991 og var þá orðið ríkt land og var vel undirbúið og fékk fulla ESB aðild 1995. Finnland gerðist svo aðili að myntbandalagi Evrópu 1999 sem var ekki bara efnahagsmál heldur líka öryggismál. Lönd eins og Þýskaland og Frakkland myndu tæpast líða árás á evrusvæðið án afskipta. Loks sækir Finnland um aðild að NATO 2022 þegar Rússland hefur veikst eftir innrásina í Úkraínu. Finnland var þá löngu búið að koma sér upp öflugum her og fullnægði öllum skilyrðum NATO. Þarna skilur milli feigs og ófeigs. Finnland velur sjálft rétta tímann til að tengjast ESB nánum böndum og svo nú NATO. Þessu er öðruvísi farið með Úkraínu. Úkraína sækist eftir ESB aðild og NATO aðild löngu áður en hún átti nokkra raunhæfa möguleika. Landið fyrir stríð var fátækt, með veikar stofnanir og spilling útbreidd. Úkraínu er samt vorkunn því Vestræn ríki hvöttu hana til að taka þessi skref þó þau væru síðan ekki tilbúin að styðja aðild Úkraínu þegar til kom. Þetta er eins og að hvetja ósyndan mann til að stinga sér til sunds, en nenna svo ekki að henda út björgunarhring þegar drukknun blasir við. Skömmin af núverandi ástandi í Úkraínu er fyrst og fremst þeirra sem gerðu innrás í landið. En skömm vesturlanda er líka stór.
Það hefði verið hyggilegra fyrir Úkraínu að taka smærri skref. T.d. að fá fullan aðgang að sameiginlegum markaði ESB og fjárfestingastyrki. Fá aukna aðstoð frá stofnunum eins og Alþjóðabankanum og Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu, auk Fjárfestingabanka Evrópu. Koma á samstarfi við NATO án fullrar aðildar strax. Hefði landið náð öflugum hagvexti hefði verið auðveldara að stíga stærri skref í Evrópusamruna síðar. Staðreyndin er sú að árið 2021 var Úkraína fátækari en hún var 1991 þegar Sovétríkin féllu. Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var verg landsframleiðsla á mann á jafnvirðisgengi var lægri 2021 en hún hafði verið 1991, sjá mynd. Við þetta mun svo bætast algert hrun vergrar landsframleiðslu árið 2022 og gríðarlega eyðilegging innviða.
Stríðið í Úkraínu og staða Taívan
Markmið Bandaríkjanna í Úkraínustríðinu er meðal annars að veikja Rússland. Úkraína fær vopn frá vesturlöndum en notar sína eigin hermenn. Úkraína hefur verið lögð í rúst og er orðin blóðvöllur. Hugmyndir um að Úkraína verði byggð upp á skömmun tíma að stríði loknu eru loftkastalar. Óraunhæfra hugmyndir aðila sem vita betur eða hafa aðra hagsmuni að verja en velferð Úkraínu og þess fólks sem þar býr. Úkraína er fyrst og fremst peð sem fórnað er á altari stórvelda sem eru í samkeppni um heimsyfirráð. Taívan geta beðið svipuð örlög skerist í odda milli Bandaríkjanna og Kína. Stórveldin hafa ekki sýnt að þau vilji eða geti jafnað ágreining sinn með samningum eða samtölum. Þeirra eigin hagsmunir ráða för. Og hótanir um notkun kjarnorkuvopna eru aldrei fjarri. Og tortíming?
Höfundur er prófessor við Háskólann á Akureyri og starfaði hjá Alþjóðabankanum um 12 ára skeið þar á meðal í Evrópu og Asíu.