Íslenskar rannsóknir á steinsteypu hófust ekki fyrr en upp úr miðri tuttugustu öldinni eins og höfundur lýsti í grein í Kjarnanum fyrr á þessu ári. Þær fóru fyrst fram í Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins ( Rb.) og síðar hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands ( NMÍ ). Upphafsmaður rannsóknanna var Haraldur Ásgeirsson framkvæmdastjóri Rb. en þær urðu miklar og árangursríkar undir hans stjórn og sérfræðingateymis á vegum Iðnaðarráðuneytisins, sem nefnt var Steinsteypunefnd. Viðamestar voru rannsóknir á áður lítt þekktum skemmdavaldi í steypu, sem nefndur var alkalíþensla. Þessi skemmdavaldur þótti það alvarlegur á heimsvísu, að mynduð voru alþjóðasamtök vísindamanna á sviði steypurannsókna til að finna vörn gegn honum. Á vegum þeirra var haldin árleg ráðstefna um málefnið ( International Conference on Alkali-Aggregate Reaction, ICAAR ), sú fyrsta árið 1974 í Danmörku. Vegna efnasamsetningar sementsins frá hinni nýju Sementsverksmiðju ríkisins (Sr.) á Akranesi var talin veruleg hætta á alkalíþenslu í viðamiklum virkjana- og hafnarframkvæmdum, sem voru á áætlun síðustu áratugi aldarinnar. Um þetta leyti var starfsemi Rb. að hefjast. Haraldur Ásgeirsson hóf þegar samvinnu við samtökin og var önnur ráðstefna þeirra haldin hjá Rb. í Reykjavík árið 1975. Í fyrirlestrum íslendinga þar var sýnt fram á að hugmynd Haraldar Ásgeirssonar um að notkun fínmalaðra jarðefna með svonefnda possólan eiginleika ( t.d. gosefna ), hefðu ásamt því að þétta steinsteypuna fyrirbyggjandi áhrif á skaðlegar alkalíþenslur. Alkalí- verkefnið gekk vel og kom stofnuninni þegar á gott skrið og voru steypurannsóknirnar hennar aðalsvið út öldina, sérstaklega eftir að stofnunin fór að rannsaka iðnaðarpossólan, mjög fínkorna ryk sem myndaðist við útblástur úr ofnum Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga (Íj.). og nefnt var kísilryk Sementsverksmiðja ríkisins ( Sr. ) nýtti svo niðurstöður þessara rannsókna til þess að framleiða nýjar sementstegundir. Hún varð fyrst í heiminum til þess að framleiða sement íblandað kísilryki og fá það viðurkennt í sementsstaðal Evrópusambandsins. Þá framleiddi Sr. sérstakt possólansement , sem nefnt var Blöndusement, sennilega fyrsta þríþátta sementið ( sementsgjall + tvær possólantegundir ) með kísilryki sem possólaníblöndun.
Af framangreindu má sjá að íslenskar steypurannsóknir, sérstaklega hvað varðar nýtingu efna með possólaneiginleika í sementið, hafa kynnt íslenska rannsóknastarfsemi á alþjóðavettvangi og einnig geta þær haft enn frekari æskileg áhrif í framtíðinni, ef nýting náttúru-possólana verður eins mikil og nú lítur út fyrir, vegna aðsteðjandi loftslagsvanda. Nú liggja þessar rannsóknir að mestu leyti niðri eftir lokun Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands (NMí ) og vildi undirritaður í fyrrnefndri grein lýsa áhyggjum og gagnrýni á þá skipan mála.
Í þessari grein vill höfundur vekja athygli á sértakri rannsóknastarfsemi, sem Sr. og Íslenska járnblendiverksmiðjan ( Íj. ) starfræktu árin 1985 – 1995 á Akranesi, til þess að finna nýja möguleika til gerðar og nýtingar steinsteypu með kísilryksíblöndun. Um þetta var stofnað samvinnufyrirtæki, sem hlaut nafnið Sérsteypan s.f.
Aðdragandi að stofnun Sérsteypunnar s.f.
Sementsverksmiðja ríkisins hóf starfsemi um mitt ár 1958. Íslenska járnblendifélagið var stofnsett árið 1975 og hóf starfsemi árið 1979. Á undirbúningsstigi sem hófst árið 1972 var mikið rætt um hvað gera skyldi við mikið magn kísilryks frá bræðsluofnunum, sem fangað skyldi í pokasíur. Var helst rætt um að urða rykið, en það þótti slæmur kostur frá umhverfissjónarmiði. Sr. fékk rykið til skoðunar, þar sem vitað var að nota mætti það sem bætiefni í steinsteypu.
Tæknimenn Sr. og Íj. skynjuðu þegar þá möguleika sem í þessu fólust. Á rannsóknastofum verksmiðjanna var hafist handa við að gera tilraunir með múr, sem í var blandað auknu magni af kísilryki og síðar einnig plasttrefjum. Plasttrefjarnar veittu múr úr þessum blöndum mikinn sveigjanleika. Á árunum eftir 1980 var mikið hugað að hentugum viðgerðarefnum fyrir steypuskemmdir, sem voru mjög áberandi á þessum árum. Mikill innflutningur á þessum efnum var þá orðinn til landsins. Áhugavert þótti að athuga hvort múrblöndur með háu kísilryksmagni með eða án trefja hentuðu til notkunar í viðgerðarefni og tilbúnar múrblöndur. Fyrst í stað störfuðu tæknimenn fyrirtækjanna að þessum tilraunum sitt í hvoru lagi, en brátt varð ljóst að best væri að sameina þetta þróunarstarf með stofnun sérstaks fyrirtækis, sem væri í sameiginlegri eigu beggja fyrirtækjanna, Sementsverksmiðju ríkisins og Íslenska járnblendifélagsins hf. Lög Sr. leyfðu fyrirtækinu reyndar aðeins að framleiða og selja sement, en stjórn Sr. fékk leyfi Iðnaðarráðuneytisins til að stunda rannsóknir á aðferðum og framkvæmdum tengdum steypunotkun eins og þekkt var í nágrannalöndunum. Íj. sem hlutafélag þurfti aftur á móti ekki á slíku leyfi að halda, þó að það væri að hluta í eigu hins opinbera.
Hinu nýja fyrirtæki voru sett eftirfarandi markmið:
a) Að leita leiða til aukinnar notkunar sements og kísilryks í byggingariðnaði og mannvirkjagerð
b) Að þróa aðferðir til að framleiða efni og efnablöndur í ýmsar tegundir steinsteypu sem hafi sérstaka eiginleika umfram venjulega steinsteypu ( sérsteypa ).
c) Að þróa aðferðir og framleiða markaðsvörur úr sérsteypu eftir því sem þarfir markaðarins og eiginleikar sérsteypunnar geta gefið tilefni til.
d) Að ýta undir framleiðslu hjá öðrum aðilum á vörum úr sérsteypu.
Sérsteypan s.f.
Sérsteypan s.f. hóf starfsemi í byrjun árs 1985. Framkvæmdastjóri var ráðinn Njörður Tryggvason verkfræðingur, en hann fékk tveggja ára leyfi frá Verkfræði- og teiknistofunni s.f. sem hann hafði áður veitt forstöðu í 20 ár. Í stjórn voru sex einstaklingar, þrír frá hvoru fyrirtæki. Iðnaðarhúsnæði fékkst leigt fyrir starfsemina að Kalmansbraut 3 á Akranesi. Eigendur lögðu hinu nýstofnaða fyrirtæki fé til starfseminnar í byrjun.
Auk Njarðar voru ráðnir 5 aðrir starfsmenn fyrsta starfsárið, þrír reyndir iðnaðarmenn og tvennt á skrifstofu. Síðar voru tveir tæknimenn ráðnir í hálft starf.
Verkefni Sérsteypunnar:
Rannsóknarverkefni Sérsteypunnar skiptust í fjögur meginsvið:
- Vega- og gatnagerð
- Múrblöndur
- Íslenska múreinangrunarkerfið ( Ímúr – kerfið )
- Trefjasteypa
Rannsókna- og tilraunastarfsemi Sérsteypunnar beindist aðallega að þessum þremur flokkum. Mest fór fyrir grunnrannsóknum fyrstu þrjú starfsárin ( 1985 – 1987 ). Var nauðsynlegra rannsóknartækja aflað en möguleikar nýttir hjá verksmiðjunum og Rb., þar sem á vantaði. Síðari starfsár Sérsteypunnar var meira unnið að framkvæmd stærri tilrauna og verkefna, t.d. framleiðslu á múrblöndum, byggingarhlutum úr trefjasteypu svo og að markaðsmálum á þeim vörum og þekkingu, sem fram komu í starfseminni. Sérsteypunni var í upphafi aðeins ætlað að þróa aðferðir og vörur sem gætu styrkt og aukið markað fyrir afurðir eigendanna en hvorki framleiðslu- né markaðshlutverk. Síðan var hugmyndin að Sérsteypan seldi framleiðslu- og söluleyfi til annara fyrirtækja. En þar sem engir aðilar reyndust vera fyrir hendi í landinu að þróunarvinnunni lokinni, sem nýta vildu þau tækifæri sem fólust í niðurstöðum hennar, færðust þessi tvö hlutverk smám saman og sjálfkrafa á hendur Sérsteypunni. Þannig sá fyrirtækið sjálft um allar tilraunir, sem framkvæmdar voru í vegagerð, t.d. með þjappaðri þurrsteypu. Komið var upp framleiðslutækjum fyrir alls konar tilbúnar múrblöndur og tilraunaframleiðsla hófst á ýmsum vörum úr trefjasteypu í húsakynnum Sérsteypunnar. Árið 1989 dró Íslenska járnblendifélagið sig út úr rekstri Sérsteypunnar en Sementsverksmiðjan styrkti áfram rekstur fyrirtækisins. Það ár hóf Sérsteypan samvinnu við fyrirtækið Sand hf. í Reykjavík en það var stærsta fyrirtækið á landinu við öflun sands í múrverk. Einnig var þá hafin náin samvinna við Steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki en eingöngu var notuð einangrunarsteinull þaðan í íslenskt múrkerfi og veggeiningar, sem þróaðar voru af Sérsteypunni. Samvinnan við þessi tvö fyrirtæki var ekki síst valin vegna styrks þeirra á því markaðssviði, sem þróun og vörur Sérsteypunnar voru á. Iðnaðarráðuneytið gaf Sr. svo leyfi haustið 1989 til að gerast hluthafi í hlutafélögum. Upp úr því stofnaði Sérsteypan ásamt Sandi hf. og Steinullarverksmiðjunni hf. nýtt fyrirtæki árið 1990 sem hlaut nafnið Íslenskar múrvörur, stytt Ímúr.
Vega- og gatnagerð:
Árið 1985 voru gerðar tilraunir með nýja gerð vegasteypu, svonefnda þjappaða þurrsteypu, á ensku „roller compacted concrete” ( RCC ). Steypan er grófgerð og sementsrýr ( um 100-150 kg/m3 í stíflumannvirki, 200-300 kg/m3 í slitlög) og með mjög litlu vatnsmagni. Því verður hún þurr og erfið til niðurlagningar. Hún er lögð niður með malbikunarvélum og titruð og völtuð eftir útlagningu hliðstætt því sem gert er við útlögn malbiks. Kostir þessarar steypu er að hún er ódýr ( lágt sementsmagn ) en nær góðum styrk og það má setja umferð á hana strax eftir niðurlögn. Annar kostur er að nota má sama útlagnigarbúnað og fyrir malbik, sem auðveldar það mjög að hefja notkun á nýju slitlagsefni.
Sérsteypan gerði fyrst tilraunir með þjappaða þurrsteypu á bílastæðum og gólfflötum iðnaðarhúsnæðis með góðum árangri.
Þá voru einnig gerðar nokkrar tilraunir með þjappaða þurrsteypu í gatnaslitlög með misjöfnum árangri. Sérstök tilraun var gerð í samvinnu við Vegagerð ríkisins með nýja gerð þjappaðrar þurrsteypu í gatnagerð. Þessi aðferð og búnaður til niðurlagningar var þróuð hjá dönsku sementsverksmiðjunni Ålborg Portland Cement. Tilraunin gekk ekki vel og aðferðin ekki notuð frekar. Þá var gerð tilraun í samvinnu við Vegagerðina með festun og styrkingu vega með sementi. Var búnaður fluttur inn frá Þýskalandi og gekk sú tilraun vel og var notuð af Vegagerðinni í framhaldinu.
Auk notkunar þjappaðrar þurrsteypu í gatna- og vegagerð var vitað að hún hafði verið notuð erlendis í stíflugerð vatnsorkuvirkjana. Sérsteypan gerði því tilraunir og hönnun að notkun hennar í stíflu Blönduvirkjunar. Til framkvæmda kom þó ekki, en aftur á móti var þjöppuð þurrsteypa síðar notuð í távegg framan við uppistöðuvegg Kárahnjúkavirkjunar.
Múrblöndur
Ástæða fyrir því að Sérsteypan hóf rannsóknir á tilbúnum blöndum fyrir múrhúðun og viðgerðir á steypu var, að vegna hins smáa markaðar hér á landi hafði lítil iðnvæðing farið fram á múrverki. Í nágrannalöndunum var tæknivæðing múrverksins aftur á móti orðin veruleg. Þá var þörfin á viðgerðarefnum vegna steypuskemmda einnig orðin mikil.
Þegar árið 1985 voru gerðar fyrstu tilraunir með ásprautun múrblandna, sem innihéldu mismunandi magn af kísilryki. Einnig voru tilraunir gerðar með sérstakar viðgerðablöndur fyrir sprungna steypu. Reyndir múrarameistarar á Akranesi framkvæmdu tilraunirnar.
Þegar leið á árið 1987 var ljóst að húsnæðið að Kalmansbraut 3 var of lítið fyrir þá starfsemi sem þar fór fram. Keypt var viðbótarhúsnæði í sömu byggingu til að setja upp litla blöndunarstöð fyrir múr- og viðgerðablöndur. Fengu blöndurnar þá sameiginlegt nafn og voru nefndar Semkís-blöndur ( sement – kísilryk ).
Í byrjun var blöndunum komið í sölu í verslunum á Akranesi og Reykjavík í takmörkuðu magni, bæði til umsagnar og gagnrýni. Voru þær ýmist pakkaðar í plastfötur eða bréfpoka.
Framleiðsla og meðhöndlun á þróuðum viðgerða- og múrblöndum var nýjung hér á landi . Erlendis var notkun slíkra blandna orðin mjög fullkomin og sérstaklega var meðferð og notkun á blöndunum tæknilega framþróuð. Við framleiðslu blandnanna hjá Sérsteypunni var þýskt fyrirtæki haft með í ráðum.
Fyrirtækið hét Mathis Technik GmbH, til húsa í Neuenburg skammt frá Freiburg í Þýskalandi. Það fyrirtæki hafði auk framleiðslu á hinum ýmsu blöndum þróað dælubúnað til flutninga á blöndunum í lausu máli með loftþrýstibúnaði líkum þeim, sem notaður er við flutning á lausu sementi. Er þá blöndunum eftir framleiðslu komið í stálgeyma en úr þeim er þeim svo dælt á tankbíla. Bílarnir flytja svo blöndurnar í geyma á byggingarstað. Múrsprautur, sem blöndunum er sprautað með á veggi, loft og gólf, voru einnig þróaðar af þessu fyrirtæki. Þær eru tengdar við þessa geyma.
Upphaflega var notaður innfluttur kvartssandur í Semkís blöndurnar en fljótlega var farið að nota íslenskan sand í þær. Aðalefnin í blöndunum voru þá öll íslensk; sandur, sement og kísilryk, og því var nauðsynlegt að gera tilraunir og þróa séríslenskar blöndur, sem hentuðu hérlendum byggingariðnaði. Þetta var haft að leiðarljósi við framleiðsluna.
Með tímanum fjölgaði Semkísblöndunum og voru þær orðnar rúmlega 30 þegar Sérsteypan hætti framleiðslu þeirra. Var heitum á blöndunum skipað niður í nafnalykil eftir notkunarsviði þeirra. Þannig voru allar múrblöndur merktar með M og númeri, t.d. Semkís M-100 sem var grunnblandan.Múrblöndutegundirnar urðu alls sjö talsins, til alls konar notkunar í múrverk. Viðgerðarblöndurnar urðu sex að tölu og voru merktar með V. Var grunnblandan Semkís A nefnd Semkís V-100 í nýja kerfinu. Þá voru á markaðnum ýmis Semkís hjálparefni og þar að auki blöndur til ýmiss konar nota. Setti Sérsteypan saman vöruskrá og vandaða leiðbeiningabæklinga fyrir hverja blöndu sem komið var svo saman í veglega kynningarmöppu.
Hér að framan er því lýst að viðgerðablöndur Sérsteypunnar og aðrar múrblöndur voru nýjung hér á landi. Er þar átt við hversu frábrugðnar þær voru þeim fáu íslensku múrblöndum sem voru til sölu hérlendis áður en Sérsteypan kom til, þróaðri og sérhæfðari. Því til viðbótar kom fullkomin tækni við notkun þeirra, sem var vel þekkt víða erlendis en ekki hér. Þess ber að geta að til fjölda ára hafði Fínpússning hf. í Reykjavík framleitt tilbúinn múr og selt í bréfpokum.
Íslenskt múreinangrunarkerfi, Ímúrkerfið
Snemma var farið að huga að því að nýta trefjabundnar múrblöndur úr framleiðslu Sérsteypunnar til notkunar á einangrun utanhúss. Þessi aðferð, að einangra hús að utan og setja múrhúð til hlífðar einangruninni er vel þekkt erlendis og er betri og hagkvæmari en einangrun innanhúss. En til þess að utanhússeinangrun sé nothæf þarf hlífðarefnið að vera vel vatnsþétt, sérstaklega í votri og vindasamri veðráttu eins og er hér á landi. Til hlífðar er þá oft notuð klæðning úr málmi, plasti eða tré og svo trefjabundnum múr.
Einangrun að utan gefur jafnari og betri varmaeinangrun, útilokar kuldabrýr og eykur þar með þægindi og orkusparnað. Hún hlífir útveggnum fyrir áhrifum veðrunar og kemur í veg fyrir hreyfingar af völdum sífelldra hita- og rakabreytinga.
Erlend múreinangrunarkerfi sem komu til sögunnar hér á landi upp úr 1980 (akrýl-kerfi) höfðu ekki sýnt þá endingu, sem til var ætlast og ýtti það undir þörfina að finna betri lausn fyrir íslenskar aðstæður. Því þótti nauðsynlegt að finna séríslenskt múrkerfi, sem stæðist kröfur um endingu. Hófst nú vinna við þróun á þannig múrkerfi á vegum Sérsteypunnar.
Árið 1990 fólu Sérsteypan og Steinullarverksmiðjan verkfræðistofunni Línuhönnun hf. að gera viðamikla úttekt á húsum sem klædd voru með íslenska múrkerfinu, jafnframt því sem fleiri rannsóknir voru gerðar á því kerfi með styrk frá Rannsóknaráði ríkisins.
Dr. Ríkharður Kristjánsson hjá Línuhönnun var upphafsmaðurinn að þeirri grundvallarbreytingu á hefðbundna íslenska múrkerfinu, að hverfa frá því að hafa einangrunina innan á steyptu veggjunum og einangra þá að utan í staðinn.
Niðurstöður Línuhönnunar voru að kerfið hentaði mjög vel við íslenskar aðstæður og í framhaldi af því gerði verkfræðistofan nákvæma og endurbætta verklýsingu á framkvæmd við múrverkið.
Kerfið er þannig upp byggt að fyrst eru harðpressaðar steinullarplötur ( Ímúr - plötur) festar á steyptan vegg með sérstakri gerð af múrtöppum. Á tappana er fest og strengt heitsinkhúðað bendinet úr stáli. Festingu þess við tappana tryggir sinkhúðuð skinna, sem fylgir tappanum ásamt fjarlægðarklossa úr plasti sem tryggir rétta staðsetningu netsins í múrkápunni, sem kemur utan á steinullina.
Eftir uppsetningu steinullarplatnanna og festingu og strengingu netsins er trefjabundnum undirmúr sprautað eða smurt í netið í 15 mm þykkt. Þegar undirmúrinn ( burðarlagið ) hefur harðnað nægjanlega ( eftir u.þ.b. þrjár vikur ) er trefjabundnum yfirmúr sprautað eða smurt yfir undirmúrinn. Þykkt yfirmúrsins er u.þ.b. 10 mm. Heildarþykkt múrlagsins er þá 25 mm og má hafa á honum margs konar yfirborðsáferð, t.d málningu, steiningu o.fl.
Í múrkerfinu eru notuð tilbúin vatnsbretti úr trefjasteypu, sem Sérsteypan framleiddi til frágangs undir glugga o.þ.h. Brettin voru í ýmsum breiddum en 1 cm þykk að meðaltali. Að framan eru þau 2 cm þykk með ávölum rúningi og í þau fræst vatnsnót.
Þegar íslenska múrkerfið hafði gengið í gegn um tilrauna- og þróunarferil var gefin út verklýsing fyrir það árið 1991 og var kerfið nefnt Ímúr-klæðning, íslenskt múreinangrunarkerfi. Ímúr-klæðningin náði fljótt miklum vinsældum og var hún lögð á um 8.000 m2 árið 1992 og 16.000 m2 árið 1993.
Ný verktækni hefur fylgt í kjölfar þróunar múrkerfisins. Þessi tækni var fyrir hendi í nágrannalöndunum og var tækjakostur Sérsteypunnar sóttur til Þýskalands eins og áður getur. Tæknin fól í sér að þurrblöndur Sérsteypunnar voru fluttar í stórum sílóum á sérbúnum flutningabílum frá blöndunarstöðinni að byggingarstað. Þar var dælubúnaður sem blés blöndunum að múrdælu. Í henni var múrblandan blönduð vatni og múrefjunni sprautað á flötinn með múrsprautu áfastri dælunni.
Þegar svona flutnings – og múrsprautu – kerfi fer að virka rétt, þarf lítinn mannafla við múrhúðunina og hagkvæmni hennar vex. Þá batnaði vinnuumhverfi múrara mikið, sem oft var heldur sóðalegt.
Trefjasteypa:
Eitt aðalverkefnið sem Sérsteypan kom að var gerð ýmissa byggingarhluta úr múr blönduðum trefjum. Var notaður sementsríkur múr með íblöndun auka kísilryks og notkun þróaðra þjálniefna. Í múrinn voru notaðar ódýrar plasttrefjar sem heita Krenittrefjar. Þær eru úr pólýprópýlon ( polypropylene ), 6-12 mm langar, bæði fínar og grófar. Mun góð reynsla og styrkur Krenittrefjanna hér á landi byggjast á þéttleika sementsefjunnar, þar sem kísilrykið er áhrifavaldur. Trefjarnar sem notaðar voru komu frá danska fyrirtækinu Danaklon A/S og voru trefjarnar bæði keyptar sem lausar trefjar og trefjamottur. Trefjamotturnar voru notaðar hjá Sérsteypunni í framleiðslu á þunnum plötum. Þessar plötur sýndu óvenju mikinn sveigjanleika án þess að brotna. Krenittrefjarnar voru nefndar eftir danska hönnuðinum Herbert Krenkel sem þróaði þær og notkun þeirra. Var nafnið samsetning úr nafni hönnuðarins og eternit sem er múrblanda úr sementi og asbesttrefjum og notað í framleiðslu á klæðningsplötum.
Eitt fyrsta verkefnið við notkun trefjasteypu var gerð flotkassa fyrir flotbryggjur, sem mörg bæjarfélög voru að koma upp hjá sér um það leyti sem Sérsteypan hóf starfsemi. Flotkassarnir voru steyptir í trémótum. Í mótunum var komið fyrir fjórum teningum úr frauðplasti en skel úr trefjasteypu steypt utan um þá. Í botninum og til hliðanna var þykkt trefjasteypunnar 30 mm en ofan á teningunum þ.e. gólfið á flotkössunum var hún 40 mm. Til styrkingar var svo steyptur krossveggur milli frauðplastteninganna fjögurra og var veggþykktin þar 20 mm.
Sumarið 1985 var hafin hönnun, mótasmíði og tilraunaframleiðsla á stóru fiskeldiskeri úr trefjasteypu. Á þessum tíma var mikil gróska og áhugi í fiskeldimálum hér á landi og mörg fyrirtæki að hefja fiskeldi. Markaðsútlit fyrir sölu á einingum í fiskeldisker var því gott.
Út frá því hversu vel gekk með uppsetningu kersins á Grundartanga var sett í gang rannsókna- og hönnunaráætlun í samvinnu við verkfræðistofuna Línuhönnun. Þá voru framleiddar almennar einingar og tilraun gerð með þær á leðjugeymum Sr. Trefjasteypan í einingunum var um 1 cm að þykkt en styrkt á köntunum með þykkari trefjasteypu. Frauðplast, um 5 cm þykkt, var fest á innra byrði eininganna. Þessar einingar hafa staðið vel og reyndust mikilvægar sem undanfari samlokueininga sem fylgdu í kjölfarið.
Snemma var farið að þróa hugmyndir að léttum samlokueiningum með einangrunarkjarna úr steinull. Hafin var framleiðsla og uppsetning innveggjaeininga og utanhússeininga í bílskúra og fiskeldishús. Trefjasteypan í innanhúss-samlokueiningar var 10 mm að þykkt og var 100mm steinullarkjarni á milli.
Trefjasteypubyrðin voru tengd saman með sérstökum kantstyrkingum og skerbindingu án þess að við samsetningar myndaðist kulda-eða hljóðbrú. Markmið Sérsteypunnar með framleiðslu samlokueininganna var að koma á markað léttum einingum byggðum á íslenskum hráefnum, hugviti og hönnun.
Ekki er vitað annað en að samlokurnar hafi reynst vel þar sem þær voru settar upp. Þá voru gerðar tilraunir með framleiðslu þunnra trefjasteypuflísa á gólf auk vatnsbretta undir glugga, sem hentuðu í Íslenska múrkerfið
Lokaorð
Eins og sagt var hér að framan var Sérsteypan hugsuð í upphafi sem rannsókna- og þróunarfyrirtæki sem þróa skyldi markaðsvörur á sviði múr- og steinsteyputækni, sem ekki hafði verið fyrir hendi á íslenskum markaði áður. Skyldi markaðsþróunin byggjast á notkun íslenskra steinefna, íslensks sements og notkun kísilryks umfram það sem þegar var að finna í sementinu. Með þessu var unnið að því að stækka markaðinn fyrir nýjar, íslenskar sementsbundnar vörur hér á landi.
Upphaflega var ætlunin að sá árangur sem yrði af rannsóknum og þróunarstarfsemi Sérsteypunnar og öll sú þekking sem skapast hefði í því ferli yrði á heppilegum tímapunkti seld til fyrirtækis eða fyrirtækja, sem hefja vildu framleiðslu á þeim trausta grunni.
Árið 1989 hafði þróunarstarfið skilað umtalsverðum árangri en ekki gekk vel að fá fyrirtæki til að yfirtaka og halda áfram þeirri vöruþróun, sem þegar hafði náðst. Var þar helst horft til þróunar múrblandna og byggingarhluta úr trefjasteypu.
Reynt var að halda vöruþróun steypu í vega- og virkjanagerð að Vegagerðinni og vega- og byggingarverktökum, en hún komst aldrei lengra en á tilraunastig. Þetta hafði það í för með sér að Sérsteypan tók sjálf á sig framhaldið og hóf framleiðslu á múrblöndum, byggingarhlutum úr trefjasteypu og framkvæmd vegatilrauna.
Sérsteypan sf. var lögð niður í byrjun árs 1995 og öll þróunarvinna þar lagðist niður. Múrblönduhluti hennar var færður til nýs fyrirtækis í Reykjavík sem fyrr segir en annað fært til Sementsverksmiðjunnar eða selt.
Lauk þar með ferli mestu þróunarvinnu í nýsköpun á múr- og sértækri steypu sem unnin hefur verið hér á landi. Hún varð þess valdandi að teknar voru upp nútímalegar vinnuaðferðir í múrverki og kom í veg fyrir mikinn innflutning viðgerða- og múrblandna erlendis frá, sem annars hefði reynst nauðsynlegur.
Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri tæknimála hjá Sementsverksmiðju ríkisins.
Heimild: https://sites.google.com/view/sementogsteypa-is/heim