Þjóðkirkjan og kristin trú laumuðu sér í sviðsljósið í liðinni viku, líkt og þau gera alltaf annars lagið. Annars vegar varð allt vitlaust í einhverjum kreðsum yfir því að Ríkisútvarpið ætlaði að hætta að útvarpa kristnum bænum, þótt ekkert í lögum segi að slík bænaútsending falli undir hlutverk þess.
Hins vegar skilaði starfshópur sem fjallaði um fyrirkomulag á fjárhagslegum samskiptum ríkis og Þjóðkirkju skýrslu þar sem hann taldi að kirkjan ætti rétt á „leiðréttingu“ á framlögum úr ríkiskassanum þar sem hún hefði alls ekki fengið nóg af skattfé síðustu fimm árin. Starfshópurinn lagði því til að þessi „leiðrétting“ færi fram með þeim hætti að ríkið myndi hækka sóknargjöld til safnaða Þjóðkirkjunnar og vegna annarra kirkjulegra verkefna um samtals 663 milljónir króna á næstu þremur árum. Samhliða verði skerðing á sóknargjöldum dregin til baka þannig að kirkjan fái aftur ásættanlegt fjárstreymi til að reka sinn bisness.
Líkt og alltaf þegar fjármál Þjóðkirkjunnar eða kristniboð í gegnum stofnanir hins opinbera ber á góma í almennri umræðu snýst hún nær samstundis að stóru spurningunni sem rifist hefur verið um hérlendis áratugum saman: á að aðskilja ríki og kirkju?
Vill fólk Þjóðkirkju?
Aðdáendur ríkisvæddrar kristnitrúar telja sig hafa fengið nýtt vopn í hendurnar í þessari umræðu með niðurstöðu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá sem fram fór í október 2012. Þar var ein spurningin orðuð með eftirfarandi hætti: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um Þjóðkirkju á Íslandi?“. Alls sögðu 51 prósent þeirra sem svöruðu þessari spurningu að þeir vildu slíkt ákvæði en 38 prósent sögðu nei.
Nú er það svo að spurningin er mjög ruglingsleg. Og ég veit um nokkra sem svöruðu henni með já-i þrátt fyrir að vera miklir fylgismenn aðskilnaðs ríkis og kirkju. Þeir skildu spurninguna ranglega þannig að ef þeir segðu já myndi ákvæði vera í stjórnarskrá sem staðfesti að hérlendis ætti ekki að vera Þjóðkirkja. Þess utan var voru fæst já á bakvið þessa spurningu af þeim sex sem spurt var um í atkvæðagreiðslunni. Einungis 24,6 prósent þeirra sem voru á kjörskrá þennan októberdag í hitteðfyrra svöruðu henni játandi.
Þá er athyglisvert að þeir sem hafa ákveðið að nota niðurstöðu stjórnlagaráðskosninganna til að styrkja málatilbúnað sinn um ríkisrekna kirkju og ríkisrekið kristniboð í nafni menningar og siðgæðis eru að stórum hluta aðilar sem hafa fundið öðrum tillögum að stjórnarskrárbreytingum allt til foráttu. En tilgangur helgar auðvitað meðalið.
Mikill meirihluti fylgjandi aðskilnaði
Það eru til aðrir mælikvarðar á vilja þjóðarinnar til að borga undir hið kristna fyrirtæki sem Þjóðkirkjan er. Capacent Gallup hefur til dæmis kannað hug landsmanna gagnvart aðskilnaði ríkis og kirkju árlega um mjög langt skeið. Í könnunum þeirra er spurningin mjög skýr: Ert þú hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju?
Í könnun Capacent frá árinu 1996 kom i ljós að 53 prósent voru fylgjandi aðskilnaði en 31 prósent á móti. Restin var óákveðin. Í könnun árið 2003 voru 51 prósent fylgjandi aðskilnaði en 30 prósent á móti. Árið 2003 voru 59 prósent fylgjandi aðskilnaði en 29 prósent á móti. Árið 2009 voru 60 prósent hlynnt aðskilnaði en 20 prósent á móti. Árið 2012 voru 59 prósent hlynnt aðskilnaði en um fimmtungur var á móti. Þegar aðeins eru skoðaðir þeir sem taka beina afstöðu þá er hlutfall þeirra sem hafa verið hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju síðustu tvo áratugi yfir 70 prósent.
Íslendingar flykkjast úr Þjóðkirkjunni
Þess utan er athyglisvert að skoða hversu stórt hlutfall landsmanna eru meðlimir í Þjóðkirkjunni. Nú ber að minna á að það er ekki valkvætt að verða skráður í hana, heldur eru allir nýburar skráðir í trúfélag móður. Þannig er fjölda þeirra sem tilheyra þessum söfnuði haldið við með lögum. Þetta fyrirkomulag er mjög fjárhagslega mikilvægt fyrir Þjóðkirkjuna því það fær greidd sóknargjöld fyrir hvern skráðan safnaðarmeðlim. Í ár eru þau áætluð um 2,1 milljarður króna. Til að losna undan því að greiða til Þjóðkirkjunnar þarf einstaklingur sem fæddur er þangað inn því að skrá sig sérstaklega úr henni.
Þrátt fyrir þessa innbyggðu viðskiptavinafjölgunarvél hefur Þjóðkirkjunni ekki tekist að haldast vel á fólki undanfarin misseri. Árið 1992 voru 92,2 prósent landsmanna skráðir í Þjóðkirkjunni. Um aldarmótin var það hlutfall komið niður í 89 prósent og í dag er það 75 prósent.
Ríkistrúarmenn segja oft að þetta sé afleiðing af því að innflytjendum sem hafi aðra trú hafi fjölgað hérlendis. Sú röksemd stenst ekki nánari skoðun. Þeir sem eru í Þjóðkirkjunni eru nefnilega þrjú þúsund færri en þeir voru árið 2000 og fimm þúsund færri en þeir voru árið 2008. Þeir Íslendingar sem kjósa að standa utan Þjóðkirkjunnar hefur fjölgað úr 30.700 um aldarmótin í 81.417 í ár.
Þjóðin er því, nokkuð hratt, að yfirgefa Þjóðkirkjuna sem hún er samt að stórum hluta fest inn í við fæðingu.
Kostar 4-5 milljarða á ári
Fyrir utan þær 663 milljónir króna af skattfé sem Þjóðkirkjan telur sig snuðaða um, og vill fá leiðréttingu vegna, þá kostar rekstur hennar íslenska skattgreiðendur skildinginn. Á þessu ári gera fjárlög ráð fyrir að 1.474 milljónir króna renni til Þjóðkirkjunnar úr ríkissjóði. Auk þess munu 247 milljónir króna fara til Kirkjumálasjóðs, 73 milljónir króna í Kristnisjóð, 320 milljónir króna til jöfnunarsjóðs sókna og svo auðvitað um 2,1 milljarður króna í sóknargjöld. Samtals greiðir ríkið því um 4,2 milljarða króna á ári fyrir ríkistrúna. Fyrir utan þennan kostnað kostar rekstur kirkjugarða tæpan milljarð króna.
Það er því brálæðislegur sparnaður fólginn í því að aðskilja ríki og kirkju. Fyrir stjórnvöld sem tala digurbarklega um hallalaus fjárlög og bruðl ríkisstofnanna ætti þetta að vera liður sem þau ættu að skoða gaumgæfilega.
Hvað er hægt að gera?
En er hægt að aðskilja ríki og kirkju? Í stuttu máli er svarið við því já. Mesta flækjustígið yrði vegna eigna sem kirkjan lét inn í ríkissjóð árið 1907 með samningi sem var staðfestur með lögum 90 árum síðar. Í grófum dráttum snýst samningurinn um að ríkið fékk eignirnar en samþykkti á móti að greiða laun presta. Hægt er að vinda ofan af þessum samningi með ýmsum hætti. Rökréttast væri líklegast að gera Þjóðkirkjunni tilboð vegna eignanna. Ef hún myndi hafna því gætu dómstólar skorið út um hver væri réttmæt endurgreiðsla. Ríkið gæti líka reynt að slíta áskrift kirkjunnar af skattfé án þess að bjóða henni neitt í staðinn og sjá hvernig dómstólar myndu fara með kröfu hennar. Til langs tíma myndi þetta að minnsta kosti alltaf borga sig fyrir ríkissjóð.
Auk þessa þyrfti að breyta stjórnarskrá á þann veg að í henni væri tiltekið að aðskilnaður væri milli ríkis og kirkju. Það er mjög gerlegt. Það er því spurning um vilja, ekki getu í þessum málum. Hafa stjórnmálamenn vilja og þor til að stíga þetta skref? Hingað til hefur svarið við þeirri spurningu allltaf verið nei.
Á að vera Þjóðkirkja á Íslandi?
Ég hef ekkert á móti kirkjum, prestum eða trúarbrögðum yfir höfuð, þótt helgislepjan og tilgerðarlegt og yfirlætisfullt mjúkmælgið fari stundum í taugarnar á mér. Það er fullkomlega eðlilegt og réttlætanlegt að til sé fyrirtæki sem bjóði upp á þessa þjónustu, enda augljóst að það er eftirspurn eftir henni.
Það sem truflar mig er að allir séu látnir borga fyrir þjónustu sem einungis sumir nýta sér og er fjarri því að vera hluti af grunnstoðum þess velferðarsamfélags sem almenn samfélagsleg sátt virðist vera um að halda uppi hérlendis. Það þurfa allir á menntun að halda, og þess vegna rekur hið opinbera menntakerfi. Við þurfum öll á samgöngukerfi að halda, og þess vegna byggir hið opinbera vegi. Við þurfum öll á heilbrigðisþjónustu að halda, og þess vegna fer stór hluti af sameiginlegum sjóðum okkar í að halda uppi slíkri. Og við þurfum á löggæslu- og dómskerfi að halda til að framfylgja samfélagssáttmálanum sem lög landsins móta. En við þurfum ekki trú.
Í grunninn er málið því einfalt. Er það hlutverk ríkis að borga marga milljarða króna undir félagsskap sem trúir því meðal annars að þeir sem honum finnst góðir fari til himna, þeir sem honum finnst vondir fari til helvítis, að sérstakir menn gangi á vatni án þess að drukkna og breyti þess á milli vatni í vín án eimingartækja? Félagsskap sem er ekki leiðandi gæskuafl heldur hefur aðlagast, með miklum trega og mótspyrnu, siðferðislegum framförum í samfélaginu sem hafa átt sér stað þrátt fyrir hann, ekki vegna hans?
Mitt svar er nei. Og ég hef nokkuð vel rökstuddan grun um að mikill meirihluti landsmanna sé sammála mér.