Mér virðist margir, þar á meðal fólk sem vinnur láglaunastörf, hafa keypt það alltof lengi að launamisrétti stafi af því að lágtekjumenn (aðallega konur) hafi ekki lagt nógu mikið á sig til að afreka að klífa lengra upp launastigann og eigi í sjálfu sér ekki meira skilið. Hafa tekið það gilt að þessi störf séu ekki jafnmikilvæg og annarra, sem hafa hærri tekjur. Hafa kokgleypt að hálaunastörf séu merkilegri, feli í sér meira erfiði og ábyrgð. En nú er þetta að breytast, svo um munar, og raunar hefur sú breyting átt sér þó nokkurn aðdraganda. Fólk gerir sér í auknum mæli grein fyrir að láglaunastörfin eru í raun einhver þau mikilvægustu fyrir samfélagið. Að stjórnmálamennirnir sem þéna margar milljónir á mánuði erfiða ekki í samanburði eins mikið og þeir hafa viljað vera láta, standa sig reyndar oft illa við úrlausn vandamála, eins og mýmörg dæmi sanna, og bera litla sem enga ábyrgð þegar upp er staðið. Enda dregur meirihluti þjóðarinnar þá yfirleitt ekki til ábyrgðar heldur kýs þá sömu aftur og aftur í einhvers konar óskiljanlegri blindni.
Hvernig himinháttlaunaðir stjórnmálamenn hafa geð í sér til að tala um lítið svigrúm til launahækkana, með risaspón uppi í sér, er hulin ráðgáta. Hversvegna komast þeir upp með það, ár eftir ár? Samkenndin nær ekki nema rétt út að þeirra eigin nefbroddi. Þeir tíma einfaldlega ekki að missa spón úr eigin aski og finnst af einhverjum ástæðum að þeir eigi tilkall til miklu stærri spóns en allir hinir. Það er rétt að pólitíkusarnir búa ekki við mikið atvinnuöryggi en þeir eru svo sannarlega ekki einir um það. Hvað skyldu margir hafa misst vinnuna í gegnum tíðina, ekki síst vegna þess hve meirihluti ráðandi pólitíkusa hefur verið veikburða, viljalaus eða glámskyggn á margháttaða ósvinnu, sem viðvarandi fær óáreitt að herja á og leggja undir sig þjóðfélagið. Undantekningarnar - stjórnmálamenn sem hafa til að bera einlægni og heilindi og eru samkvæmir sjálfum sér - sanna alltaf regluna og komast yfirleitt ekki til mikilla valda.
Það eru þó ekki bara þeir sem eru með nokkrar milljónir í mánaðarlaun eða þaðan af miklu meira – sannkölluð ofurlaun – sem þurfa að hugsa sig um. Við gætum öll hjálpast að við að koma auga á raunverulegt réttlæti, gegnumgangandi jöfnuð. Fjöldi Íslendinga kemst ágætlega af og hefur efni á utanlandsferðum, bílakaupum, flottum innréttingum og húsgögnum í fínum húsum og sankar að sér alls konar græjum og ónauðsynlegu dóti.
Hins vegar nær þorri aldraðra og öryrkja á Íslandi ekki að lifa mannsæmandi lífi. Þeir eru niðurlægðir á allan hátt og upplifa sig oft á tíðum sem ölmusumenn. Víða um heim svelta manneskjur unnvörpum, hafa ekki í nein hús að venda, búa í flóttamannabúðum eða eru á flækingi úr einum stað í annan. Hver er allra okkar ábyrgð gagnvart þeim? Gleymum því ekki, að skeytingarleysi þeirra sem aldrei leiða hugann að öðrum en sjálfum sér, firrir okkur hin ekki ábyrgð.
Svo ég horfi í eigin barm. Á dögunum sá ég bol á netinu, frekar dýran, sem ég varð voða hrifin af og fannst ég endilega þurfa að eignast. Ég á samt meira en nóg af bolum og fór að hugsa hversvegna ég notaði ekki frekar aurinn til að hjálpa einhverjum öðrum. Allt um það pantaði ég bolinn ómótstæðilega. Þetta er kannski svolítið hjákátlegt dæmi, ég er ekki að segja að við eigum ekki að leyfa okkur neitt eða njóta lífsins þótt veröldin sé á margan hátt ömurleg. Einungis að við þurfum ekki að fara offari heldur mættum horfa lengra en nef okkar nær. Það er augljóslega mikill stigsmunur og hugsanlega eðlismunur á mér sem keypti flík að óþörfu og ofurlaunamanni sem getur ekki stillt sig um að festa kaup á nýrri einkaþotu, en er þetta ekki í grunninn það sama í raun? Áfergja, hugsunarleysi, sjálfselska, tilætlunarsemi og skortur á samkennd - nema bara í þykjustunni. Ég hefði átt að hlusta á rödd samviskunnar, úr því ég er svo lánsöm að hafa samvisku.
Höfundur er fyrrverandi dagskrárgerðarmaður og verðandi ellilífeyrisþegi.