Árangur næst með breiðum samtakamætti, en ekki með ósamstöðu þeirra sem hafa áþekka stefnu en ná ekki að vinna saman að sameiginlegu markmiði.
Það er alveg í góðu lagi og í samræmi við lýðræði að til séu margar stjórnmálahreyfingar. Með því geta virkir þátttakendur unnið saman af sannfæringarkrafti og minna virkir kjósendur valið sér flokk sem fellur best að þeirra eigin skoðunum. Þegar til eru margir stjórnmálaflokkar, þá hlýtur um leið að verða það mikill samhljómur með sumum þeirra að sjá má að þeir stefna að sama marki í megin málum, þótt milli þeirra sé áherslumunur um leiðir og sértæk málefni. Ef fólk lætur sér nægja að vera í „besta“ hópnum og starfa ekki með öðrum hópum sem nærri þeim standa, þá gerist ekki neitt.
Samfylkingin var stofnuð sem hreyfiafl með því að samfylkja þeim stjórnmálaöflum sem eru fús til að stefna í sömu átt, í átt til framfara, jöfnuðar og lýðræðis, með almannahagsmuni að leiðarljósi. Sem betur fer má sjá að það eru fleiri en Samfylkingin sem boða slíka stefnu. Þess vegna er nú tækifæri til að samfylkja þessum stjórnmálaöflum eftir næstu kosningar. Til þess að það takist er líklegast til árangurs að kjósa það afl sem ætlar staðfastlega að kalla fram það besta í öllum þessum öflum og koma hreyfingu á hlutina. Að kjósa Samfylkinguna eru skýr skilaboð til allra um að leggja saman kraftana og fara að ná árangri.
Höfundur er í 19. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.