Sú niðurstaða sem í dag var kynnt, er varðar slitabú bankanna og undanþágu frá fjármagnshöftum, er dæmi um afar jákvæð áhrif þess, þegar allir taka höndum saman og leiða mál til lykta.
Víðtækt samstarf, og samstaða, þegar mikið liggur við, er ávísun á að betri niðurstaða fáist að lokum.
Það hefur ekki farið framhjá neinum að samstaða um hvernig skuli taka á greiðslujafnaðarvandanum sem snýr að slitabúum hinna föllnu banka, og hagkerfinu öllu um leið, hefur lítil verið á sviði stjórnmálanna.
Bæði á opinberum vettvangi og bak við tjöldin, hefur verið deilt um hvernig skuli haldið á málum og hvaða stefna tekin.
Þrátt fyrir deilur hefur samstarfið um að leysa vandann haldið áfram. Stundum er það þannig, að ágreiningur og skoðanaskipti - jafnvel átök - leiða að lokum til góðrar niðurstöðu. Svo virðist vera um þessa niðurstöðu sem kynnt var í dag.
Framkvæmdahópur um afnám fjármagnshafta hefur nú skilað af sér góðu verki, þó enn eigi eftir að framkvæma þá áætlun sem skipulögð hefur verið. Það sama á má segja um Seðlabanka Íslands og sérfræðinga stjórnvalda.
Það ber að hrósa fyrir það sem vel er gert, og þessi tímamót sem kynnt voru í dag, eru enn eitt atriðið sem nefna miklum árangri í endurreisnarstarfinu til staðfestingar.
Lögfræðingurinn Lee Bucheit, sem var stjórnvöldum til ráðgjafar, hefur sagt að vafalítið muni endurreisnin á Íslandi verða í framtíðinni dæmisaga um það, hvernig skuli taka á fjármála- og gjaldmiðlakrísu. Það segir sitt um hvernig endurreisnin hefur gengið, síðastliðin sjö ár.