Tveir bræður föður míns létust við sjósókn. Einn við það að togvír slitnaði sem klippti á líf tveggja skipverja, hinn frændi minn fórst í ofsaveðri. Afi minn var kallaður til þegar lík rak á land í kjölfar strands til að sjá hvort hann bæri þar kennsl á son sinn. Hann taldi svo vera en gat þó ekki sagt með fullri vissu. Hinn sjórekni hvílir nú í Fossvogskirkjugarði við minnismerki óþekkta sjómannsins.
Svona sögur eru til í flestum ef ekki öllum fjölskyldum á Íslandi. Sögur sem sýna að öll þjóðin lagði sitt af mörkum oft með átakanlegum hætti við að finna út hverskonar útgerð væri hentugust og hvað þyrfti til í umgengni við þessi oft óblíðu náttúruöfl.
Baráttan við að draga afla úr sjó upp á líf og dauða var má segja okkar frelsisstríð þar sem sókn í sameiginleg fiskimið fólksins í landinu gerði kleift að byggja upp samfélagið sem tók örum framförum fyrir verðmæti auðlinda hafsins.
Skatttekjur sem runnu í sameiginlega sjóði landsmanna gerðu mögulegt að mennta og manna öfluga veðurstofu, landhelgisgæslu og hafrannsóknarstofu sem sameiginlega tryggðu frekara öryggi sjómanna og vernduðu fiskimiðin.
Sú verndun kallaði á landhelgisstríð fleiri en tvö og allur sá rekstur kostaður úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.
Sú barátta var ekki hugsuð til að afhenda fáum fjölskyldum meiri auðæfi en þeim er hollt og ægivald yfir sjávarplássum og gjaldfella þau og þá sem þar búa sýndist þeim svo.
Þjóðareign er orð sem menn hrasa um viljandi þegar hentar þeirra hagsmunum.
Það á líka við um stjórnmálaflokka sem sumir skilja setninguna – auðlind í þjóðareign – eins og ber að skilja hana fyrir kosningar en þegar þeir setjast í ráðherrastóla verður stafaröðin – í þjóðareign – þeim svo loðin og óskIljanleg að kalla þarf til fjölda sérfræðinga til að flækja hana enn frekar.
Þjóð er það mengi fólks sem að langfeðratali hefur verið saman á afmörkuðu svæði með sameiginleg markmið, yfirleitt skilgreint með landamærum, innan sömu landamæra geta þó rúmast mismunandi þjóðir sem má skilgreina erfðafræðilega, menningarlegra eða út frá tungumáli.
Á Íslandi býr einsleit þjóð, hvað svo sem verða kann, og hún svo afmörkuð og skráð að það skóp hugmynd að einu framsæknasta fyrirtæki veraldar á sviði erfðavísinda. Þessi þjóðar gen hafa borgað tíund og skatt svo lengi sem þau muna og eru þær greiðslur eflaust enn til einhvers staðar skjalfestar.
Þar sem íslensk þjóð hefur lagt til fé og séð um að gæta og í seinni tíð rækta með veiðitakmörkunum auðlindir sjávar er það samkvæmt öllum mælikvörðum eign þessarar Þjóðar. Sameiginlegir sjóðir hafa verið notaðir til að halda utan um og varðveita þessa þjóðarauðlind.
Auðlindagjald fyrir veiðirétt, á forsendum eigenda, er sjálfsagt í þessu ljósi þar sem þjóðin á auðlindina og þar með hlutdeild í aflaverðmæti aukinheldur sem sameiginlegir sjóðir kosta alla umsýslu varðandi eftirlit og rannsóknir sem og öryggi sjófarenda.
Með kvótakerfinu hefur fyrirtækjum verið fenginn veiðiréttur á fisk.
Öll hafa þau augljóslega hagnast vel og dafnað.
Þrátt fyrir þessa velgengni hafa sum þessara fyrirtækja lent í siðferðilegum hafvillum og í örvæntingu villunnar eru farin að vega að samfélagssáttmálanum, siðaðra manna samkomulagi, með afsiðandi vinnubrögðum til að réttlæta sinn kúrs. Um þetta má lesa í fréttum og enn bætir í.
Það er skylda fulltrúa þjóðarinnar á Alþingi þar sem þeir úthluta kvótanum og sjá um það regluverk allt, að bregðast við með viðeigandi hætti.
Það er eðlilegt að eigendur auðlindarinnar, við þjóðin, veltum því fyrir okkur hvort veiðirétturinn sé ekki betur kominn hjá aðilum sem telja sig vera hluta af samfélaginu vilja því vel og stuðla að frekari framförum í þágu allra.
Afl stjórnmálaflokka er ekki fólgið í frekjuhundum sem setja fé í kosningasjóði, aflið kemur frá kjósendum sem geta samsvarað sig viðkomandi flokk. Á sama hátt er afl fyrirtækis fólgið í þeim fjölda sem vill eiga við það viðskipti.
Margur dugnaðarforkurinn væri nú með skip sitt og áhöfn á hafsbotni – sama hversu mikið væri spítt á kaðalinn – ef ekki hefðu verið tiltæk kort, vitar, veðurspár og strandgæsla að styðja sig við á siglingum um úfið haf umhverfis landið.
Yfirlæti á hér ekki heima frekar en annars staðar og sókn í sameiginlega auðlind sjávar er samstarfsverkefni.
Íslensk þjóð þarf ekki og á ekki að sætta sig við yfirgang sem er drifin áfram af arði frá hennar eigin auðlindum sem hún er fjárhagslega og tilfinningalega samofin.
Höfundur er myndlistarmaður.