Eitt mikilvægasta vopnið í baráttunni við loftlagsvandann er innleiðing hringrásarhagkerfis. Núverandi línulegt hagkerfi byggist á ósjálfbærri nýtingu auðlinda og miðast við að framleiða – kaupa – nota – henda – og kaupa nýtt. Það brýn nauðsyn er að endurhugsa allt efnahagskerfið sem hringrásarhagkerfi sem miðast við að hámarka verðmætin og auðlindirnar, auka endurnotkun, almenna flokkun á úrgangi og endurvinnslu til að halda efnislegum vörum og verðmæti þeirra og innihaldi inni í hagkerfishringnum eins lengi og mögulegt er. Hringrásarkerfið, græna leiðin í fjárfestingum og framleiðslu, er ekki bara mun vistvænna kerfi, sem sparar og dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda, heldur líka hagkvæmara fyrir atvinnulífið og hið opinbera til lengri tíma litið. Öll starfsemi og tilgangur SORPU miðar að þessu að kerfi.
Samræming á sorphirðu – stór tímamót framundan
Samkvæmt breytingum á lögum um meðhöndlun úrgangs, sem samþykkt voru í júlí árið 2021 og ætlað er að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis, verður skylt að safna við heimili lífrænum eldhúsúrgangi, plasti, og pappír og pappa. Þá verður einnig skylt að safna textíl, málmum og gleri í nærumhverfi íbúa, hvort sem er við heimili eða í grenndarstöðvum. Breytingarnar taka gildi 1. janúar 2023 sem verða stór tímamót í umhverfismálum á Íslandi. Með þessu verða miklar breytingar á sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu og um land allt, en þetta styður enn frekar við hringrásarhagkerfið.
Ný, fjögurra flokka skipting við öll heimili
Til þess að skoða útfærslur á samræmdu úrgangsflokkunarkerfi á höfuðborgarsvæðinu var settur á laggirnar starfshópur skipaður tæknimönnum frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, fulltrúa frá SSH og starfsmönnum SORPU. Í nýjum tillögum starfshópsins er lagt er til að komið verður uppi neti stærri og smærri grenndarstöðva á svæðinu í öruggri göngufjarlægð og í alfaraleið þar sem tekið verður við gleri, skilagjaldsskyldum umbúðum, málmi og textíl. Gert er ráð fyrir að smærri stöðvunum verði dreift um svæðið með um fimmhundruð metra radíus en stærri stöðvarnar allt að kílómetra.
Allir taki þátt – Við erum öll SORPA
Það er okkar sannfæring að þetta kerfi muni stórauka flokkun og endurvinnslu. Þetta er stórt og mikilvægt umhverfisverkefni og mikilvægt að allir taki þátt. Nú verðum við loksins fær um fullvinna allan lífúrgang og höfum búið vel í haginn með nýju gas- og jarðgerðarstöðina GAJA, sem getur farið að starfa á réttum forsendum með gott hráefni. Flokkun og endurvinnsla er mikilvægt loftlagsmál og með því að taka þátt leggur þú þitt fram í þessu stærsta og mikilvægasta verkefni sögunnar. Við verðum að draga úr úrgangi og auka endurvinnslu. Þetta er verkefni okkar allra. Við erum öll SORPA.
Höfundur er verkefnastjóri hringrásarhagkerfis hjá SORPU.