Áhyggjufullir þjóðarleiðtogar
Yfirlýsingar margra ráðamanna í upphafi síðustu viku báru vitni um örvæntingu. Fyrir sex árum í París voru leiðtogar smárra eyríkja í Kyrrahafi og Indlandshafi áberandi. Þeir bentu á að hækki hitastig Jarðar umfram 1,5°C sökkvi heimili og lífsviðurværi í sæ. Hér í Glasgow bættust við leiðtogar auðugra ríkja í norðrinu. Forsætisráðherra Belgíu, Alexander Croo nefndi flóðin sl. sumar þegar 38 manns drukknuðu og forseti Bandaríkjanna lýsti skógareldunum í Kaliforníu. Á Norðurslóðum er hækkun hitastigs nær þrisvar sinn örari en sunnar á hnettinum. Forseti Finnlands, Sauli Niinistö, sagði einfaldlega: „Ef við töpum Norðurslóðum, munum við tapa plánetunni.“
Traust
Meginforsenda samninga er að traust ríki milli samningsaðila. Skilaboð Joe Bidens Bandaríkjaforseta til ráðstefnunnar voru að Bandaríkin væru nú aftur með og að þau myndu leiða með góðu fordæmi. Hljómar vel en það er gömul saga og ný að á Bandaríkjunum er ekki fullkomlega treystandi. Á Ríó ráðstefnunni árið 1992 skrifaði George Bush eldri undir Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna gegn því skilyrði að samningurinn væri í engu bindandi um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Úr þessu var reynt að bæta með Kyoto-bókuninni árið 1997 og Bill Clinton skrifaði undir en Öldungadeildin hafnaði að fullgilda bókunina. George W. Bush yngri sagði síðan Bandaríkin frá Kyoto-bókuninni skömmu eftir að hann tók við embætti 2001.
Eftir að Kaupmannahafnarráðstefnan fór út um þúfur 2009 tóku Bandaríkin forystuna um gerð nýs samnings og samkomulag náðist loks í París árið 2015. Samkomulag sem byggði á frjálsum framlögum ríkja til að minnka losun, engin bindandi ákvæði, ella hefði Öldungadeildin ekki samþykkt. Ríkti mikil ánægja um sinn en svo varð Donald Trump forseti og sagði Bandaríkin frá Parísarsamningnum.
Um leið og menn fagna endurkomu Bandaríkjanna er traustið takmarkað. Ekki er útilokað að Trump verði kjörinn forseti á ný.
Laurence Tubiana, franskur diplómat sem var ein af helstu arkitektum Parísarsamkomulagsins sagði við breska blaðið Guardian, að vissulega hefði Biden sett loftslagsmálin í forgang og að Bandaríkin hefðu þokað ríkjum eins og Sádi Arabíu, Suður Afríku og Indlandi í rétta átt. Á hinn bóginn, benti hún á að Bandaríkin glímdu við skort á trúverðugleika í loftslagsmálum og að leiðtogar annarra ríkja pirruðu sig á ekki væri unnt að treysta á Bandaríkin til lengri tíma vegna alls kyns pólitískra vandamála heima við.
Ísland
Í ræðu sinni útskýrði forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, að þessa dagana fari fram stjórnarmyndunarviðræður á Íslandi, að ríkisstjórnarflokkarnir ræði sín á milli hvernig styrkja megi markmið Íslands fyrir 2030. Með öðrum orðum, loftslagsstefna Íslands er enn á samningaborðinu.
Fátt bendir til að ríkisstjórnarmyndun klárist í þessari viku og því spurning hvort sitjandi umhverfisráðherra fái umboð til að segja nokkuð nýtt um stefnu landsins þegar hann stígur í ræðustól hér í Glasgow nú þegar ráðherrar taka yfir samningaviðræðurnar.
Nokkur skref í rétta átt
- Samkomulag um að hætta kolabruna: Yfir 40 lönd, þ.m.t. Kanada, Pólland og Síle, hafa undirritað samkomulag um að fasa út kolaorku. Ástralía, Bandaríkin, Indland og Kína eru ekki með í þessu samkomulagi en í Bandaríkjunum eru kolin samt klárlega á leið út. New York Times greinir frá því að bandaríska sendinefndin hafi ekki viljað styggja öldungadeildarþingmanninn Joe Manchin.
- Loforð um að stöðva skógareyðingu: Yfir 100 ríki með 90% skóglendi Jarðar innan sinna landamæra lofuðu að stöðva skógareyðingu fyrir árið 2030. Sams konar loforð var gefið árið 2014 og átti að uppfylla fyrir lok 2020. Munurinn er að nú eru Brasilía, Indónesía og Kongó með og verndaraðgerðir verða fjármagnaðar.
- Dregið úr losun metans um 30%: Ríflega 80 ríki hafa hafa náð samkomulagi um að minnka losun metans um 30%. Þetta er um sumt einföld aðgerð því mikið af metani lekur út í olíuhreinsistöðvum og gasleiðslum. Næst á eftir koltvísýringi er metangas mikilvægasta gróðurhúsalofttegundin. Umtalsverður árangur gæti náðst ef samdráttur metangass verður nógu hraður. Um 0,5°C hitastigshækkun skrifast á metangasið og þótt það endist jafn ekki lengi í andrúmsloftinu og koltvísýringur er hlýnunarmáttur þess 80 sinnum meiri.
- Indland stefnir á kolefnishlutleysi árið 2070: Yfirlýsing Nadendra Modi, forsætisráðherra Indlands, kom á óvart. Indland ætlar að ná kolefnishlutleysi árið 2070 – 20 árum á eftir Evrópu og Bandaríkjunum og 10 árum á eftir Kína og Rússlandi. Mestu skiptir að Indland viðurkennir að kolaorka sé ekki framtíðin. Modi hét því jafnframt að árið 2030 yrði helmingur allrar orku í Indlandi framleiddur með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þessi aðgerð er háð því að Indland fá fjárhagslega aðstoð.
- Kolefnishlutleysi á fjármálamarkaðnum: 450 fyrirtæki sem samanlagt ráða yfir um 40% af fjármagni heimsins hafa undirritað samkomulag sem skuldbindur þau til að nýta græna orku með 1,5°C markmiðið að leiðarljósi.
Hverju breytir þetta?
Hugsanlega dugir þetta – samanlagt og ef allir standa við sitt – til að takmarka hækkun hitastigs jarðar við 1,8°C, segir Alþjóðaorkumálastofnunin IEA. Laurent Fabius, forseti Parísar-ráðstefnunnar, benti á að aðeins væri um tilgátu að ræða.
Nú reynir á Parísarsamkomulagið
Í Glasgow hafa myndast ný bandalög ríkja sem sýna að það er fleiri en ein leið til að uppfylla Parísarsamkomulagið. Í stað þess að tryggja að öll ríki taki þátt hafa náðst samningar um útfösun kola þótt nokkur lykilríki séu ekki með. Í samkomulögum um að draga úr metanleka um 30% og stöðvun skógareyðingar eru svo enn fleiri ríki með.
Fjármögnun aðgerða í þriðja heiminum
Fjármögnun aðgerða í ríkjum þriðja heimsins er lykilatriði við framkvæmd Parísarsamningsins. The Guardian hefur eftir John Kerry að þegar á næsta ári verði unnt að standa við loforð iðnríkjanna um 100 milljarða fjárframlag á ári frá og með 2020. Það er tveimur árum of seint en ekki þremur eins og óttast var. Málið snýst um traust.
Í þessari viku verður barist um fjármagn til að aðstoða þróunarríki við að bregðast við afleiðingum loftslagsbreytinga og nýta hreina orku í stað kola eða olíu.