Seðlabanki Íslands hefur hækkað stýrivexti á þessu ári mun meira en seðlabankar flestra annarra vestrænna ríkja. Markmiðið var að keyra niður verðbólgu, að sagt var. Stýrivextirnir voru 0,75% í byrjun þessa árs en eru nú 5,75%. Á evru-svæðinu eru stýrivextir nú 2%, þeir eru 1,25% í Danmörku, 1,75% í Svíþjóð og 2,5% í Noregi. Þessar þjóðir eru að glíma við svipaðan verðbólguvanda og Íslendingar. Meðaltals verðbólga í OECD-ríkjunum var rúmlega 10% í október sl. Hvers vegna þurfa stýrivextir að vera svona miklu hærri á Íslandi?
Og hver er árangurinn af þessum óvenju miklu hækkunum hér á stuttum tíma? Það má sjá af nýjustu tölum Hagstofunnar um verðbólguþróunina, sem sýnd er á myndinni hér að neðan.
Verðbólgan var farin að aukast lítillega á seinni hluta síðasta árs en tók svo stökk eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar á þessu ári, eins og sést af myndinni. Mánaðarlegar hækkanir verðlags tvölduðust og voru á því róli fram til júlí. Þá dró úr þeim en nú í október jókst verðbólgan á ný um 0,7%.
Verðbólgan fór hæst í 9,9% í júlí en er nú í 9,4%. Er það mikill árangur? Nei, varla.
Hvers vegna er árangurinn svona lítill?
Til að skilja hvers vegna aðgerðir Seðlabankans hafa skipt svona litlu við að ná verðbólgunni niður er nauðsynlegt að horfa til þess hverjar helstu orsakir hennar eru. Þær eru einkum tvær: innflutt verðbólga (vegna innrásarinnar í Úkraínu og vegna truflana í aðfangakeðjum í heimshagkerfinu í kjölfar Kóvid) og óvenju miklar hækkanir á íbúðaverði innanlands.
Hugsunin með stýrivaxtahækkun er að hún slái á þenslu í innlenda hagkerfinu með rýrnun kaupgetu sem hægi á umsvifum og létti á þrýstingi á verðlagið. Ef stærsti hluti innlenda vandans er of mikil eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði (sem hefur hækkað of mikið) þá verður vonin sú að aukinn kostnaður við lántöku fækki þeim sem geta keypt íbúðir. En virkar það?
Skoðum þróun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu á myndinni hér að neðan, sem kemur frá Þjóðskrá og inniheldur tölur til októbers síðastliðins.
Þarna má sjá að gríðarleg hækkun stýrivaxta á árinu hefur ekki breytt miklu um þróun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Þó hefur hægt á hækkunum á sl. þremur mánuðum. Verðið lækkaði lítillega í ágúst eftir að framboð húsnæðis jókst en síðan hefur það hækkað á ný sl. tvo mánuði, en þó minna en áður, eins og grænu súlurnar sýna.
Þetta getur þó ekki talist mikill árangur. Hvers vegna skila þessar aðgerðir ekki meiru?
Ef markmiðið með stýrivaxtahækkun yfir línuna var að fækka mögulegum kaupendum íbúða þá er það eitt og sér mjög ómarkviss aðgerð sem almennt er ekki líkleg til að virka. Það er vegna þess að vaxtakostnaður allra þeirra heimila sem skulda íbúðalán hækkar, en einungis mjög lítill hluti þeirra eru væntanlegir íbúðakaupendur til skemmri tíma. Verulega auknar byrðar eru lagðar á mikinn fjölda fólks sem ekki er að fara að hafa nein áhrif á eftirspurn eftir íbúðum.
Ég hef áður líkt þessum aðgerðum við það að fara á rjúpnaveiðar á skriðdreka. Stór landsvæði eru sprengd og rústuð í þeirri von að tína upp nokkra fugla. Miklu er fórnað fyrir lítið. Fyrst þetta hefur skilað svona litlum árangri hefði mátt sleppa vaxtahækkuninni að hluta eða jafnvel mestu leyti.
Seðlabankinn greip reyndar einnig til annarra aðgerða til að reyna að fækka íbúðakaupendum og þær hafa væntanlega virkað betur en almenna vaxtahækkunin. Það voru hert skilyrði fyrir lántöku, þ.e. lækkuð heimild til veðsetningar við fyrstu kaup íbúða og þrengri viðmið fyrir greiðslumat lántakenda. Þetta er líklegt til að hafa fælt slatta af fyrstu kaupendum frá markaðinum tímabundið, einkum tekjulægri kaupendur. Efnaðri kaupendur láta slíkar aðgerðir ekki hafa mikil áhrif á sig, einkum ef þeir hafa ekki jafn mikla lánsfjárþörf.
Ætla má að sá litli árangur sem hefur náðst í að temja hækkun íbúðaverðs sé vegna þessara seinni aðgerða, hertra lántökuskilyrða. Það er rökrétt. Þær hefði raunar mátt herða meira til að ná betri árangri. Frekari hækkun stýrivaxta myndi litlu skila, eins og fyrri daginn.
En hvers vegna er Seðlabankinn að hækka stýrivexti svona miklu meira en flestir aðrir vestrænir seðlabankar?
Er Seðlabankinn í kjarabaráttu fyrir hönd atvinnurekenda?
Þó þessar hækkanir stýrivaxta hafi skipt litlu til að ná niður verðbólgu almennt og ekki heldur dugað til að lækka íbúðaverð þá hafa þær vissulega rýrt kaupmátt heimila alls þorra launafólks, einkum þeirra sem hafa lægri og milli tekjur og skulda mikið í íbúðarhúsnæði. Kjaraskerðingin nemur tugum þúsunda á mánuði fyrir mjög marga. Hvaða tilgangi þjónaði það fyrst þetta var ekki nauðsynlegt meðal til að ná niður verðbólgunni?
Kjarasamningaviðræður standa nú yfir. Seðlabankinn hefur áður blandað sér í þær með hótunum um að hækka stýrivexti ef þeim sýnist launakröfur á vinnumarkaði vera of miklar – að þeirra mati. Það gerðu þeir eftir að kröfur fyrir gerð Lífskjarasamningsins 2019 voru settar fram. Sá samningur gekk þó eftir og skilaði ágætum árangri fyrir launafólk og fól í sér hóflegar byrðar fyrir atvinnulífið.
Í nýjum kjarasamningi þarf fyrst að ná til baka því sem Seðlabankinn hefur rifið af launafólki með ónauðsynlegri stýrivaxtahækkun og svo að sækja ábatann af hagvextinum sem vissulega er fyrir hendi. Það er þannig búið að lengja brekkuna sem launafólk þarf að klífa til að ná í eðlilega kaupmáttaraukningu. Þetta er því ekki hlutlaust inngrip að hálfu Seðlabankans.
Nú koma samningamenn atvinnurekenda að samningaborðinu og segja að ef launafólk sætti sig ekki við kaupmáttarrýrnun þá muni Seðlabankinn hækka stýrivexti enn meira! Seðlabankinn er þarna kominn í hlutverk eins konar „launalöggu“ sem bannar eðlilegar launahækkanir. Í miklum hagvexti og framleiðniaukningu eins og nú er á kaupmáttur að aukast – ef allt er eðlilegt.
Sjálfsagt segja Seðlabankamenn að þetta sé nauðsyn vegna hás verðbólgustigs. En það er rangt því orsakir verðbólguskotsins sem hófst á þessu ári voru ekki laun íslensks verkafólks, heldur þær sem greint var frá að ofan. Stýrivaxtahækkunin hefur að auki ekki haft nein umtalsverð áhrif til lækkunar verðbólgu eins og hér hefur verið sýnt.
Óeðlilegar hækkanir íbúðaverðs hér á landi 2021-2022 má rekja til misheppnaðrar hagstjórnar á húsnæðismarkaði sem Seðlabankinn á sinn þátt í. Þegar þær eru síðan sagðar gefa tilefni til að rýra kaupmátt alls þorra launafólks þá eru menn komnir illa afvega.
Það er því ástæða til að skora á Seðlabankann að draga til baka umtalsverðan hluta af stýrivaxtahækkuninni til að greiða fyrir gerð kjarasamninga í anda Lífskjarasamningsins sem vel reyndist. Viðeigandi væri að fara með stýrivextina niður á svipað ról og nú er í grannríkjum okkar.
Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi.