Fyrsta manngerða sólin gæti verið á leið upp fyrir sjóndeildarhringinn og sent fyrstu sólargeisla endalausrar orku til allra jarðarbúa án kolefnispors eða kjarnorkuúrgangs.
Í umræðu um orkuþörf og orkuskort er nauðsynlegt að horfa vonaraugum til framtíðar og til þeirra möguleika sem komandi kynslóðir hafa til orkuframleiðslu. Einn slíkur möguleiki er þróun samrunaorku, þar sem kjarnar tveggja léttra atóma eru látnir renna saman í einn þyngri. Í grunninn er um að ræða sama hvarf og á sér linnulaust stað á sólinni.
100 milljón gráðu heit sól á jörðinni
Til að koma þessum hvörfum í gang og viðhalda þeim þarf meira en 100 milljón gráðu heitt stöðugt plasma í hvarfahólfi sem haldið er í skefjum með sterkum, orkufrekum seglum og kælibúnaði ásamt ýmsum öðrum búnaði. Tilraunir með slík samrunahvörf hafa þar til nýlega gengið frekar erfiðlega.
Milljarðar Evra og þúsundir manna að vinna að verkefninu ITER
Frá 1985 og til þessa dags hafa margar af stærstu þjóðum heims tekið sig saman og hafið samstarf um tilraunir við kjarnasamruna og að koma á fót kjarnasamrunaofni í Frakklandi. Það samstarf kallast ITER og í það hafa verið settir milljarðar evra og mörg þúsund manns komið að uppbyggingu á einni stærstu tilraun á sviði eðlisfræði. Sá kjarnasamrunaofn á að vera tilbúinn árið 2025. Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sé þá uppbyggingu frekar er bent á heimasíðu verkefnisins, iter.org.
Kínverjar og Suður-Kóreumenn ná árangri
Á síðasta ári og því sem nú er að líða hefur margt gerst sem gefur sterkar vísbendingar um að við nálgumst nýja tíma í orkuframleiðslu hraðar en nokkur gat ímyndað sér. Í Kína tilkynnti Tilraunastofa í ofurleiðni samrunaofna (EAST) að þeim hefði tekist að halda 120 milljón gráðu heitu plasma í 90 sekúndur og hálfu ári seinna að þeim hefði tekist að halda stöðugu plasma við 70 milljón gráðu hita í 17 mínútur. Í Suður-Kóreu tilkynntu vísindamenn við Seuol háskólann og Samrunaorkustofnunina að þeim hefði sumarið 2022 tekist að halda stöðugu plasma við 100 milljón gráður í 30 sekúndur. Á sama tíma eru mikið af opinberum-stofnunum og einkaaðilum um allan heim að keyra tilraunir í tengslum við kjarnasamrunaorku. Það verður fróðlegt að sjá hvort nýjar uppgötvanir/lausnir spretti upp úr þeim tilraunum.
Ef tilraun með kjarnasamrunaofn ITER í Frakklandi árið 2025 gengur eftir þá er áætlað að ofninn muni þurfa 50 megawött til að keyra hvarfið en muni gefa frá sér 500 megawött eða tífalda þá orku sem sett er í hvarfið. Þetta gæti gerst á tímabilinu 2025-2035 og líklega fyrr en síðar.
Niðurstaða þessara tilrauna gæti þannig gjörbreytt tilvist mannkyns um alla framtíð. Þá væru samfélög óháð orku, óháð staðsetningu (ef raforkudreifikerfi eru til staðar) og sjálfum sér nóg um vatn og mat. Við þurfum sem samfélag að hugsa fram í tímann og undirbúa okkur fyrir nýja tíma þar sem verðmæti samfélaga byggist á fólki, þekkingu og samfélagsgerðinni. Þannig verðum við að huga að lífsgæðum og þeim aðstæðum sem dregur fólk með verðmæta þekkingu inn í samfélagið. Þannig og eingöngu þannig komumst við í hóp framsæknustu þjóða heims.
Höfundur starfar í djúptækni.